Hér angar heimilið af kjötlykt þótt klukkan sé bara átta að morgni. Suðan búin að vera uppi í einn og hálfan tíma en þarf allavega þrjá. Það er jólakæfan sem er í undirbúningi enda styttist óðfluga í jólin eins og við vitum öll. Ég ætla að vera búinn að þessu snemma því ég ætla á Fitina á eftir. Þar bíða verkefni eftir mér, gluggaskipti fyrir Hjalla bróður og klára eldhúsinnréttingu fyrir Hildi systur. Svo er viðbúið að ég setji gerekti á gluggana hjá okkur.
Það blæs hraustlega núna. Norðanátt og frekar kalt. Það gnauðar í vindinum, svolítið sem ég kann vel að meta. Ég var samt úti áðan að dásama veðrið, frostleysi nánast og ekki snjókorn. Veðrið hefur verið einstaklega gott það sem af er hausti. Evrópubúar eru ekki eins heppnir, þar er fimbulvetur, frost, snjór og stormar.
Það blæs kannski frekar í fjármálum okkar íslendinga. Þar er stormur af mannavöldum, leiðinda fyrirbæri sem rýrir lífskjör okkar. Það er eins fallegt að lífskjörin voru þau bestu í heiminum svo við höfum nú svolítið borð fyrir báru. Við erum ekki á leið inn í drama sem setur okkur á vonarvöl. Það er ekki líklegt að margir svelti eða vanti skjól fyrir veðrum, og það er ekki matarskortur. Gæðalandið Ísland flýtur enn í mjólk og hunangi. Allt er til staðar sem var.
Við þurfum auðvitað að rifa seglin meðan stormurinn fer yfir, hefja síðan uppbyggingu nýs samfélags með betra mannlífi og heilbrigðari gildum.
Enda má nú fullyrða að kapitalisminn eins og hann birtist okkur var bastarður sem var að éta þjóðina upp til agna með óseðjandi græðgi sinni ,svo farið hefur fé betra.
Hann var ekki á vetur setjandi.
1 ummæli:
Mmmmmm kindakæfa :)
Hlakka til að fá að smakka ;)
Eyglóin þín og Erla Rakel biður að heilsa afa sínum :)
Skrifa ummæli