...er best. Þrátt fyrir vel heppnaða ferð og mikið afslappelsi í sól og hita ásamt vellystingum í góðra vina hópi verð ég að segja að ekkert jafnast á við að koma heim til sín. Ísland er alltaf best hvernig sem á það er litið.
Við lentum á Keflavíkurflugvelli um átta leytið í gærkvöldi. Íslenska veðráttan tók á móti okkur opnum örmum, hressilegum. Tilfinningin að lenda á þessu ástkæra landi er alltaf blendin væntumþykju og þjóðrækni, jafnvel svolítilli þjóðrembu. Það er sama þó komið sé úr heitu loftslagi suðrænna landa inn í ískulda norðursins, sem þó átti ekki við í þetta sinn, finn ég alltaf þessar sömu heitu tilfinningar til landsins.
Ég gæti aldrei flutt mig búferlum til annars lands, held að þjóðræknin í mér myndi aldrei hleypa mér.
Ég vaknaði nokkuð snemma í morgun og kíkti út. Það var allt eitthvað svo ferskt og svalandi. Búið að rigna mikið og áin ekki lengur eins og saklaus bergvatnsá, orðin eins og hún á að sér að vera, mikil og voldug.
Ég fór í göngutúr upp með henni í morgun, meðan Erla svaf ennþá, og var með myndavélina góðu að vopni. Haustlitirnir eru farnir að láta kræla á sér þó ekki fari mikið fyrir þeim ennþá. Þeir eru endalaus myndefni og gaman að láta ímyndunaraflið leita að fallegum myndum. Árangurinn er auðvitað misjafn en stundum hittir maður á eitthvað sem úr verður eitthvað fallegt og þegar best tekst til jaðrar við að til verði listsköpun, pínulítið stolið brot úr stórkostlegu listaverki skaparans. Þetta hefur að gera með nógu margar endurtekningar. Taka margar myndir þá er líklegt að nokkrar verði góðar. Svolítið í ætt við máltækið: Oft ratast kjöftugum rétt á munn”. En samt er það fyrst og fremst myndefnið sem oft er svo fallegt að erfitt getur verið að taka ljótar myndir af því.
Íslenskt haust er svo litríkt og fallegt. Þá er oft auðvelt að fanga fallega liti og tilbrigði náttúrunnar. Eins er haustið mér alltaf áminning um hversu hringrás tímans fer sínu fram og gerir ekki greinarmun á kóng eða presti, manni eða skepnu. Árin tikka.
Enn einu sinni er komið að árlegri haustveiðiferð okkar bræðranna. Hún er orðin hefðuð og á sérstakan sess hjá okkur, heil helgi tekin í að leika sér á veiðilendum Fljótshlíðar sem auðvitað eiga sér enga líka. Þar liggja enda bernskusporin okkar þótt auðvitað hafi fennt í slóðina víða. Veiðiferðin verður oft uppspretta gamalla minninga sem við rifjum upp og höfum ánægju af.
Við fengum góðar heimsóknir í dag. Allar stelpurnar okkar og hluti barnabarnanna komu. Við áttum góðan dag í faðmi fjölskyldunnar. Erla bakaði pitsur eins og henni einni er lagið. Sjávarréttapitsan hennar á sér enga líka, að ég best veit....!
Barnabörnunum virðist líka vel að kíkja í sveitina. Sagt er að dóttursonurinn og nafninn líkist afa sínum, blessað barnið getur ekki gert að því en ekki verður annað séð að sögn kunnugra að afanum þyki það ekkert sérstaklega leiðinlegt.
Ég ætla að henda nokkrum myndum morgungöngunnar hér inn, svona að gamni. Svo þið gleymið ekki hvað bakgarðurinn okkar er stór og víður ...og fallegur.....!
Fann engan fjögurrablaða.... en breiðu af þriggja
Reyniberin í garðinum mínum, það er komið haust
Anker sem hefur skilað hlutverki sínu
Hér er lífið í hnotskurn... stutt inngrip í söguna. Það er eins og mýflugan þarna viti það.
Ég kann orðið nokkuð vel við mýflugur eftir kynni mín af frænkum hennar í suðurhöfum Moskító ...andstyggðar kvikindi.
Lággróðurinn roðnar, hrörnar......og deyr.
Góður dagur runninn.
5 ummæli:
Fallegar myndir hjá þér pabbi :) Og mikið rosalega var gaman að koma til ykkar í gær og hitta ykkur eftir útlöndin góðu.. Gott að ferðin var svona frábær en það er alltaf best að koma heim eins og þið mamma talið svo oft um :) Og ég er algjörlega sammála! Hafið það sem allra allra best og við sjáumst sem fyrst :) Þín Eygló
Svaka flottar myndir pabbi:):) Í framtíðinni ætla ég að eignast svona flotta myndavél:):):) Gaman að fá ykur heim og takk fyrir mig í gær og núna:) Þú ert frábær:) Arnan þín:)
Gaman að fá ykkur heim og rosa gaman að fá að koma í heimsókn í gær ;)
Flottar myndir enda ekki annað að vænta eftir myndefninu og flott myndavél ;)
Sjáumst vonandi aftur fljótlega
þín elsta dóttir
Íris
Velkominn heim kæri mágur
Mig langar að þakka þér falleg orð og fagrar myndir .......af landinu okkar góða og sveitinn okkar sérstöku.
Hlakka til að hitta ykkur hjónakornin
Kveðja,
Sirrý litla
Hæ, breytti aðeins seinustu myndinni hjá þér. Kíktu endilega á hana og segðu mér hvað þér finnst. Öfgakennd eða??
Hér er hún
http://www.heimsnet.is/iriser/tre.jpg
kv. Íris
Skrifa ummæli