miðvikudagur, júní 25, 2008

"Lífið er nú svona og svona...

...suður í henni vík", syngur mamma gjarnan þegar maður hittir hana. Það er satt, lífið er hverfult, svo mikið er víst.
Það er vont þegar fólk á besta aldri þarf að kveðja þetta líf. Sveitungi minn, Jón Ólafsson (Nonni á Kirkjulæk) lést í fyrrakvöld, allt of ungur. Krabbamein lagði hann. Hann var dugmikill og áberandi karakter sem fór gjarnan ótroðnar slóðir og framkvæmdi það sem honum datt í hug. Þetta er blóðtaka fyrir sveitina hans og erfitt fyrir marga að horfa upp á. Fjölskylduna mest.

Ég skrapp austur á Föðurland áðan. Fór með kamínu sem mér áskotnaðist nær gefins. Ég settist á veröndina og hugsaði til baka. Horfði yfir sveitina mína sem, þrátt fyrir áfall, heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Tjalds hjón með unga voru á vappi á lóðinni. Þau voru með sitt hvorn ungann að kenna þeim að finna ánamaðka. Merkilegt að sjá. Heyskapur í gangi á bæjunum og fólk á ferð í bílum sínum.
Þessi fallega sveit sem hefur fóstrað svo marga og séð á eftir svo mörgum. Hringekja sem ekkert er umkomið að hægja á. Hver nýr dagur í lífi manns, að kvöldi kominn, er þakkarefni. Einn dagur í viðbót sem manni er gefinn á þessu fagra landi.

Ég votta þeim sem nú syrgja, mína innilegustu samúð.

þriðjudagur, júní 17, 2008

"Birna...

Bjarnardóttir" átti síðasta færsla auðvitað að heita. Endaði með kúlu í stað deyfipílu. Það var ekki við þetta ráðið. Birnir eru ekki gæludýr og eins gott að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Annars áttum við afar notalegan og rólegan þjóðhátíðardag. Veðrið fallegt svo af bar og góðar heimsóknir á pallinn. Teddi og Kata ásamt Theu sátu með okkur og nutu sólar og kaffiveitinga á pallinum. Svo komu Rúnar og Júlíana í heimsókn. Þau voru á hraðferð svo þau stoppuðu stutt. Rúnar kom með kúlur sem ég hafði beðið hann um að renna fyrir mig. Ég ætla að nota þær í sófaborð sem ég ætla að smíða.
Daginn enduðum við Erlan mín með göngutúr upp með á, hinum megin brúar. Fegurðin meðfram ánni er engu lík, það eru forréttindi að búa hér á þessum stað.

Smellti nokkrum myndum, Það er kvöldsett, logn og hitastig hátt. Notalegt og rómantískt.

Hendi einni mynd hér inn að gamni.


Njótið daganna vinir.

Björn Bjarnarson

Það er mikill munur á aðstæðum núna eða um daginn þegar björninn var skotinn. Þá var þoka og björninn á ferð og auðvelt að missa sjónar á honum. Hann var miklu nær þéttri byggð. Hann var við veg þar sem m.a. hjólreiðafólk var á ferð. Það var fullt af fólki að þvælast þarna í kring. Hann var soltinn og sýndi viðbrögð á þann veg að hann hljóp að fólki sem kom of nálægt.


Þessi björn er aftur á móti saddur af eggjaáti og liggur á meltunni eins og dýr gera eftir át. Hann er fjarri þéttri mannabyggð. Hann er fjarri þjóðvegi og það er bjart yfir og auðvelt að fylgjast með ferðum hans, ef hann fer eitthvað af stað.
Hvítabirnir eru alfriðuð dýr og í útrýmingarhættu. Ég er því mjög hlynntur þessum aðgerðum núna að reyna að fanga hann í stað þess að skjóta.

Ég áttaði mig samt ekki alveg á fréttinni um að erfitt gæti verið að flytja hann til síns heima vegna reglna um flutning dýra yfir landamæri, þess í stað yrði hann líklega fluttur í dýragarðinn í Kaupmannahöfn....!!!! Hver skilur svona?

Ég var líka hissa á fréttum um að 16 hvítabirnir hefðu heimsótt okkur á síðastliðnum 30 árum. Ég man ekki eftir svo mörgum! En hvað um það, það verður gaman að fylgjast með aðgerðinni.
Vildi helst að ég væri þáttakandi í þessu.

sunnudagur, júní 15, 2008

Útskrift HR

Það var hátíðarstund í gær í Vodafone höllinni að Hlíðarenda. Háskólinn í Reykjavík var að útskrifa nemendur sína á ýmsum sviðum. Skólafélagar mínir úr lagadeild sem héldu strax áfram með masterinn stóðu þarna útskrifaðir með mastersgráðuna sína. Flott hjá þeim. Ég var hins vegar ekki viðstaddur þarna þess vegna.

Ástæða veru minnar þarna var Íris dóttir mín. Hún var að útskrifast með BA gráðu í lögfræði. Það var skrítið að horfa á stelpuna sína ganga fram og taka við prófskírteini í lögfræði. Föðurleg ánægja bærðist í brjósti mínu og stolt yfir þessum árangri hennar.
Hún hefur sýnt fádæma elju og dugnað við námið, með tvær litlar dætur fyrri hlutann og meðgöngu og lítinn strák að auki seinni hlutann. Þetta virðist ekki hafa komið niður á einkunnum hennar sem voru henni til sóma. Tók gamla í nefið.

Ég verð að geta þess hér, Karlott til hróss, að hann á gríðarlega stóran hluta í þessu öllu saman, því án skilnings og hjálpar hans hefði þetta aldrei gengið upp. Ég hef dáðst að þeim hjónunum, og verið ánægður með, hvernig þau hafa staðið saman að þessu eins og ein manneskja. Það verður gaman að sjá þau uppskera eljuna síðar meir. Í framhaldi af útskriftinni var flott veisla heima hjá þeim. Þar komum við saman fólkið hennar og fögnuðum með henni.
Innilegar hamingjuóskir elskurnar mínar, þetta er glæsilegt, ykkur til sóma.

Systursonur minn, Maggi, hennar Gerðu, var líka að útskrifast með BA í lögfræði. Ég átti því líka stolta systur í Hlíðarendanum í gær. Til hamingju með áfangann, þetta er flott.
Það fer að verða varasamt að bögga okkur fjölskylduna sýnist mér........

Við fórum svo austur í gærkvöldi til að fagna með Christinu sem var að útskrifast sem kennari úr kennaraháskólanum. Henni gekk mjög vel, með fínar einkunnir. Sérstaklega flott einkunnin fyrir lokaritgerðina 10.0 varla hægt að gera betur! Til hamingju með flottan árangur.
Gylfi hélt fyrir hana þessa fínu veislu í skálanum sem hún vissi ekkert um. Gaman að svoleiðis, tala af reynslu.
Vorum svo í kofanum í nótt. Heiðar og Sigrún kíktu á okkur í gærkvöld, áttum notalegt spjall frameftir með þeim.

Góð helgi að baki. Hlakka til vikunnar framundan........

fimmtudagur, júní 12, 2008

Fituhugleiðing

Það er ávani að borða of mikið. Maður bætir jafnt og þétt ofan á kjörþyngd sína, einn bita í einu. Maður notar sömu aðferðafræði að grenna sig....einn bita í einu,
bara færri.
Að minnka skammtinn um tvo bita í hverri máltíð, gæti dugað........

sunnudagur, júní 08, 2008

Borgarstjórnarkómedían

Það glittir í smá vonarglætu hjá borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Ég hef ekki getað skilið hversvegna Hanna Birna var ekki fyrir löngu gerð að oddvita og borgarstjóraefni. Ég sá í henni sterkan leiðtoga fyrir mörgum árum síðan. Loksins að eitthvað var gert af viti.
Ég vona að henni verði gefinn vinnufriður svo hún geti farið að koma einhverju skikki á borgarmálin sem eru orðin öllum kjörnum fulltrúum þar til skammar. Ég var farinn að hallast að því að vinstri meirihlutinn væri orðinn illskárri kostur.
Sjáum hvað setur, hef trú á henni.

laugardagur, júní 07, 2008

Selfoss... lifandi bær!

