sunnudagur, apríl 16, 2006

Páskar!

Ættu að vera stærsta hátíð kristinna manna. Þeir eru samt einhvern veginn skör lægra settir hjá almenningi, en t.d jólin. Um þessa hátíð ættum við að hafa fleiri orð en annað. Ekkert í kristni skiptir jafnmiklu máli og páskar. Ekkert sem jafnast á við þá merkilegu atburði sem gerðust þá.
Atburðir sem eru staðfestir af ótal samtímariturum. Upprisan, sem á sér enga hliðstæðu í sögunni, upprisan sem er grundvallaratriði trúarinnar.

Hjá okkur fjölskyldunni eru páskar fyrst og fremst fjölskylduhátíð. Við hittumst öll í eftirmiðdaginn og elduðum lamb saman. Við hæfi í tilefni dagsins, og ekki skemmir hið óviðjafnanlega gamaldags bragð, ekkert annað krydd notað en gert var í gamladaga, sósan brún, gamaldags, gerð úr soðinu.
Þetta var gott samfélag. Ekki var lesinn stafkrókur í lögunum og ekkert skrifað í ritgerðinni í dag. Dagurinn var algerlega helgaður tilefninu.

Erla er að búa til “málshátt” sem hún ætlar að gefa mér á eftir. Ég er búinn að búa til einn sem hún fær. Þetta er smá frumraun og auðvitað er ekki um málshátt að ræða þar sem við erum að búa þetta til. En það er alltaf gaman að gera eitthvað nýtt. Ég hlakka til að lesa hvað hún segir.
Minn er svona:
“Henni snemma varð það ljóst, að gefa af eigum sínum væri lítil gjöf, hin sanna gjöf væri að gefa af sjálfri sér, af þeirri gjöf hennar erum við fjölskyldan ríkust.”

Þetta á vel við hana, enda er konan fágæt perla og vandfundin. Þannig perlur verða djásn.

Gleðilega Páskahátíð vinir mínir

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir með þér að samveran við krakkana okkar í dag var frábær og þau eru okkar raunverulegu ríkidæmi. Að finna litla arma umvefja sig og barnarödd sem segir, ég á þessa ömmu, er algerlega óviðjafnanlegt og heyra svo aðra litla hnátu segja með pínulítið smámæltum rómi; afi er beðstur. Takk fyrir málsháttinn til mín, ég tek við honum í auðmýkt. Ég bjó nú ekki til málshátt en vil samt gefa þér þetta sem ég fann og finnst eiga betur við þig en nokkurn annan sem ég þekki.
"Að lifa ánægður við lítinn auð, að sækjast eftir glæsileika í stað glingurs, fágun í stað tískufyrirbæra; að vera verðugur en ekki aðeins virtur, og auðugur en ekki ríkur; að læra mikið; hugsa í hljóði, vera varkár í orðum, heiðarlegur í gjörðum; að hlusta á stjörnurnar og fuglana; á smábörn jafnt sem stórmenni með opnum huga, opnu hjarta; að láta lífsgleðina ráða ríkjum; hafa hughrekki til athafna, að grípa tækifærin er þau gefast; hafa engar áhyggjur; í stuttu máli að vera í andlegum og trúarlegum skilningi, enginn meðalmaður".
Ég elska þig og er afar stolt af þér.