sunnudagur, maí 01, 2005

Sunnudagseftirmiðdagsþanki.

Skiptir það öllu máli?
Að vera ríkur og eiga mikið af peningum? Það virðist vera að flestir, allavega Íslendingar keppi mjög markvisst að því. Það er kannski ekki skrítið þegar litið er til hversu mikið er lagt uppúr því í allri umræðu, fréttaflutningi, auglýsingum og nánast í allri okkar íslensku veru. Peningamenn eru virtir mikils, peningamenn hafa aðgang þar sem öðrum er hann meinaður. Þeir geta gert nánast það sem þeim lystir.

Við sátum hér í stofunni, ég, Erla og hluti af dætrum okkar og ræddum þetta.
Hvað með önnur gildismöt? Hvað með þá ótal mörgu hæfileika aðra sem fólk ber í kringum okkur?
Hæfileiki til að safna miklu fé, einn og sér, er í raun vindgangur, vegna þess að þegar öllum þörfum einstaklingsins er fullnægt er í raun ekkert sem peningarnir gera meira fyrir viðkomandi. Alveg sama hversu háu fjalli honum tekst að safna.
Þessu má auðveldlega líkja við matarkistu. Ef þú safnar meira í hana en þú torgar, er restin ekkert að gera fyrir þig.

Eftirsóknin eftir peningum er samt sá drifkraftur sem rekur flesta út í vandræði með budduna sína.
Ótrúlega margir vilja sýnast efnameiri en þeir eru. Það er innantómt í góðu falli. Frúr sem labba sér út úr merkjabúðum óskandi sér að einhver sem þær þekkja, sjái sig, eru hjákátlegar þegar buddan sem er að sligast undan neyslunni hefði miklu betra af því að eigandinn legði leið sína í lágvöruverðs verslun og léti sér nægja eins flík, í aðeins ódýrara merki.

Eða karlinn sem finnst hann “stöðu sinnar vegna” verða að aka bíl sem kostar ekki undir einhverju ímynduðu marki, sem mótast oftar en ekki af því hvernig bíl nágranninn ekur. Þannig nauðgar hann svo buddunni sinni að jafnvel hagur heimilisins er að sligast undan greiðslubyrði sem annars þyrfti ekki að vera.

Fólk sem er fast í þessari hringiðu þarf nauðsynlega að brjóta af sér hlekkina, því vissulega er það bundið. Í ímyndarheimi neyslu og snobbs.

Þetta verður eins og tómur pakki, pappír utan um ekkert innihald, lítið meira.
Blákaldur veruleikinn stendur nefnilega alltaf upp úr á bak við hégómann. Hann getur ekki logið. Skuldadagar koma. Veruleikinn býr líka yfir þeirri staðreynd að ekkert af veraldarauðnum fer með okkur lengra en á grafarbakkann. Ekki flottu merkin, ekki dýri bíllinn, ekkert. Aðeins nakin smásál verður eftir sem mokað er yfir, og gleymist.

Ég var ánægður með tengdapabba í vikunni sem leið, hann var að endurnýja leigubílinn sinn. Í stað þess að kaupa nýjan bíl fyrir tæpar þrjár milljónir með tilheyrandi kostnaði, afföllum og vaxtabyrði keypti hann sér notaðan bíl, sömu gerðar og hann átti – en miklu minna ekinn. Með þessu móti fær hann bíl sem gerir allt nákvæmlega sama á götum borgarinnar og þriggja milljóna bíllinn hefði gert. Nema hvað að þessi bíll gerir honum kleyft að fara c.a. tvær sólarlandaferðir á ári - BARA FYRIR VAXTAMUNINN. Þá eru ekki nefnd afföll upp á hundruð þúsunda eða hvað hægt er að gera annað fyrir mismuninn á kaupverðinu sjálfu.
Skynsamlegt vægast sagt. Til hamingju með þetta Biggi.

Það, og vitna ég í fleyg orð "gerir lífið nefnilega svo miklu léttara að sætta sig við það strax, að á endanum eigum við ekkert nema það sem við erum", alveg eins og þegar við komum.

Njótið vikunnar framundan.

4 ummæli:

Íris sagði...

Vá, rosalega góður pistill!!! Og mikið rosalega er ég sammála þér!!

Nafnlaus sagði...

Vel mælt vinur minn, og það þarf ekki að taka það fram að ég er þér hjartanlega sammála.

Nafnlaus sagði...

Vel mælt mágur sæll, og ég er þér hjartanlega sammála.
kveðja,
Litlan

Nafnlaus sagði...

Góð grein, það eru allt of margir sem lifa of hátt bara til að sýnast fyrir náunganum. Ég held barasta að ég sé sammála öllu sem þú skrifaðir :):):):) Þín Arna