laugardagur, september 04, 2004

Ferðalag......

Það er víst engin nýlunda að við Erla séum á einhverju flakki. Einhver ferðabaktería gistir í genum okkar. Þetta flakk okkar í dag var þó aðeins með öðru sniði en venjulega. Vinnustaðaferð Verkvangs var tilefnið.
Ferðin var fín og miklu líkari fjölskylduferð en vinnustaðaferð. Og ferðatilhögunin var með frumlegra móti... - Við fórum í berjamó austur að Dímon. Ekki að við ættum ekki nóg af berjum og sultum og safti og öllu sem hægt er að spyrða við ber, þá bættum við um betur og týndum nokkur kíló. Alltaf gott að eiga beeeeeerrrr.

Svo skemmtilega vildi líka til að akkúrat klukkutímann sem við týndum berin og fengum okkur nestið rigndi eins og hellt væri úr fötu-m…(!)

Við skoðuðum líka Sögusafnið á Hvolsvelli og fræddumst um Njálu. Þar var ung og afar málglöð kona sem sagði okkur þessa margfrægu sögu á afskaplega lifandi og skemmtilegan hátt.
Ég lifi mig alltaf sérstaklega inn í Brennu-Njálssögu vegna staðháttanna í sögunni, þekki þarna hverja þúfu. Framsetningin konunnar kom skemmtilega á óvart.

Við enduðum svo, eftir að hafa skoðað nokkra merkilega staði í Villingaholtshreppi (hér stóð "Ölfusinu" en einhver góður leiðrétti mig og tjáði mér að Urriðafoss væri ekki í Ölfusi heldur í Villingaholtshreppi - leiðrétt hér með) , m.a. Urriðafoss niður með Þjórsá, í matarboði í Þorlákshöfn hjá einum starfsmanna Verkvangs, Sigurði Grétari Guðmundssyni, pistlahöfundi á Mogganum með meiru. Hann er í fullri vinnu og lítur út fyrir að vera ekki deginum eldri en 60 ára en hann er alveg að verða 70…? Ótrúlega sprækur.
Þar fengum við þessa fínu kjötsúpu að rammíslenskum hætti og kirsuberjaostaköku í eftirrétt...mmmmmmm.
Góð ferð, afslöppuð og allir í fínu formi.

Að lokum til gamans... Ég er búinn að fá fyrsta alvöru verkefnið á lögfræðilegum grunni. Ég vinn það með skólanum í vetur.
Guðs blessun.

Hafið það gott.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta hefur án efa verið skemmtileg ferð :) Ég og Arna erum einmitt að fara í sveppamó á eftir í Vaglaskóg :) hlökkum mikið til enda alltaf gaman að tína sveppi að ég tali nú ekki um að borða þá.. hehe ;) Minnumst allra ferðanna þar sem við tíndumn sveppi saman, allar ferðirnar í Bifröst og svo endalaust fleiri ferðir.. Veiði o.fl... Hreint ótrúlega skemmtilegar minningar. Takk pabbi :) Þín Eygló

Nafnlaus sagði...

Ég er forvitinn. Um hvað snýst verkefnið. Og auðvitað: Til hamingju með það! k.kv. Teddi.

Erling.... sagði...

Takk fyrir það.
Það er fyrir verkfræðistofu og snýst um að smíða nýtt kerfi fyrir eftirlitsþátt hennar, byggt á dómaframkvæmdum. Síðan að hanna eyðublöð fyrir eftirlitsmenn með réttu spurningunum svo lagalegs réttar stofunnar sé gætt ef upp koma einhver leiðindamál. Líka á að fara yfir nokkra aðra þætti sem lúta að lagalega umhverfinu sem stofan starfar við.
Bkv EM

Nafnlaus sagði...

Hmm, verð að hryggja þig með því að Urriðafoss er ekki í Ölfusi... :-/
Hann er í Villingaholtshrepp.

Erling.... sagði...

Hver sem þú ert, þá er þetta hárrétt hjá þér. Maður á að vanda sig. Kv EM