Það hefur áhrif á stolt manns sem Íslendings þegar okkur gengur vel á erlendri grundu. Ég var feikna ánægður með niðurstöðu söngvakeppninnar í gærkvöldi. Jóhanna var flottur fulltrúi Íslands og söng sig inn í hjörtu þjóðanna. Íslenska lagið var samt flottast. Það var samt eins gott að við leyfðum norðmönnum vinna því það hefði verið þungur baggi í erfiðu efnahagsástandi okkar að þurfa að halda keppnina að ári. Svo niðurstaðan í gærkvöldi var besti sigur sem við gátum fengið. Ekki veitti nú af til að rétta aðeins af hallann á þjóðarstoltinu.
Við vorum líka með matarklúbb í gærkvöldi. Það var gaman eins og alltaf. Maturinn var, þó ég segi sjálfur frá, svakalega góður. Í forrétt var reyktur lax rúllaður upp í rós með eggjakremi á milli og agúrkusósu, ferskum graslauk og ristuðu brauði.
Í aðalrétt voru kjúklingabringur veltar upp úr hunangi og ristuðum sesamfræjum áður en þær voru grillaðar. Bökuð kartafla með kryddsmjöri (hvítlaukur steinselja og graslaukur). Gljáð grænmeti (sætar kartöflur, rauð paprika og kúrbítur) og rjómalöguð ostasósa. - Hvet ykkur til að prófa að fara svona með kjúllann, algjört bragðlaukakitl.
Svo var Créme brulée í eftirrétt. Erlan sér um þann þátt. Hún fékk uppskrift hjá vinnufélaga sínum að alvöru créme brulée. Ég set uppskriftina á matargatið hér á síðunni ef einhver vill prófa. Ég hendi líka að gamni uppskriftunum að laxarósunum og sesamkjúllanum ef þetta freistar einhvars.
Í dag er svo hugmyndin að skreppa í Föðurland í Fljótshlíð. Við gömlu förum á mótorhjólinu en krakkarnir koma bílandi. Þau hafa fæst séð hvað búið er að gera þar, svo þetta er tímabær skoðunarferð.
Kvenfólkið á bænum er ekkert farið að láta kræla á sér ennþá.... ótrúlegt hvað þær geta sofið.
Ég morgunhaninn er alltaf sestur niður löngu á undan þeim.
Njótið daganna gott fólk
1 ummæli:
Ætli kvenfólk þurfi að sofa meira en karlmenn, eins og þær þurfa alltaf að tala meira???? Bara pæling;) Arnan
Skrifa ummæli