laugardagur, október 13, 2007

Ariadne

Við Erla og Hrund fórum í Íslensku Óperuna í gærkvöldi að sjá og hlusta á Ariadne eftir Richard Strauss. Það vakti sérstaklega áhuga okkar að fara að ung kona Arndís Halla Ásgeirsdóttir söng hlutverk Zerbinettu, annað aðalhlutverkið. Arndís Halla var á tímabili aðili í samfélagshóp hjá okkur. Hún var þá þegar farin að snúa sér að söng en hefur búið í Berlín síðan við nám og söng.
Hún söng hlutverkið sitt af innlifun og öryggi. Hefur ekki bara mikla sönghæfileika heldur afbragðs leikari líka.
Við höfum ekki verið mikið óperufólk en á því kann að verða breyting. Þetta var klassa upplifun og verulega skemmtilegt.

Í dag er hátíð hér í húsinu við ána. Þórey Erla litla vinkona mín Örnudóttir er tveggja ára í dag. Afmælisveislan verður haldin hér að vanda þar sem plássið er meira hér en heima hjá Örnu. Það er gaman að fá þessa gullmola í heimsókn og ekki spillir að afmælisdagur er jú stór dagur hjá börnunum. Hér er því ekki lágdeyða eins og máltækið segir “daufur er barnlaus bær” Þessar litlu hnátur eru miklir yndisaukar og skreyta lífið með nærveru sinni einni saman. Það er mikið ríkidæmi að eiga svona fjársjóð í fólkinu sínu, kannski er samt mesta ríkidæmið að gera sér grein fyrir því.
Ég kannast reyndar ekki við deyfð hér í bænum sbr. máltækið, bara ró og frið sem við kunnum vel við í bland við annað.

Hjalli bróðir minn er kominn á Grensásdeild. Þar fær hann mikla þjálfun og umönnun í háum gæðaklassa. Hann hefur ekki fengið máttinn vinstra megin. Kannski er of mikið að segja engan mátt því hann virðist geta hreyft lítillega fótinn (dregið hann til) og aðeins hendina. Það er ekki mikið, en samt, og á því verður byggt í endurhæfingunni.
Hann þakkar það bæninni hvað hann er núna. Það er vissulega umhugsunarefni sem hann hefur að segja um þessa hluti. Hugsun hans er alveg skýr og upplifun hans er ekta. Hann segir ekkert hafa snert eins við sér og bænirnar.
Hann liggur á stofu með Friðrik bróður Sigrúnar hans Heiðars. Ég heilsaði Friðrik og hann þekkti mig, var kátur að sjá mig og spjallaði svolítið.

Það er skrítið hvað veðráttan er orðin öðruvísi. Sumarið var að skrælna úr þurrki en haustið það blautasta sem um getur. Það er eins og skaparanum hafi þótt vissara að klára allan vætuskammtinn í haust sem átti með réttu að skvettast á okkur í sumar. Það má samt segja að við erum nær norminu núna en í sumar þegar ekki kom dropi úr lofti.

Ég ætla að skreppa í Vola á mánudaginn. Kemst reyndar ekki nema dagshluta vegna vinnunnar en Karlott mun hrella fiskana fyrir mig og kannski einhver annar sem hefur áhuga á að taka daginn á móti mér. Eins og ég hef sagt hér á síðunni áttum við Hansi góða ferð þangað um daginn. Þarna eru allir fiskar sem hægt er að fá í ferskvatni á Íslandi. Staðbundinn urriði, sjóbirtingur, staðbundin bleikja og sjógengin, lax, áll og flundra.
Fyrir þá sem ekki vita er flundra flatfiskur líkastur kola eða lúðu en gengur í ferskvatn.
Ég hef ekki veitt flundru en hún er talin góður matfiskur.
Birtingurinn er skemmtilegastur að mínu mati.

Njótið helgarinnar

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll frændi, ég hef frétti nýlega af blogginu þínu og hef verið fastagestur hérna síðan. Takk fyrir fréttirnar af Hjalla, gott að vita að hann sé að ná framförum.

Bið fyrir kveðju til allra.

Davíð