föstudagur, maí 29, 2009

Bjargráð eða hvað

Við erum að byrja að finna til tevatnsins. Þessi ríkisstjórn verður, alveg eins og sú sem fór frá, að horfast i augu við gríðarlegan vanda sem þjóðin okkar er komin í og framkvæma allskyns aðgerðir sem munu falla illa í landann. Sparnaður, auknir skattar og álögur er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að taka á skuldapakka þjóðarinnar. Þegar engin góð leið er til verður að finna illskárstu. Þessi aðgerð að hækka álögur á eldsneyti, áfengi og aðra vöruflokka skila ekki miklu upp í vandann. Til þess verður að fara í miklu meiri og sársaukafyllri aðgerðir. Þetta er aðeins upp í nös á ketti eða 1/40 af því sem liggur fyrir að að ná í kassann.

Þeir ættu samt að hlusta á stjórnarandstöðuna núna og skoða óbeinar afleiðingar þessara gjörninga. þetta getur orsakað að vandi heimilanna aukist um hátt í 9 milljarða meðan þetta færir aðeins um 2.5 milljarð í kassann.
Krafa búsáhaldabyltingarinnar um að nýir aðilar tækju við þjóðarskútunni breytti engu um blákaldan veruleikann sem blasir við í þjóðmálunum. Ný stjórn hefur engin tromp á hendi sem hin hafði ekki. Engin leið er þægileg eða góð, það er bara þannig.
Samt..... er um að gera að halda í bjartsýnina og horfa yfir víðáttumikið landið. Það hefur fóstrað okkur öll árin og mun gera það áfram.

laugardagur, maí 23, 2009

Útskrift

Það var hátíðleg stund í Borgarleikhúsinu þegar 105 stúdentar frá Kvennaskólanum voru útskrifaðir. Hrundin okkar ásamt skólasystkinum sínum setti upp langþráðan hvítan kollinn.
Þetta var flottur hópur efnilegs ungs fólks sem eflaust á eftir að láta að sér kveða.




Hrund fékk verðlaun frá velferðarsjóði barna fyrir góðan árangur í Mentor verkefninu, fékk enda 10.0 fyrir verkefnið. Af máli nemenda skólans og kennara mátti heyra að þessi gamli skóli stútfullur af gömlum hefðum og venjum er mjög sérstakur. Hann nær að tengja fólk órjúfanlegum vina- og tryggðaböndum sem oft endist ævilengt. Nærtækt dæmi er Erla og hennar gömlu skólasystkini sem hittast enn, en Erla gekk í Kvennaskólann í gamla daga meðan hann var enn gagnfræðaskóli.


Við héldum svo veislu í Kefassalnum í Kópavogi og buðum þangað um 90 manns. Veislan tókst vel og virtust allir skemmta sér vel. Þetta var matarveisla. Kalkúnn með fyllingu og sósu og karamelluhúðuðum kartöflum, lax með aspas og ristuðu brauði og fiskur í hlaupi með sósum og grænmeti. Við nutum þessa góða samfélags með fólkinu okkar og vinum. Svo voru matargötin auðvitað ánægð með að fólkinu virtist líka maturinn.Við vorum að rifna úr monti með dótturina, það sást víst langar leiðir sögðu einhverjir.
Hrund fór svo í bekkjarhitting eftir veisluna og kom heim í nótt einhverntíman.
Við tvö ætlum að skreppa í Föðurland í dag og slappa aðeins af.
Hvergi eins notalegt og þar.

miðvikudagur, maí 20, 2009

Bruðl og óráðsía

Ég er sammála Pétri Blöndal og nokkrum skoðanabræðrum hans á Alþingi, að stöðva þarf byggingu tónlistarhússins við höfnina. Þetta fyrirbæri kostar litla 25 milljarða - tuttugu og fimm þúsund milljónir.....!
Meðan við þurfum að skera niður lífeyri gamla fólksins, stytta skólagöngu unga fólksins, fækka lögreglumönnum, skera niður heilbrigðiskerfið og skerða þjónustu á öllum sviðum, getum við ekki haldið áfram svona bruðli eins og ekkert hafi í skorist.

Það má bara setja upp hlið og selja inn í tóma salina til að sýna næstu kynslóðum hvernig sukk kynslóðin hagaði sér. Sama mætti gera víðar. Til dæmis Bakkavararhúsið í Fljótshlíð, kaupþingsforstjórahúsið í Borgarfirðinum o.fl. staði.
Ég veit það af gamalli reynslu að þegar kreppir að skóinn, verður að bregðast við með viðeigandi hætti.
Sparnaður og aðhald er ein góð aðferð til að eiga meira fyrir nauðsynjum.

sunnudagur, maí 17, 2009

Matarklúbbur og júróvision

Það hefur áhrif á stolt manns sem Íslendings þegar okkur gengur vel á erlendri grundu. Ég var feikna ánægður með niðurstöðu söngvakeppninnar í gærkvöldi. Jóhanna var flottur fulltrúi Íslands og söng sig inn í hjörtu þjóðanna. Íslenska lagið var samt flottast. Það var samt eins gott að við leyfðum norðmönnum vinna því það hefði verið þungur baggi í erfiðu efnahagsástandi okkar að þurfa að halda keppnina að ári. Svo niðurstaðan í gærkvöldi var besti sigur sem við gátum fengið. Ekki veitti nú af til að rétta aðeins af hallann á þjóðarstoltinu.

Við vorum líka með matarklúbb í gærkvöldi. Það var gaman eins og alltaf. Maturinn var, þó ég segi sjálfur frá, svakalega góður. Í forrétt var reyktur lax rúllaður upp í rós með eggjakremi á milli og agúrkusósu, ferskum graslauk og ristuðu brauði.
Í aðalrétt voru kjúklingabringur veltar upp úr hunangi og ristuðum sesamfræjum áður en þær voru grillaðar. Bökuð kartafla með kryddsmjöri (hvítlaukur steinselja og graslaukur). Gljáð grænmeti (sætar kartöflur, rauð paprika og kúrbítur) og rjómalöguð ostasósa. - Hvet ykkur til að prófa að fara svona með kjúllann, algjört bragðlaukakitl.
Svo var Créme brulée í eftirrétt. Erlan sér um þann þátt. Hún fékk uppskrift hjá vinnufélaga sínum að alvöru créme brulée. Ég set uppskriftina á matargatið hér á síðunni ef einhver vill prófa. Ég hendi líka að gamni uppskriftunum að laxarósunum og sesamkjúllanum ef þetta freistar einhvars.

Í dag er svo hugmyndin að skreppa í Föðurland í Fljótshlíð. Við gömlu förum á mótorhjólinu en krakkarnir koma bílandi. Þau hafa fæst séð hvað búið er að gera þar, svo þetta er tímabær skoðunarferð.
Kvenfólkið á bænum er ekkert farið að láta kræla á sér ennþá.... ótrúlegt hvað þær geta sofið.
Ég morgunhaninn er alltaf sestur niður löngu á undan þeim.

Njótið daganna gott fólk

föstudagur, maí 15, 2009

Sit sveittur

Má segja í orðsins fyllstu merkingu. Það er heitt utandyra núna. Ég sit yfir tilboðsgerð.... inni. Ég sem hélt að ég kæmist út eftir prófin. Er að reyna að gera einhverja vitlega tölu í verkefni austur í sveitum. Það getur verið hausverkur þegar engar magntölur eru til staðar og verkefnið viðamikið.
Ég var annars í sveitinni í gær. Var að klára ýmislegt sem ég átti eftir að gera í kofanum. Vorverk eiginlega. Þar er alltaf jafn ljúft að vera.
Svo vorum við að fá úthlutað "garði" hjá sveitarfélaginu. Þar er pláss fyrir einhverja grænmetisræktun til að uppskera í haust. Bara gaman að því..... og frábærlega gott auðvitað, beint úr garðinum.

Jæja skyldan kallar. Það verður að vinna fyrir saltinu í grautinn í sumar.

miðvikudagur, maí 13, 2009

Að bóna er líka vorverk

Kraftur, svart stál, mikið króm og...... falleg kona.
Hún er punkturinn yfir i-ið.
Passamynd af króminu.
Ég hef gaman að þessu. Það er mikið verk að bóna eitt svona stykki, svo vel sé.
Að bóna bíl telst varla nokkur skapaður hlutur. Það tók mig góðan dag að fara yfir
hjólið, massa, bóna og pússa. Ég hlakka til að ferðast á því í sumar... auðvitað með
konuna aftan á.

mánudagur, maí 11, 2009

Akureyri

Við keyrðum norður í vetrarfærð. Holtavörðuheiðin var við það að vera ófær, blindbylur og bílar að byrja að festast eða keyra útaf. Við komumst þó vandræðalaust norður. Á Akureyri var svo afskaplega jólalegt með ofankomu sem skreytti tré og runna eins og gerist í desember hér sunnan heiða. Þessum veðurleiðindum lauk þó auðvitað að lokum með því að snjóinn tók upp og sólin skein.

