Það eru engar ýkjur, fegurðin í Fljótshíðinni á sér fáa líka. Eftir frekar annasamar vikur undanfarið ákváðum við að skreppa austur á Föðurland. Héðan fórum við í snjóleysi og gæðaveðri. Fljótshlíðin var ekki eins snjólaus. Við sátum föst í skafli, rétt komin á leiðarenda. Ég, öskufúll út í sjálfan mig fyrir að hafa ekki farið á jeppabúrinu, mokaði snjóinn undan bílnum sem losnaði loksins eftir gott stopp, puð og líkamsrækt. Ég bað Erlu að sækja tvær ca. tveggja metra spýtur sem voru þarna nálægt, til að troða undir hjólin. Hún sótti tvær fimm metra... ó ég hélt að þetta væru tveir metrar sagði hún.......konur!
Kofinn tók vel á móti okkur. Ekki ískaldur eins og vanalega, heldur var smá ylur á ofnum sem við skildum eftir síðast þegar við fórum. Kamínan var kynt og fljótlega var orðið hlýtt og notalegt inni. Þetta eru lífsgæði að geta farið þangað og notið sveitarinnar.
Ég var búinn að bíða lengi eftir tilefni til að elda rjúpur sem ég skaut. Fyrir löngu ákvað ég að það hlyti að vera gott að glóðarsteikja þær á grilli. Ég marineraði þær hér heima og sló svo upp tveggja manna veislu í kofanum. Rjúpurnar voru að mínu mati nálægt því að vera það besta sem ég hef smakkað á minni löngu ævi og hef ég nú smakkað ýmislegt. Sterkt lyngbragð og villikeimur sem mér féll svona svakalega við, lungamjúkt kjöt og bragðmikið rauðvín með. Óóótrúlega góður matur. Gæði, gæði, gæði fyrir bragðlauka.
Við áttum svo algeran rólegheitadag í dag, létum kamínuna malla í rólegheitum, gamla klukkan var trekkt upp til að fá notalegt tikkið í gang og fallegan slátt á heilum og hálfum tíma. Svo var lesið (ég) og prjónað (Erla) og drukkið kaffi þess á milli og spjallað um lífið og tilveruna.
Notaleg helgi í Föðurlandi voru og kreppan úti í móa einhversstaðar.
4 ummæli:
Hva... lítill munur á 2 metrum og 5 :) Annars fannst mér æðislegt að lesa þennan pistil. Upplifði næstum stemninguna með ykkur.
Þið eruð frábær!
Kveðja úr Mos.
Hahaha, bara snilld með 2 og 5 metrana! En gott að þið höfðuð það notalegt! Svo gott að geta slakað á svona eftir langar tarnir :)
ja hérna... svona á lífið að vera...
Mér fannst ég skynja við lesturinn bragðið af lynginu og ylinn úr kamínunni, eftir kalda putta og erfiðan mokstur og staðreyndina, að konur eru yndislegar : )
Karlott
Nákvæmlega! Elska þær í ræmur...!
Skrifa ummæli