sunnudagur, október 07, 2007

Lífið....

....er sannarlega eins og veðrið. Það skiptast á skin og skúrir. Við áttum góðan og ánægjulegan dag í gær og stóran í hugum okkar margra. Það var barnablessun í fjölskyldunni, Erling Elí, litli kúturinn var “borinn fram” eins og við höfum kallað þá athöfn. Athöfnin líkist skírn en þó með einni undantekningu sérstaklega, barnið er ekki ausið vatni. Forskriftin er frá Kristi sjálfum þegar hann bannaði lærisveinunum að reka burtu börnin og tók þau þess í stað í fang sér og blessaði þau.
Mér á óvart en til ánægju fólu foreldrar litla kútsins mér þann heiður að blessa litla nafna minn. Ég hafði gaman af athöfninni vitandi að blessun Guðs fer ekki í manngreinarálit þó preststimpilinn vanti í kladdann minn.



Veislan var þeim hjónunum til sóma eins og við var að búast. Tertan vakti athygli fyrir hversu flott hún var, ekki síst þegar í ljós kom að höfundur hennar var húsmóðirin sjálf.
Mér datt nú ekkert nær sanni í hug en “sjaldan fellur eplið langt frá eikinni”, svona í allri auðmýkt. Tertur móður hennar eru rómaðar langt út fyrir fjölskylduna. Það var margt um manninn en íbúðin rúmaði þetta vel.

Við kíktum á Hjalla bróðir minn eftir þetta. Hann lítur betur út en er algjörlega lamaður vinstra megin ennþá. Hörð lífsreynsla fyrir hann og líklega erfiðari fyrir það að hugsunin er algjörlega í lagi. Hann er beygður og bað um fyrirbænir. Ég sagði honum frá öllum sem biðja fyrir honum og hann bað mig um að færa ykkur þakkir fyrir það. Kem því hér með til skila. Við áttum svo bænastund saman bræðurnir og Erlan mín, það var gott.

Hjalli hefur átt við háan blóðþrýsting að stríða í mörg ár, mjög háan. Hann var settur á blóðþynningarlyf um daginn til að undirbúa hann fyrir rafstuð til að stilla hjartsláttinn.
Í gærkvöldi vorum við hjá Sigrúnu konunni hans og hún sýndi mér lyfið. Þegar ég las fylgiskjalið sem fylgdi lyfinu kom í ljós að lyfið má alls ekki gefa fólki með of háan blóðþrýsting........!
Ég veit ekki hvað þetta þýðir eeeen...... ætla sannarlega að komast að því.
Ekki er ein báran stök hjá honum. Hann skilar ekki því sem hann borðar, og hefur ekki gert í þennan hálfa mánuð frá því hann lamaðist. Hann er mjög kvalinn vagna þessa. Þetta er mjög alvarlegt ef það lagast ekki. Biðjið sérstaklega fyrir þessu.

Síðastliðinn fimmtudag fórum við Hansi bróðir í veiði í Vola eða Volalæk eins og sumir kalla hann. Voli er vatnsfall sem allir hafa keyrt yfir en fáir vita nokkuð um. Hann liggur um tíu kílómetra hér austur af Selfossi þar sem Flóaveituskurðurinn rennur við Þingborg. Þar suður allt fram í sjó er falleg veiðiá full af sjóbirtingi. Hún heitir reyndar fjórum nöfnum, nyrst er Bitrulækur þá Voli svo Hróarskeldulækur og syðst er Baugsstaðaós. Ferðin var frábær, veiddum vel. Sjóbirtingurinn var nýrunninn, silfraður og fallegur. Þeir stærstu voru um sex pundin.
Það er oft ótrúleg sjón að sjá hann taka, gjörólíkt laxinum. Hann stekkur upp úr vatninu og á það til að þeytast hylinn á enda hálfur upp úr vatninu. Sá stærsti minn gerði þetta og þeyttist næstum upp á bakkann. Ég kom með sjö birtinga heim og Hansi nær tíu.
Þetta verður endurtekið....!

Það er sól og bjart úti. Ölfusáin skartar sínu fegursta hér út um gluggann minn. Það er líka sól í sálinni, svo margt góðra hluta, þó ekki alveg heiðskýrt. Heilablóðfall bróður míns varpar skugga á tilveruna.

