þriðjudagur, apríl 11, 2006

Heilsan!

Er hún ekki stóra málið? Ég er búinn að vera kvefaður síðan í janúar, með hóstakviðum mismiklum. Ég hélt nú að þetta myndi rjátlast af mér, en svo hefur ekki orðið. Ég skrapp því loksins til læknis í morgun og lét hann kíkja á mig.
Niðurstaðan var sterkt sýklalyf. Óværan er að grassera í lungunum á mér og eins gott að reyna að kveða hana niður, áður en verra hlýst af. Hélt í nótt að ég væri kominn með lungnabólgu og er ekki frá því að sá grunur minn sé að styrkjast, þar sem ég er nú kominn með hita.

Gamli er því lasinn. Hann má illa við því. Hann á að vera að lesa fyrir próf og skrifa ritgerð.
Í það fer næsti mánuður og rúmlega það. Ég segi það enn: Það er mannréttindabrot að læsa náttúrubarn inni á þessum tíma......!

Ég hélt fyrirlestur um ritgerðina mína í gær fyrir nemendum og kennurum háskólans, fékk góðar viðtökur og mikið af spurningum úr sal. Held þetta hafi tekist nokkurn veginn skammlaust.

Ég verð samt að segja að efnið er þæfnara en ég átti von á. Ótrúlegt hvað fræðimenn eru á öndverðum meiði í þessum efnum og dómaframkvæmd er vægast sagt, afar misjöfn. Ég hélt að ég yrði ekki í vandræðum með að snara fram úr erminni góðri ritgerð úr verktakarétti, þó ég væri ekki búinn að læra hann. Það er bara í boði á meistarastigi.
Ég hef hinsvegar komist að því að lögfræðileg nálgun á efninu á lítið skylt við að vinna við fagið, sem ég gerði árum saman.
Samt finn ég að skilningur minn er dýpri á lögfræðilegu hliðinni vegna þessa bakgrunns. Enda eins gott þar sem stefnan var sett á byggingamarkaðinn strax í byrjun námsins.
Ég minnist orða Dr. Matthíasar G. Pálssonar sem kenndi mér samningarétt. Hann fór rétt lítillega inn á verktakarétt, en sagði til útskýringar á því, að verktakaréttur væri ekkert fyrir lögfræðinga, þetta væri heimur verkfræðinga. Margt til í því. Samt sem áður verða einhverjir lögfræðingar að sérhæfa sig á þessu sviði, því nóg er af málunum sem upp koma.

Ég held ég taki það rólega í kvöld og slaki á í hornsófanum með konunni minni, sjá svo til hvort ég verði ekki sprækari í fyrramálið.....

Njótið daganna vinir!

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ekki gott á þig að vera veikur pabbi minn. Mér fannst líka svolítið skrýtið þegar þú fórst í flíspeysu í gær og fórst svo ekkert út. Fórst bara í hana því þér var kalt!!!! Vonandi batnar þér fljótlega.... Þín Arna

Íris sagði...

Ekki gott á þig að vera lasinn!!
Vona að þér batni fljótt svo þú getir klárað ritgerðina þína og farið í prófin!!
Láttu þér batna!
kv. Íris

Nafnlaus sagði...

já Erling minn liggðu nú þægur og góður í bólinu þar til þár batnar eins og mamma myndi segja.
Ég er búin að gera mðér grein fyrir því fyrir lönu hversu heilsan er dýrmæt.
-Og það skar mig í hjartað að sjá hvað hann frændi okkar er veikur í síðustu viku.
Samt er hann svo duglegur og jákvæður og stutt í húmorinn.
Hann á grinilega góða að.

Nafnlaus sagði...

Erling minn blessaður leiðréttu nú villurnar í síðusta commentinu mínu

Erling.... sagði...

Hvoru þeirra? smá grín, en ég get ekki leiðrétt komment - bara eytt, og það geri ég nú ekki. Þetta er allt í lagi, bara innsláttarvillur, sem allir gera :)