laugardagur, september 18, 2004

Það var notalegt......

að finna kaffiilminn sem fyllti húsið þegar ég kom heim úr bakaríinu í morgun. Ilmurinn indæll og bragðið eftir því. Aldrei þessu vant var frúin á bænum vöknuð og komin á fætur. Oftast er ég búinn að vera að sýsla eitthvað eða allavega kíkja í Moggann þegar hún kýs að ganga inní daginn. (um helgar þegar hún má sofa út)
Tilfinningin var góð, hreiðrið var svo friðsælt og gott.

Við hjónin eyddum svo þessum friðsæla laugardagsmorgni í vangaveltur um hvað er ríkidæmi ásamt gluggi í blöðin inn á milli. Við vorum t.d. sammála um að það er ríkidæmi að eiga svona morgna saman við eldhúsgluggann og horfa á haustlituð laufin falla af trjánum, veltandi vöngum um lífið og tilveruna. Litir náttúrinnar eru fallegir núna og gaman að vera áhorfandi í ylnum innan við glerið þegar naprir haustvindar blása, sem var þó ekki raunin þennan morguninn heldur fallegt haustveður og logn.

Sumum finnst ríkidæmi snúast um peninga. Við erum algerlega á annarri skoðun.
Í fyrsta lagi finnst okkur mikið ríkidæmi bara það að vera Íslendingur, að njóta þessara forréttinda að fæðast inní þjóðfélag þar sem friður og velmegun ríkir. Það myndu margir þiggja að vera í þessari aðstöðu að geta rölt út í bakarí í morgunsárið, engir byssuhvellir, ekkert hungur,engin mengun, kaupa ilmandi bakkelsi vitandi að rjúkandi nýlagað kaffi bíður þegar heim er komið.
Okkur skortir forsendur til að meta þetta eins og ber. Ísland er góð gjöf til okkar. Þetta væri himnaríki þeim sem ala aldur sinn við hungur og stríð.
Við fjölskyldan búum við góða heilsu. Það er ekki sjálfgefið. Margur myndi gefa milljarðana sína í skiptum fyrir heilsuna okkar.
Það er mikið ríkidæmi að eiga börn…. það eitt og sér… og svo hitt að sjá svo börnin sigla af stað á eigin bát án þess að hafa lent í krumlu eiturlyfja eða annarra óárana sem virðist svo auðvelt að lenda í, við erum Guði þakklát fyrir vegferð okkar barna.

Niðurstaða okkar var að ríkidæmi verði ekki keypt með peningum. Peningar umfram þarfir fara ekki á vogarskál ríkidæmisins.
Okkur finnst ríkidæmi felast í gullna meðalveginum, norminu á öllum sviðum.
Að eiga samfélag við Guð. Að halda heilsu. Að eiga í sig og á. Að rækta vini sína. Að vera sáttur. Að vera hamingjusamur. Að eiga inneign í reynslubanka sem er laus til úttektar.

Þetta var skemmtileg og holl pæling og væri gaman að fá álit ykkar á þessu.

Hvað merkir orðið “ríkidæmi”….?

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mitt ríkidæmi er að eiga þig og mömmu að... Lov U þín Eygló

Nafnlaus sagði...

Er það ekki ríkidæmi að njóta þess sem maður hefur án þess að sakna þess sem maður hefur ekki. Ég er sjálfur afskaplega ríkur maður, sáttur við Guð og menn, og fer saddur að sofa á hverju kvöldi. Góður pistill hjá þér minn kæri. Teddi.

Nafnlaus sagði...

Ríkidæmi er meðal annars að eiga Guð - maka - börn -vini og gera sér grein fyrir því góða sem maður á og hafa vit til þess að þakka fyrir það og gleðjast yfir því.
kveðja,
Kata

Kletturinn sagði...

Erling minn, það er gott að sjá að þú lest bloggið mitt. Og lærir af því.

Þess vegna get ég ekki verið annað en sammála þér.

Kiddi Klettur