laugardagur, apríl 08, 2006

"Ég er ekki bara titill..!"

Ég stoppaði aðeins við þessi orð. Fannst hann ramba á athyglisverðan punkt.
Það er lítill vandi að fljóta með straumnum sem ber með sér gildi þjóðfélagsins hverju sinni og gleyma einmitt þessum sannleika.

Titladýrkun er óhugnanlega mikil í þjóðfélaginu í dag. Best er ef titillinn ber með sér ríkidæmi eða völd. Þá ertu merkilegur í augum samborgaranna.
Oft hefur farið í taugarnar á mér sá smáborgarabragur sem felst í því að tipla á tánum kringum stjórnmálamenn, eins og þeir séu guðlegar verur. Það er þó annar kapítuli sem væri efni í langan pistil.
Það er þannig, held ég, að menn átta sig oft ekki á þessum sannleika, sem Árni Sigfússon Sjálfstæðismaður og bæjarstjóri í Reykjanesbæ rambaði á í viðtali við Morgunblaðið í dag, fyrr en einhverskonar vanda ber að höndum sem er mönnum ofviða.
Það er oft þar, sem menn sjá hversu litlir þeir eru og hversu lífið er fallvalt og ofurselt
ytri aðstæðum sem menn ráða ekki við, - been there done that. Ég held að það hafi líka þau áhrif á menn að þeir koma auga á hvað þeir sjálfir, standa, þegar öllu er á botninn hvolft, nákvæmlega jafnir háu titlunum. Árni var eitt sinn borgarstjóri Reykjavíkur en er nú bæjarstjóri, hann var spurður út í ósigra á hinum pólitíska vettvangi í tilefni af því.
Hann hefur staðið frammi fyrir krabbameini í líkama eiginkonu sinnar, sem ekki leit vel út. Það hefur án efa fært honum í hendur verkfæri til að rekja hismi frá höfrum.

Ég held að það sé manninum hollt að standa frammi fyrir erfiðum kringumstæðum þar sem hann áttar sig á smæð sinni. Erfið reynsla getur skyndilega og óvægið sýnt fram á að verðmæti lífsins felast í allt öðru en fjármagni eða manndómstitlum. Þá verða titlar og peningar einskis virði, fyrir utan afatitilinn auðvitað....! Það sem þá öðlast vægi er utan þessara gervigilda, það verður mannlega hliðin sem snýr að einstaklingnum, sem tekur yfir öll gildi. Orð sem hlýja, handtak sem yljar, samkennd sem virkar, eins og lífgefandi afl inn í ofviða kringumstæður.
Ráðherrann, forstjórinn og doktorinn eru jafnberskjaldaðir frammi fyrir óumflýjanlegum ofviða kringumstæðum eins og róninn niðri á Austurvelli, allir eru jafnir.

Boðskapur páskanna ber með sér aðmýkingu sem færði jafnvel sjálfan Guðsson upp á kross, þar sem hann lét lífið sem sakamaður. Hann veifaði ekki titli sínum... þó ekkert hefði verið auðveldara!
Hvaða hrokagikkur æti ekki hattinn sinn, ef hann bara stæði í skugganum af honum?

Engin ummæli: