sunnudagur, nóvember 27, 2011

Morgunverðarborðfélagar

Það er svo gott að sitja í þögninni og gera ekkert á svona friðsælum morgnum eins og þessum. Fréttablaðið frá í gær var borðfélaginn minn ásamt kaffibollanum mínum og frú Leti bankaði upp á og ég bauð henni til sætis líka. Ég horfi út á ána úr sætinu mínu, hún verður alltaf hrímuð og köld þegar kólnar svona. Úti er 5 gráðu frost og það ýrir aðeins úr lofti í logninu sem gerir að verkum að útsýnið líkist þoku og hverfur í grámósku í fjarska.
Einhver náungi er að upplifa náttúruna þarna útfrá og situr í snjónum á árbakkanum, hann virðist vera að hugleiða en kannski er hann bara að njóta sama útsýnis og ég.
Það er öllu þægilegra að vera hérna megin glersins núna þótt útiveran sé auðvitað alltaf góð, maður klæðir sig bara eins og þarf. "Það bíður betri tíma" eins og borðfélaginn skaut að mér áðan.

Það liggur fyrir að hengja upp jólaljósin utan á húsið og auðvitað ætti ég að vera farinn út og hespa því af en Letin situr hér til borðs með mér, ég er gestrisinn og félagsskapurinn er of góður til að ég nenni að brjóta hann upp. Það er auðvitað nær að detta aðeins í gamaldags gír og blogga smá um tilveruna á öðrum nótum en búðarframkvæmdahugleiðinganótum eins og undanfarið.

Borðfélaginn stakk því að mér áðan að nota daginn í dag til ýtrasta til að gera ekki neitt og ég er ekki frá því að það sé snilldarhugmynd hjá honum.
Við Leti ætlum því að eyða deginum saman og gera eitthvað sem hæfir hennar félagsskap. Þið hin eruð velkomin í hópinn ef þið viljið.

1 ummæli:

Íris sagði...

Frábært :) Ég ætla líka að eyða deginum með letinni og eiga góðan og notalegam heimadag :)