föstudagur, september 10, 2004

“Enginn veit ævina….

fyrr en öll er”. Ekki er víst að Abraham Lincoln hafi mikið verið að velta sér upp úr því hvernig hann ætti að verða forseti Bandaríkjanna á þeim tímapunkti þegar hann varð gjaldþrota í þriðja sinn á ævinni. Hann hefur sennilega verið frekar rislágur og ekki til stórkostlegra vinninga.
Ég hef séð á göngunni að spurningin á alls ekki að snúast um mistökin sem menn gera. Þau gera allir af svo mörgum og misjöfnum toga. Þau eru sennilega algengasta hátterni manna. Ég hef aftur á móti séð að spurningin snýst um hvernig menn og konur höndla mistökin. Ég hef séð að mistökin eru gott byggingarefni í sigrana sem á eftir koma.
Engum er lognið hollt lengi. Það styrkir stofninn þegar næðir um hann. Afraksturinn verður sterkara tré.
Ég hef séð fólk í kringum mig í misjöfnum kringumstæðum. Sumir fæðast með silfurskeið í munninum og svífa í gegnum lífið á bómullarhnoðra. Aðrir fæðast í stormi og eftir það er eins og stormurinn elti þá á röndum.
Er einstaklingurinn sem gengur inn úr storminum blautur og hrakinn verri eða óhæfari en hinn sem kemur vagandi úr lognmollunni?

Ég hef kynnst báðum týpunum og verð með fullri lotningu fyrir logntýpunni að staðsetja frekar stormtýpuna í brúnna. Reynslan er ólygnasti skólinn. Bankabók í reynslubanka er verðmæt inneign. Diploma úr fínustu skólum verður ekki sett að jöfnu.
Ætli Guð noti svona inneign? Næsta víst. Guð skapaði fegursta blómið, með þyrna.
Abraham Lincoln fæddist stormtýpa. Hann átti trú og leitaði í hana á erfiðum stundum. Hann er gott dæmi um að gæfa er ekki sama og gjörvileiki.

„Ég hef margsinnis verið tilneyddur að krjúpa á kné, vegna yfirþyrmandi sannfæringar um að ég geti ekkert annað.“ — Abraham Lincoln

Eigið góða helgi


2 ummæli:

Kletturinn sagði...

Gaman að þessu. Ég var einmitt að minnast á Lincoln í hádeginu, þá er ég var spurður hvernig ég helst myndi vilja hitta ef velja mætti úr stórmennum mannkynssögunnar.

Nafnlaus sagði...

Góður pistill Erling vinur minn. Menn opinbera sig best í erfiðleikum, það er þá sem á þá reynir. Er þetta ekki alltaf spurning um hvernig við tökumst á við kringumstæður okkar? Það hlýtur að ráða mestu um hvort þær reynast góðar eða slæmar. K.kv. Teddi.