mánudagur, mars 22, 2010

Jökullinn gýs

Mér er minnisstætt úr uppvextinum að afi sagði stundum frá gosinu í Eyjafjallajöki 1821. Ekki þannig að hann hafi verið fæddur þá heldur voru þetta lýsingar munnmæla sem hann hafði heyrt þegar hann sjálfur var krakki. Lýsingarnar voru af öskufalli og drunum og dynkjum.
Nú gýs hann aftur. Í mínum huga var gos í Eyjafjallajökli alltaf eitthvað mikið og stórfenglegt. Þetta gos er afar langt frá mínum hugmyndum um það. Af fréttamyndum að dæma hefur mér fundist þetta helst líkjast ágætri áramótabrennu.
Við Erlan fórum í gær að skoða þetta. Með því að fara áleiðis upp í Tindfjöll kemst maður á mjög fínan útsýnisstað. Ég verð að viðurkenna að þetta bjargaði heilmiklu. Þetta er ekki lengur gamlársbrenna.
Eldarnir voru mjög tignarlegir og teygðu sig langt í loft upp, margir mjög efnismiklir og flottir.

Það kitlar mig alltaf þegar gýs, get ekki að því gert. það á vafalítið rætur að rekja til uppvaxtaráranna minna. Þegar ég var 3ja ára 1963 byrjaði Surtseyjargosið sem blasti við út um herbergisgluggann minn. Myndin af risa gosstrók og eldingum og dynkjum er enn fersk, það gos varði í 4 ár. Svo gaus Hekla 1970. Ég sá augnablikið þegar gosstrókurinn kom upp fyrir brúnir Þríhyrnings, hljóp inn og tilkynnti að Hekla væri byrjuð að gjósa. Svo var farið á staðinn - og skoðað, ég man enn eftir dynkjunum úr gosinu, eins og járnbrúsum væri slegið saman. Síðan gaus í Vestmannaeyjum þremur árum seinna. Nóttina sem það byrjaði vorum við vakin upp kl. 6 með þeim fréttum að eyjarnar væru sprungnar og væru að sökkva í sæ. Það sem blasti við í myrkrinu var eins og blóðrautt sólarlag, risaeldur, allur himininn logaði og hugsunin um að fólkið í Eyjum væri að farast var yfirþyrmandi og til að undirstrika kraftinn í gosinu þá heyrðust miklar drunur og dynkir og það hrikti í gluggum og hurðum hjá okkur. Það fór sem betur fer vel eins og allir vita. Gosið var ótrúlega tilkomumikið og magnað.

Mývatnseldar byrjuðu svo 1975 með mörgum eldgosum á 9 ára tímabili. Við Erla komumst í mikið návígi við gosið 1980...hmm tölum ekki nánar um það. Hekla gaus líka 1980. Við brunuðum þangað um leið og fréttist af gosinu og vorum þar um nóttina í návígi við gríðarlegt gos. Aftur gaus Hekla 1990 og enn árið 2000. Öll þessi gos hef ég séð og alltaf fundið fyrir einhverri lotningu gagnvart þeim.
Það er kannski ekki furða þó eldgos hafi skipað sér stóran sess í mínum huga. Mér sýnist nú Erlan hafa smitast talsvert af mér, allavega var hún búin að vera á refresh takkanum á skjálftavaktinni fram að gosi núna og uppfærði mig reglulega.

Það var gaman að sjá þetta í gærkvöldi og upplifa að þetta er alvöru eldgos sem er þarna á ferðinni á Fimmvörðuhálsi. Hugmyndin var að ganga hálsinn í sumar, við sjáum til með það. kannski verður það bara enn meira spennandi ef hægt verður að skoða gos í návígi í leiðinni :o)
Nótið daganna.

Engin ummæli: