Það viðurkennist hér með að fluguveiði hefur ekki verið mín heillavænlegasta kúnst hingað til, allavega í aflatölum. Hnýtti þó yfir 100 flugur í vetur í lestrarpásum. Þetta er þó að koma smátt og smátt.
Mér var boðið í fluguveiði í Hlíðarvatn í Selvogi í vikunni.
Rokið var eins og mest verður í Hvalfirði, vatnið skóf, svo ekki var auðvelt að koma flugu út. Mér tókst þó að krækja í eina bleikju og missa aðrar tvær - á flugur sem ég hnýtti sjálfur.
Það skemmtilegasta við þennan túr var samt þegar ég var að hætta. Þá var rokið mikið og stóð af landi. Ég hafði sett geitung á línuna sem ég hnýtti í vetur og lét nú línuna fjúka út á vatnið og blakta eins og fána. Flugan hoppaði og skoppaði í vatnsborðinu og lét illa. Þetta náði heldur betur athygli vatnsbúanna. Þeir komu eins og eldibrandar upp úr öldunum og stukku á kvikindið fram og aftur, stórir og smáir. Enginn beit þó á fluguna og veit ég ekki hvort þeir voru að leika sér að flugunni eða bara að stríða mér. Hvort heldur var þá hafði ég mjög gaman af þessari uppákomu hjá þessum höfðingjum og fékk þá flugu í höfuðið að gaman væri að snúa sér meira að fluguveiði en ég hef gert hingað til.
Flott sýning sem ég átti erfitt með að slíta mig frá.
Ég hef ekki enn fundið tjaldvagn fyrir okkur. Nú er svo komið að ég er farinn að kíkja á Combi-camp líka svo ef þú veist um einhvern slíkan máttu gjarnan láta mig vita.
þakka hér með kærlega þeim sem hafa hringt með ábendingar.
Eigið góðan dag.
1 ummæli:
Sá einn camplet áðan út í Hólum - er samt ekkert viss um að hann hafi verið til sölu en ég sá hann ;-))
Skrifa ummæli