Biðjum áfram, þetta er ekki búið.

6 ummæli:

Íris sagði...

Takk æðislega fyrir okkur í gær. Við hjónin vorum alveg rosalega ánægð með þig í prestshlutverkinu :) Þó það vantil stimpilinn ;) Tókst alveg með eindæmum vel og bleiku rósirnar hittu í mark ;) Takk aftur!!!

Skil að heilablóðfall Hjalla setji skugga á tilveruna og við munum halda áfram að biðja fyrir honum! Biðja um kraftaverk!

Hafið það annars gott á Selfossi og ég veit að þið haldið áfram að njóta lífsins!
Þín elsta dóttir
Íris

Nafnlaus sagði...

Já það var rosalega gaman í gær!!:)

En vá það er ekki allt í lagi með fólk (as in lækna) sem athugar ekki betur hvaða lyf það setur sjúklingana sína á.. ætti bara að sýna honum hvernig er komið fyrir honum Hjalla núna! En annars, bara biðja biðja biðja... það dugar víst best!

Njóttu dagsins samt sem áður hann verður pottþétt skemmtilegur!

kv. Hrund

Nafnlaus sagði...

Þú stóðst þig mjög vel í gær pabbi að blessa yfir nafna þinn. Þetta var mjög skemmtileg veisla:):)
Hjalli er heppinn að eiga þig sem bróður því þú tekur svo vel eftir. Eins og þessu með lyfið. Alveg hræðilegt, gott þú ætlar að tékka á þessu. Bara kæra læknana segi ég. Þú ert frábær, Arnan þín:)

Íris sagði...

Eitt með læknana, einu sinni fór ég til læknis og fékk lyf við verkjum. Ég sagði henni að ég væri með barn á brjósti svo hún gæti látið mig hafa eitthvað sem ég mætti taka. Svo þegar ég kom heim með lyfið og fór að lesa fylgiseðilinn þá stóð að það mætti ekki taka það ef maður væri með barn á brjósti. Ég varð alveg brjáluð, fór aftur og hitti lækninn. Hvað ef ég hefði ekki lesið seðilinn?? En þá sagði hún mér að þó þetta stæði þá væri í lagi fyrir mig að taka lyfið. Þetta er svo sem ekki sambærilegt við Hjalla því hann er MUN veikari en ég var en pointið er að stundum ávísa læknar lyfjum sem kannski undir venjulegum kringumstæðum ætti ekki að taka en áhættan væri kannski meiri af að taka ekki lyfið.
Svo kannski er betra fyrir Hjalla að fá lyfið til að geta stillt af hjartsláttinn heldur en að hafa hann áfram eins.
Bara segja þetta áður en við hengjum lækninn ;) En að sjálfsögðu er sjálfsagt að komast að því hvort þetta sé raunin eða hvort læknirinn sé einhver skúrkur!!
Sjáumst og hafið það gott í dag ;)

Nafnlaus sagði...

Sæl öll sömul!!

Til að byrja með langar mig að óska ykkur öllum til hamingju með litla prinsinn og mér finnst nafnið hans alveg sérlega fallegt.

Þá langar mig einnig til að þakka þér Erling fyrir að leyfa okkur hinum að fylgjast með hvernig gengur hjá Hjalla. Þú ert með mun nánari upplýsingar um líðan hans á blogginu heldur en ég hafði fengið, t.d. vissi ég ekki að hann væri með gaumstol - það var sorglegt að heyra. Fyrir áhugasama er á eftirfarandi slóð grein um það: http://laeknabladid.is/2007/10/nr/2907

Við biðjum öll fyrir honum, auk þess sem ég hef fulla trú á því að vestfirska þrjóskan, krafturinn og dugnaðurinn muni einnig fleyta honum langt.

Bestu kveðjur til allra,
Júlíana

Nafnlaus sagði...

Við hjóninn hér Vestuberginu biðjum fyrir Hjalla og að allt fari vel. Einnig er Mamma að biðja fyrir þessu og hún er bænakona.

Takk fyrir ábendingarnar með elduninna á fiskinum og með kjötið. Það tókst mjög vel og bragðaðist vel :) Ekki var síðra að koma í hádegismat síðastliðinn sunnudag og fá nýveiddann fisk og karteflur með sem maður tók þátt í að setja niður.

Kveðja
Björn Ingi