Það má segja að gleði hafi ríkt í systkinahópnum mínum og mökum í gærkvöldi. Við hittumst með Hjalla bróðir í afmælisveislu hans sjálfs á Grensásdeild.
Sigrún bauð til smá kaffis, eitthvað lítið og einfalt, eins og hún nefndi það. Mér varð nú hugsað til hvað hún kallar stórt og flókið. Veislan var í fyrsta lagi flott og í öðru lagi bragðgóð. Sigrún hafði snittur, allskyns brauð og tertur sem bragðaðist allt sérstaklega vel.
Hjalli kunni vel að meta að fá fólkið sitt í heimsókn og má segja að hann hafi leikið á alls oddi. Hann trillaði á milli aðila í hjólastólnum sínum með annarri löppinni og spjallaði við alla. Hann sagði að þetta ástand sitt að þeytast um á annarri löppinni minnti sig svo á lagið
“Ég oftast er kallaður Kiddi á Ósi.......” því hann hafði oft sungið þetta fyrir strákana sína þegar þeir voru litlir og hoppaði þá alltaf á annarri löppinni með laginu. Síðan kalla drengirnir lagið alltaf "lagið á löppinni".
Hann blandar greinilega mikið geði við aðra sjúklinga á deildinni því hann bauð þeim að koma inn og fá sér hressingu eins og hann orðaði það.
Hann kvað sér hljóðs þegar allir voru að tygja sig til brottfarar. Sagðist þurfa að segja okkur sögu. Svo sagði hann frá hvernig hann í gegnum tíðina hefur ekkert viljað með trú eða bænir hafa þótt hann hafi fengið trúarlegt uppeldi, sagði sig hafa verið mikinn járnkall. Hann sagði okkur frá upplifun sinni á sjúkrabeðinu, frá styrk bænarinnar og hvað hann væri raunverulegur. Hann endaði ræðuna sína svona: “Þið verðið að vita þetta, og kenna börnunum ykkar þetta líka, því þetta er ótrúlegt”.
Ég gladdist yfir þessari ræðu. Ekki fyrir orðskrúð heldur fyrir einlægni og innihald sem sagði meira en þúsund predikanir í kippum.
Ég segi það aldrei nógu oft að stóru lífsgæðin okkar eru að njóta augnabliksins í núinu. Gimsteinanna sem liggja á veginum okkar daglega. Sú mynd hefur greipst enn fastar í hug okkar eftir að bróðir minn lenti í áfallinu. Hann er okkur lifandi áminning um að framtíðin er ekki það sem við getum byggt á, því hún er ekki í hendi. Dagurinn í dag er penninn sem skrifar söguna og þar með uppfyllingu draumanna líka.
Það er mikilvægt að setja fókusinn á hluti sem skipta máli. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að raunveruleg auðæfi eru ekki fólgin í peningum, heldur fólki.
Við Erlan erum að fara að tygja okkur austur. Þá meina ég enn austar, alla leið á Föðurland. Kofinn litli kúrir þar á flötinni og bíður eftir okkur, hann gefur fögur fyrirheit um notalega og endurnærandi helgi.
Föðurlandið kallar, verð að fara að koma okkur af stað......
Engin ummæli:
Skrifa ummæli