Við Erlan sátum úti á verönd í gærkvöldi undir hitaranum. Það er fátt notalegra en það. Árniðurinn verkar róandi og gróðurlyktin í garðinum ásamt graslyktinni eftir slátt gærdagsins gerði þetta mikla gæðastund. Það hreyfði varla vind og hitastigið var í hærri kantinum.
Um tíuleytið kom hressilegur kippur. Hríslurnar skulfu eins... og lauf í vindi. Það er raunar orðið svo hversdagslegt að finna jörðina skjálfa hér og heyra drunur með að maður er hættur að kippa sér upp við það. Þetta er bara lifandi og skemmtilegt.
Jörðin hefur ekki stoppað hér síðan stóri skjálftinn kom hér um daginn. Þetta eru samt allt minniháttar kippir, smá titringur oftast, þó stundum komi stærri skammtur og ruggi. Það getur verið skemmtilegt að pæla í þessum ógnarkröftum sem eru að verki. Ótrúlegt að eitthvað skuli þess umkomið að hrista þessa milljarðatrilljarða tonna af grjóti og mold...!

Í gær kom hér maður frá tryggingafélaginu að meta skemmdir á innbúi. Þær eru víðtækari en við héldum í fyrstu, margt sem brotnaði. Við eigum svo von á öðrum manni sem skoðar skemmdir á húsnæðinu sjálfu. Þar er helst parketið sem skemmdist talsvert þegar hlutir féllu á það. Stigahandriðið er líka hoggið og svo er eitthvað af sparsl sprungum í veggjum, ekkert alvarlegt samt og vel sloppið miðað við marga.

Við förum bæjarferð á eftir. Kúturinn hann Erling Elí varð eins árs 3. júní sl. Foreldrarnir halda upp á áfangann í dag með pomp og prakt. Það er makalaust hvað tíminn líður hratt, ótrúlega stutt síðan hann kom í heiminn. Hann er mikill sjarmör og bræðir alla sem kynnast honum. Til hamingju með daginn elsku kúturinn minn..... börn eru það besta sem okkur hlotnast í lífinu.

Það rignir, gróðurinn eins og í júlí, allt er grænt og vænt.

miðvikudagur, júní 04, 2008

Ísbjarnarblús

Ég var 8 ára þegar ísbjörn gekk á land í Grímsey forðum. Fréttin hræddi mig svo óskaplega að ég átti verulega bágt. Ísland var svo lítil eyja að ég var sannfærður um að þeir hefðu verið fleiri og væru komnir suður yfir heiðar. Ég dró þessa ályktun sjálfur og spurði auðvitað ekki fullorðna fólkið, enda orðinn átta. Mamma bað mig að erindast eitthvað út á verkstæði, átti að flytja pabba einhver skilaboð. Man alltaf hvað ég hljóp hratt því mér fannst ísbjörn vera másandi á hlaupum á eftir mér á leiðinni heim.

Ísbirnir eru stórhættulegir fólki. Við eigum ekki roð í þá ef þeir ákveða að éta mann. Það er auðvelt að sitja heima í stofu og átelja lögregluna skagfirsku fyrir að láta skjóta björninn. Það var þoka og hann var í nánd við þétta byggð, svangur bangsinn.
Mér segir svo hugur að skagfirska lögreglan hefði fengið á sig stærri ákúrur ef hún hefði látið bangsa fara og hann hefði fundið fólk á förnum vegi og satt hungrið á skagfirsku mannakjöti.

Fólk sem lætur hæst ætti að setja sig í spor þessara manna sem þurftu að taka ákvörðun á staðnum frammi fyrir þessu vali.
Ég veit að þeir eru friðaðir... en þeir eru líka fljótir að drepa. Deyfilyf var ekki til staðar né þekkingin hvernig ætti að fara með slíkt. Það var gott og rétt að hann var skotinn, annað var ekki hægt í stöðunni.

sunnudagur, júní 01, 2008

Grill

Erlan hefur í mörg ár verið í “saumaklúbb”.... set það í gæsalappir til að gæta sannsöglis.
Einu sinni á hverju vori hittast þær með okkur köllunum. Þá er grillað og haldin veisla.
Okkur veittist sá heiður að hýsa grillveisluna þetta árið. Það leit kannski ekki of vel út því eins og lesendum síðunnar er kunnugt varð íbúðin okkar eins og eftir sprengjuárás tveimur dögum fyrir grill. Stelpurnar okkar ásamt Erlunni tóku á sínum stóra og gerðu kraftaverk, enda var íbúðin komin í samt lag þegar gestina bar að garði klukkan hálf átta. Aðeins þvottahúsið og gestaherbergið eftir.

Sá háttur er hafður á að hver kemur með sitt kjöt og meðlæti, svo er grillað og steikt og hitað og soðið af krafti. Litla grillið er afkastamikið enda hægt að kynda það ótæpilega svo það tókst að láta alla snæða á sama tíma.
Félagsskapurinn var góður enda fátt skemmtilegra en góðra vina fundur. Nota tækifærið og þakka þeim ykkar sem kíkja hér á síðuna, fyrir komuna.

Bæjarlífið er að komast í samt lag aftur eftir stóra skjálftann. Vatnið er óhreint svo Rauði krossinn er hér við brúarsporðinn með vatnsbirgðir á flöskum sem deilt er ókeypis til íbúa. Gott framtak hjá þeim.
Ég er ánægður með framgang allra þeirra sem eiga að vera til staðar við svona atburði Rauðakrossinn, Almannavarnir, hjálparsveitirnar, sjúkraflutningamenn, landhelgisgæsluna og lögreglu. Allt virtist vera framkvæmt fumlaust. Brúm lokað þangað til búið var að kanna skemmdir, leiðum haldið opnum fyrir neyðarflutninga, gengið í hús til að kanna ástand á fólki, veitt áfallahjálp og hverskyns aðstoð. Gott að sjá.

Hrundin mín lenti í kröppum dansi þegar skjálftinn reið yfir. Hún vinnur á heimili fyrir fatlaða einstaklinga hér á Selfossi. Þær voru tvær að vinna þegar allt fór á tjá og tundur. Þungir skápar hentust um koll, sjónvörp þeyttust út á gólf og brotnuðu með reyk og eldglæringum og ærandi hávaði. Hún þurfti að halda andlitinu og vera róleg vistmanna vegna. Þær hófust strax handa við að taka sjónvörpin úr sambandi og koma fólkinu út. Hrund tók svo myndir af öllu áður en þær fóru að sópa saman.
Yfirmanneskja hennar á Svæðisskrifstofunni tjáði okkur að hún hefði staðið sig ótrúlega vel. Svo róleg og yfirveguð, sem var svo gott fyrir skjólstæðingana. Hún sagði Hrund svo yndislega að hún vildi ættleiða hana.... “þau plögg verða ekki undirrituð” sögðum við bæði í kór.
Hrund stóð sig gríðarlega vel undir miklu álagi, svo mikið er víst. Ég er stoltur af þér dóttir góð.

Hér hefur haldið áfram að skjálfa, eftirskjálftarnir taldir í þúsundum, sumir allsnarpir.
En hér er gott að vera.
Jafn fallegt og fyrir skjálfta, jafn vænt fyrir sálina.