Við kíktum á sýningu nemenda í Listaskólanum á Akureyri. Rúnar hefur verið í þeim skóla undanfarin ár og var með verkin sín á sýningu sem var tengd útskrift nemenda. hann var samt ekki að útskrifast. Hann er að gera ýmislegt þarna m.a. saga í sundur stóla og raða þeim upp í ýmsum stellingum. Svo málar hann myndir með ýmsum aðferðum sem ég kann ekki skil á aðferðafræðilega. Margt mjög flott hjá honum.
Afmælið hans var haldið á laugardeginum. Það var fjölmennt og margir tóku til máls honum til heiðurs. Á máli manna mátti heyra að Rúnari er margt til lista lagt. Fyrir utan listina og smíðarnar hefur hann tekist á við veikindi til 8 ára með aðdáunarverðum hætti. Hann hefur sýnt samferðafólki sínu að lífið er ekki endilega búið þótt krabbamein herji á líkamann. Honum hefur auðnast að líta björtum augum á framtíðina og smita frá sér jákvæðni til samferðafólks síns.

Það var gaman að geta verið með honum á þessum tímamótum. Ferðalagið var líka skemmtilegt. Okkur hjónakornum hefur aldrei leiðst að ferðast um landið okkar.
Fín helgi að baki. Skólinn búinn, allar einkunnir í höfn.... á reyndar eftir að fá eina. Held hún velti ekki hlassinu mér.
Njótið daganna.

fimmtudagur, maí 07, 2009

Prófalok

Þetta var góð törn. Bráðum sex vikur stanslaust með nefið ofan í tölvunni eða bókunum. Í dag var síðasta prófið þetta vorið. Fyrsta önnin að baki í mastersnáminu. "Bara" þrjár eftir. Það getur verið að ég eigi samt bara eina önn eftir í fögum. Það er ekki alveg útilokað að ég skrifi "stærri" ritgerðina. Ef svo færi, taka skrifin tvær annir. það veltur á hvort ég fæ leyfi til að skrifa um ákveðið efni sem mig langar til að skrifa um. Vandamálið er að það er í frumvarps formi ennþá og gengur ekkert að þoka því í gegnum þingið. Þetta eru ný byggingar- og skipulagslög. BA ritgerðin mín var um svipað efni byggð á núverandi lögum. Það var alltaf hugmyndin að skrifa mastersritgerðina á grunni nýju laganna sem gengur illa að gera að lögum.....

Þetta kemur allt í ljós. Ég er kátur með prófalokin núna hvað sem framhaldið verður. Á morgun verður brunað á Akureyri. Rúnar er að halda upp á fimmtugsafmælið sitt. Það er stór áfangi og vert að halda upp á það.
Svo tekur við að reyna að vinna fyrir næsta skólaári. Ég vona að eitthvað verði að gera hjá mér. Ef þig vantar smið - þá hringirðu í mig. Ef þig vantar lögfræðing sérstaklega varðandi byggingatengd mál - þá hringirðu í mig.....
Einfalt... og þægilegra verður það ekki.

miðvikudagur, maí 06, 2009

Meira um gjaldþrot

Ég næ ekki hvernig sú ákvörðun stjórnarflokkanna að leggja ESB málið fyrir Alþingi getur kallast niðurstaða. Hvernig á Alþingi að samþykkja að ríkisstjórn fari í aðildarviðræður þegar hún er svona gersamlega ósammála um málið. Ef Alþingi segir já - hvað ætla VG þá að gera. Ætla þeir að senda Samfylkinguna suðureftir eina og standa svo fastir gegn öllu sem kemur þar fram. Ég sé ekki annað en að í raun séu þessar stjórnarmyndunarviðræður gjaldþrota.
Fyrir utan hvað það er orðið með öllu óskiljanlegt, hvað þau leyfa sér að vera lengi að þessu.

mánudagur, maí 04, 2009

Gjaldþrot

Það standa margir á þröskuldi þeirra dyra í dag. Ég hef heyrt marga tala um gjaldþrot eins og það sé - valkostur - sem lögin leyfa. Ég heyri þennan grundvallar misskilning hjá mörgum. Það er rétt að gjaldþrot er löggerningur sem lögin auðvitað banna ekki. En eins og nafnið gefur til kynna er gjaldþrot ástand sem ber með sér greiðsluþrot. Að komast í greiðsluþrot er skilgreint þannig að ekki er til fyrir skuldum og ekki fyrirsjáanlegt að úr bætist í sjáanlegri framtíð. Þá er svo komið, fram að þessu allavega, að einungis ein leið er fær og hún er gjaldþrotameðferð. Ein grundvallarbreyting sem gerð hefur verið á gjaldþrotalögunum, greiðsluaðlögunin, er samt leið sem er fær í dag. Hún hefur ekki verið til staðar hér á landi þangað til nýverið. Hún er ekki einu sinni fullmótuð þar sem ráðherra er að smíða reglugerð um framkvæmd laganna.
Það er skoðun mín að best sé að forðast gjaldþrot í lengstu lög. Ég sjálfur myndi skoða þessa leið sem björgunarhring í ólgusjó. Það er gott að geta átt von um að ferlinu ljúki á einhverjum tímapunkti. Hér er linkur á allar upplýsingar um greiðsluaðlögun m.a. hvernig veðskuldir koma inn í dæmið.

Ég skil mjög vel þá sem velja greiðsluverkfall. Margir sem tekið hafa þá stöðu falla undir skilgreininguna að vera komin í greiðsluþrot og sjá ekki að það breytist í sjáanlegri framtíð. Það tel ég nægjanlega ástæðu til að hætta að greiða. En akkúrat þar myndi ég skoða greiðsluaðlögun mjög vel. Um leið og ég skil það svona vel að fólk hætti að greiða, kemst ég ekki framhjá hinni hliðinni á teningnum. Það sem mælir gegn greiðsluverkfalli einstaklinga er spurningin um almannaheill. Ef allir hætta greiðslu lána sinna fer bankakerfið lóðbeint á hausinn aftur og enginn björgunarhringur til staðar eins og síðast. Ef margir hlekkir brotna í þessari keðju sem bankakerfið, eða öllu heldur rústir bankakerfisins, byggir á er voðinn vís.
Það myndi kalla yfir þjóðina allsherjargjaldþrot með gríðarlegu atvinnuleysi, allsherjarsjóðþurrð og alvöru örbirgð heimilanna. Ég held að kreppuástand þjóðarinnar nú yrði talin velsæld á spjöldum sögunnar miðað það ástand sem gæti orðið.
Ábyrgð hvers íslendings nú, er að styðja við skútuna svo henni hvolfi ekki endanlega, þó það sé fúlt hlutskipti miðað við aðdragandann.

Ég hef ekki enn fengið líklega skýringu á fyrirbærinu á myndunum hér að neðan..... Upplýstir runnarnir og staurinn, ýta gufu-, reyk- og andardráttar hugmyndum út af borðinu.
Einhver sem giskar betur?

föstudagur, maí 01, 2009

Hvað er þetta...?

Nú vantar mig einhvern sem getur rýnt í þessar myndir fyrir mig. (Hægt að stækka þær) Þetta eru tvær myndir teknar með 22 sekúndna millibili.
Við vorum í göngutúr í gærkvöldi fjölskyldan með myndavélina með í för auðvitað.
Ég tók þessa kl. 22:25:52



Svo tók ég þessa á nákvæmlega sama stað nokkrum sekúndum seinna eða kl. 22:26:14
Þá kom þessi geisli inná myndina.
Það sem veldur mér heilabrotum er að þetta er ekki linsu tengt því þetta lýsir upp bæði trén og staurinn.





Ég lýsti myndina og þá sést betur hvernig trén og staurinn lýsast upp (græni liturinn).
Ef einhver mér fróðari getur gefið mér skýringu á þessu fyrirbæri -annað en að þetta sé draugurinn úr Stórahelli sem við vorum að koma úr, þá þætti mér gaman að fá komment á það.
Ég er sjálfur búinn að brjóta heilann um hvað þetta sé - án niðurstöðu.

Annars......göngutúrinn var snilld. Hafið það betra en best vinir.