mánudagur, maí 04, 2009

Gjaldþrot

Það standa margir á þröskuldi þeirra dyra í dag. Ég hef heyrt marga tala um gjaldþrot eins og það sé - valkostur - sem lögin leyfa. Ég heyri þennan grundvallar misskilning hjá mörgum. Það er rétt að gjaldþrot er löggerningur sem lögin auðvitað banna ekki. En eins og nafnið gefur til kynna er gjaldþrot ástand sem ber með sér greiðsluþrot. Að komast í greiðsluþrot er skilgreint þannig að ekki er til fyrir skuldum og ekki fyrirsjáanlegt að úr bætist í sjáanlegri framtíð. Þá er svo komið, fram að þessu allavega, að einungis ein leið er fær og hún er gjaldþrotameðferð. Ein grundvallarbreyting sem gerð hefur verið á gjaldþrotalögunum, greiðsluaðlögunin, er samt leið sem er fær í dag. Hún hefur ekki verið til staðar hér á landi þangað til nýverið. Hún er ekki einu sinni fullmótuð þar sem ráðherra er að smíða reglugerð um framkvæmd laganna.
Það er skoðun mín að best sé að forðast gjaldþrot í lengstu lög. Ég sjálfur myndi skoða þessa leið sem björgunarhring í ólgusjó. Það er gott að geta átt von um að ferlinu ljúki á einhverjum tímapunkti. Hér er linkur á allar upplýsingar um greiðsluaðlögun m.a. hvernig veðskuldir koma inn í dæmið.

Ég skil mjög vel þá sem velja greiðsluverkfall. Margir sem tekið hafa þá stöðu falla undir skilgreininguna að vera komin í greiðsluþrot og sjá ekki að það breytist í sjáanlegri framtíð. Það tel ég nægjanlega ástæðu til að hætta að greiða. En akkúrat þar myndi ég skoða greiðsluaðlögun mjög vel. Um leið og ég skil það svona vel að fólk hætti að greiða, kemst ég ekki framhjá hinni hliðinni á teningnum. Það sem mælir gegn greiðsluverkfalli einstaklinga er spurningin um almannaheill. Ef allir hætta greiðslu lána sinna fer bankakerfið lóðbeint á hausinn aftur og enginn björgunarhringur til staðar eins og síðast. Ef margir hlekkir brotna í þessari keðju sem bankakerfið, eða öllu heldur rústir bankakerfisins, byggir á er voðinn vís.
Það myndi kalla yfir þjóðina allsherjargjaldþrot með gríðarlegu atvinnuleysi, allsherjarsjóðþurrð og alvöru örbirgð heimilanna. Ég held að kreppuástand þjóðarinnar nú yrði talin velsæld á spjöldum sögunnar miðað það ástand sem gæti orðið.
Ábyrgð hvers íslendings nú, er að styðja við skútuna svo henni hvolfi ekki endanlega, þó það sé fúlt hlutskipti miðað við aðdragandann.

Ég hef ekki enn fengið líklega skýringu á fyrirbærinu á myndunum hér að neðan..... Upplýstir runnarnir og staurinn, ýta gufu-, reyk- og andardráttar hugmyndum út af borðinu.
Einhver sem giskar betur?

Engin ummæli: