Við keyrðum norður í vetrarfærð. Holtavörðuheiðin var við það að vera ófær, blindbylur og bílar að byrja að festast eða keyra útaf. Við komumst þó vandræðalaust norður. Á Akureyri var svo afskaplega jólalegt með ofankomu sem skreytti tré og runna eins og gerist í desember hér sunnan heiða. Þessum veðurleiðindum lauk þó auðvitað að lokum með því að snjóinn tók upp og sólin skein.
Við kíktum á sýningu nemenda í Listaskólanum á Akureyri. Rúnar hefur verið í þeim skóla undanfarin ár og var með verkin sín á sýningu sem var tengd útskrift nemenda. hann var samt ekki að útskrifast. Hann er að gera ýmislegt þarna m.a. saga í sundur stóla og raða þeim upp í ýmsum stellingum. Svo málar hann myndir með ýmsum aðferðum sem ég kann ekki skil á aðferðafræðilega. Margt mjög flott hjá honum.
Afmælið hans var haldið á laugardeginum. Það var fjölmennt og margir tóku til máls honum til heiðurs. Á máli manna mátti heyra að Rúnari er margt til lista lagt. Fyrir utan listina og smíðarnar hefur hann tekist á við veikindi til 8 ára með aðdáunarverðum hætti. Hann hefur sýnt samferðafólki sínu að lífið er ekki endilega búið þótt krabbamein herji á líkamann. Honum hefur auðnast að líta björtum augum á framtíðina og smita frá sér jákvæðni til samferðafólks síns.
Það var gaman að geta verið með honum á þessum tímamótum. Ferðalagið var líka skemmtilegt. Okkur hjónakornum hefur aldrei leiðst að ferðast um landið okkar.
Fín helgi að baki. Skólinn búinn, allar einkunnir í höfn.... á reyndar eftir að fá eina. Held hún velti ekki hlassinu mér.
Njótið daganna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli