miðvikudagur, mars 24, 2010

Að grípa gæsina....

Er ekki lífið fullt af tækifærum? Ég tók þau orð upp í mig eftir hrun að kreppuumhverfið fæli í sér tækifæri. Ég vonaði í leiðinni að ég þyrfti ekki að éta þau orð þversum ofan í mig aftur. Ég held, líkt og máltækið segir: "Oft ratast kjöftugum rétt á munn" að þetta hafi ekki verið ofsagt.
Það má til dæmis nefna að bankarnir eiga núna fyrirtæki á kippum sem þeir vilja svo gjarnan koma frá sér til einstaklinga sem geta og vilja reka þau. Þessi fyrirtæki eru á lágmarksverði, nánast á brunaútsölu miðað við hvað í þeim býr.
Það eru líka tækifæri núna sem voru ekki í þenslunni til að starta rekstri sjálfur. Kosturinn við það er að þá er hægt að velja sér hvaða svið menn vilja hasla sér völl á. Fyrir hrun var allt í boði og yfirleitt var offramboð á öllum hlutum. Það er yfirleitt ekki lengur.

Okkur Erlunni bauðst loksins húsnæði á frábærum stað hér við Austurveg á Selfossi til að opna rekstur. Þar verður glæsileg ísbúð þar sem fólk getur sest niður og notið þess að borða ísinn sinn í notalegu umhverfi. Svo verður minjagripaverslun og internetkaffi í sama húsnæði með opið á milli.
Við teljum eftir mikla rannsóknarvinnu að þetta muni bera sig vel. Þetta er líka tækifæri fyrir Erlu að vinna á staðnum en hún hefur keyrt til vinnu í Reykjavík síðan við fluttum austur. Erla verður rekstrarstjóri yfir þessu og mun stýra daglegum rekstri.
Ég fer svo auðvitað bara að veiða og svoleiðis..... held ég. Hugsanlega skoða ég hvort ég sinni einhverri lögfræðiþjónustu hér fyrir austan eftir nám. Hvert formið verður er ekki enn ákveðið.
En ég hlakka til að fá ykkur í ísbúðina okkar - þangað verða allir velkomnir.

Engin ummæli: