fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Orð fá vængi.......

og fljúga. Margir kunna þá list að vitna í fleyg orð og tilvitnanir. Oftast utanbókarlærð orð einhverra vitringa sem einhverntíman létu gullkornin falla. Orð sem hafa síðan flogið um tilveruna fram og aftur kynslóð eftir kynslóð.
Orð, góð gjöf, þessi tjáningarmáti sem við notum alla daga er stórmerkilegt fyrirbæri. Þau greina okkur frá öllum dýrategundum merkurinnar. Þau hvorttveggja byggja upp og skapa og brjóta niður og mylja.
Öll þekking manna felst í orðum. Viskan er bundin í orð. Heimskan líka. Og öll flóran þar á milli.

Þú sest í skóla og það sem þú gerir er að innbyrða orðaflaum. Endalaust magn orða.
Orðin byggja upp þekkingu hjá þér og þekkingin getur af sér nýjan orðaflaum frá þér sem aðrir læra svo af.

Afhverju svona heimspekilegur þanki?
Jú ég sat fyrirlestur hjá miklum fræðimanni áðan Dr. Guðmundi Sigurðssyni sérfræðingi í skaðabótarétti. Hann á skilið orðu fyrir gífurlegt orðaflæði á stuttum tíma.
Einhverntíman sat hann og nam fræðin sín eins og nemendur hans í dag.
Mér var skemmt yfir þessum þankagangi mínum hvernig hann var að yfirfæra fræðin til okkar. Og allt í einu fannst mér þetta svo merkilegt, þetta með talið, þekkinguna, mann fram af manni ……allt með orðum. Þetta er eins og keðja, einn hlekkur tekur við af öðrum.

Fór svo að hugsa um allt sem sagt hefur verið gott og vont. Fleygu orðin flottu sem lifa kynslóðirnar og líka sögð orð um náungann sem líka fá flugfjaðrir og fljúga þangað sem þeim sýnist, í allar áttir eins og vindurinn blæs, þó sannleiksgildið sé ekki alltaf háheilagt. Orð sem hafa skaðað og skemmt.
Já góðar gjafir geta verið vandmeðfarnar.
Vandinn við sögð orð er að ekki er hægt að spóla til baka. Ef þau særa þá er í mesta lagi hægt að setja plástur með fyrirgefningarsmyrsli á og vona að grói. Sumt grær, í annað hleypur ígerð.
Ekki er endilega gott að átta sig á því hvort gerist.

Það er háalvarlegt hlutverk að vera hlekkur í keðjunni, því keðja slitnar alltaf á veikasta hlekknum.

Betra að vanda sig.

3 ummæli:

Heidar sagði...

Hugsa sér, einu sinni var þessi prófessor ómálga barn sem ekkert kunni en svo settist hann á skólabekk og varð Viti.

Nú ert þú í skóla, senn hálfnaður á leið þinni að verða Viti. Hvað verður þú þá þegar þú ert hálfnaður?

(Þar sem orð hafa vængi þá eiga þessi sennilega einhvertímann eftir að koma fljúgandi í bakið á mér).
:-)

Gangi þér annars vel í lærdómnum vinur minn !

Erling.... sagði...

Varstu viljandi að leggja háls þinn í höggstokkinn eða.........?
Af orðum þínum má skilja að sá sem ekki er lagður af stað í læri sé ómálga og kunni ekkert, sá sem hálfnaður sé, sé hálfviti og sá sem lokið hefur námi sé viti. Af þessu mætti gagnspyrja um stöðu þína kæri vinur, en þú svaraðir henni fyrirfram, svo ég spyr einskis.

Heidar sagði...

Sorry, þú sagðir það sjálfur en ekki ég. :)

Varðandi mig, þá er ég búinn með mitt nám og er ALVITI!