Ég varð árinu eldri í gær. Er þakklátur fyrir það, annars væri ég lík. Í dag komu gestir hingað í húsið við ána þótt að mínu viti hafi ekki átt að vera afmæliskaffi.
Erlan mín er mikið afmælisbarn og finnst afmælisdagar merkilegri en aðrir dagar. Hún sá um að hér væri ekki bara kaffi á könnunni eins og siður er heldur var hin flottasta veisla hér á borðum án þess að ég fengi rönd við reist. Ég er eins lítill afmæliskall og hægt er að vera. Löngu hættur að fylgjast með hvenær árið fullnast og ég tel einum hærra. Þá er gott að eiga förunaut sem tekur af manni ómakið að vera að muna svona alla skapaða hluti.
Vinir og vandamenn heiðruðu mig með nærveru sinni, ég fékk meira að segja tvær ræður, eina vísu ...... og nýjan afmælissöng sem Petra Rut var búin að læra í leikskólanum, allt öðruvísi og miklu flottari.......! Allt góðar gjafir og nærandi nærvera.
Arna og skvísurnar hennar gista hér í nótt. Bara notalegt.
Ég er mikill gæfumaður að lifa við þann kost sem ég bý við. Umvafinn fólki sem ég met og elska hring eftir hring eftir hring.
Það er mikið að gera í vinnubúðum Lexors. Verkefnin hlaðast inn og nú er svo komið að þau bíða í halarófu. Ég hef þann háttinn á að gefa ekki út dagsetningar hvenær byrjað verður á nýju verki heldur segi ég fólki hvar í röðinni það sé. Mér finnst það betri háttur því það kemur í veg fyrir að ég þurfi að svíkja nokkuð ef verk dregst einhverra hluta vegna. Ef einhver vill dagsetningu eftir sem áður þá er það einfaldlega ekki fyrir hendi.....
Ég er með tvo vinnuflokka í gangi í einu og er að sérhæfa hvorn hópinn um sig í ólíkum verkum. Hver veit nema hægt verði að búa til fleiri slíka sérhæfða hópa síðar.
Svo er stækkandi markaður fyrir lögfræðinga sem gera út á gallamál í byggingum, af nógu virðist að taka, m.ö.o. annríki einkennir dagana.
Ég á samt því láni að fagna að vera meðvitaður um að lífið snýst ekki um fyrirtækjarekstur, hvað þá peninga. Hin misjöfnu veðrabrigði lífsins hafa kennt mér þá mikilvægu lexíu að hamingjan verður aldrei keypt fyrir fé. Þegar peningaeign verður meiri en til að uppfylla þarfir, hættir hún að gagnast. Hún verður í raun einskis virði.
“Því hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn.......”
Sálartetrið er ekki bara meira virði, heldur MIKLU meira virði en allir þeir peningar sem nokkru sinni er hægt að ná í.
Lífsgæðin búa nefnilega í sáttri sál......við Guð og menn.
Njótið daganna, þeir eru góðir
5 ummæli:
Til hamingju með daginn í fyrradag elsku pabbi. Og já við erum rík að fatta hvað við erum rík að eiga hvert annað. Mér finnst ég allavega svoo heppin að eiga þig fyrir pabba og eiga þig sem afa fyrir skvísurnar mínar. Þú ert svo ekta;) Elska þig allan hringinn eins og vinkona mín Petra Rut segir;) Arnan þín:)
Hjartanlegar hamingjuóskir með afmælið elsku bróðir.
Þin Gerða sys
Takk fyrir okkur. Alltaf svo notalegt að koma í sveitina til ykkar! Svo bara verð ég að vera sammála Örnu, þú ert alveg frábær pabbi og stelpurnar mínar alveg dýrka þig og dá ;)
kv. Íris
Til hamingju með árið frændi!
Kv. Davíð Hanss..
Það er auðvelt að vera sammála þessu. Drottinn blessi þig í öllu þínu vafstri.
bestu kveðjur
Kiddi Klettur
Skrifa ummæli