þriðjudagur, apríl 25, 2006

Undirritun í votta viðurvist

Í gær lögðum við land undir fót sem leið lá austur á Selfoss. Endanlegir pappírar voru undirritaðir og við erum orðin löggildir óðalsbændur á Ölfusárbökkum. Afhending verður þann 1. júní n.k. sem er ekki nema rúmur mánuður. Við sömdum um að skúrinn ljóti á lóðarmörkunum, sem tilheyrir nágrannanum, verði farinn þegar við komum. Það var góð lending í því máli.

Þessi næsti kafli sögunnar okkar verður væntanlega öðruvísi. Við höfum einu sinni áður búið utan Reykjavíkur. Það var á Akranesi á fyrstu metrunum okkar saman. Ég lærði þar til smíða. Það var góður tími, sem ég hugsa gjarnan svolítið værðarlega til.
Ég hef mikla trú á að við munum finna þessa notalegu tilfinningu í húsinu við ána.

Mér er ofarlega í huga við þessi tímamót hversu ótrúlegar stefnur lífið getur tekið. Það er með miklum ólíkindum að líta yfir farinn veg undanfarinna ára. Hvernig Thermo fyrirtækið reyndist lymskuleg svikamylla sem sendi okkur fjárhagslega niður á byrjunarreit aftur, eftir tíu ára streð við að vinna okkur upp úr gjaldþroti. Ólíkindaleg viðbrögð fólks við því, og svo viðskilnaður okkar úr kirkjunni í framhaldi af því.
Ég hef aldrei haft skýrari mynd af öllu þessu ferli en nú. Reynsla áranna hefur kennt mér á nótnaborð manneðlisins, hversu við erum mis innréttuð. Sumir eru af Guði gerðir þessi gæða manngerð, meðan aðrir eru í eðli sínu, flagð undir fögru skinni.
Það síðarnefnda hef ég, af einskærri sjálfselsku, hætt að nenna að eiga samskipti við.
Sumum finnst þetta vafalítið hrokafullt viðhorf. Það er samt ekki svo, heldur frjálst val. Enda eigum við góða vini í kringum okkur sem sprengja gjarnan gæðastaðla.

Í lagadeild hef ég líka kynnst mörgum með þessi gæða gen. Kannski hefur það eitthvað að gera með hvað þessir krakkar eru “heppnir í höfðinu”. Það eru forréttindi að fá að kynnast svona hópi einstaklinga sem skara fram úr hvað greind og atgervi varðar. Margir þeirra hafa allt til að bera til að verða frábærir kennimenn og stjórnendur og eiga án nokkurs vafa eftir að verða áberandi einstaklingar í þjóðfélaginu - á eigin verðleikum. Í þessu síðastnefnda liggur þunginn, því mikil gjá skilur að þessa manngerð, og þá sem þurfa að skreyta sig annarra fjöðrum.

Lífið er svo stórkostlegt. Fjölbreytileiki þess er svo mikill ef maður leyfir því að dansa við sig. Sum danssporin verða að vísu svolítið þungbær eins og t.d. þau sem ég lýsti hér að ofan. En það góða er að ef maður leyfir dansinum að halda áfram, þá er eins og lífið sjálft leiði sporin og ákveði taktinn, og úr verður fallegur tangó.

Það er tilhlökkun í okkur.

2 ummæli:

Íris sagði...

Innilega til hamingju að þetta skuli vera komið í höfn!
Verður gaman að koma í heimsókn í húsið við ána!! Gangi þér svo vel að klára ritgerð og próf.

Heidar sagði...

Það er nú það!

Kæru vinir, innilega til hamingju, samgleðst ykkur með nýjan samanstað.