fimmtudagur, janúar 26, 2012

Illskan í honum Kára

Það fauk í hann í gærkvöldi og hann hefur ekki linnt látunum síðan. Þetta er versta vetrarveður síðan við fluttum hingað 2006. Ég hafði varann á í gærkvöldi og fylgdist með því veðurfræðingar höfðu sagt að ætti að hvessa. Nálægt miðnætti var enn logn hér en það stóð ekki lengi eftir það. Með hvelli rauk upp stormur svo ekki sást út úr augum og gatan fylltist á hálftíma af sköflum.
Í alla nótt hristist húsið stafnanna á milli og snjóbylurinn var þannig að ekki sást á milli húsa. Það er enn rok en bylurinn hefur minnkað.
Ég kíki alltaf eftir færðinni á vefnum, sérstaklega heiðinni. Kortið hef ég aldrei séð svona eins og sést hér að ofan, allt meira og minna lokað.
Ég fæ víst ekki tækin úr bænum sem ég átti að fá í morgunsárið fyrir ísbúðina.

Hvað um það, heimurinn ferst ekki við það. Kosturinn við svona veður er auðvitað sú staðreynd að það væsir varla um nokkurn mann, hlýju húsin okkar eru orðin svo góð að flestir finna fyrir notalegheitatilfinningu þegar veðrið lætur svona.

Um að gera að njóta þess meðan er.

sunnudagur, janúar 22, 2012

Tærnar á sjálfum mér...

...uppi á borði eru það eina sem skyggir á logana því ég er sokkinn í sófann hér framan við arininn með tölvuna í fanginu og blogga. Snarkið lætur vel í eyrum og lágvær Tírólatónlist spilar undir mómentið. Það er vandalaust að gleyma sér hér í kofanum, láta hugann reika um Tírólahérað og leyfa góðum minningum að renna gegnum hugann, það kostar ekki krónu.

Við reynum að nota kofann eins og við getum, hann er svona staður sem vindur ofan af manni þegar mikið er að gera þó ekki sé nema sólarhringur eins og núna.

Fyrsta verk hér er oftast að vekja gömlu klukkuna til lífsins, trekkja sláttinn og tikkið, þessi 112 ára gamla stofuklukka er nauðsynleg til að skapa móment eins og við viljum hafa það, gamla sveitarómantíkin, þið vitið þessi stóíska. Út um gluggann sé ég kurlast niður blaut snjókorn annað slagið sem fjúka til og frá undan Kára kallinum sem virðist hafa gaman að því að leika sér núna. Hér er allnokkur snjór og greinilega margfrosinn því hann er eiginlega harðfenni með svellbunkum.

Það tilheyrir að elda góðan mat hér, þá er gott að eiga sæmilegan vetrarforða í kistunni og geta tekið eitthvað með á grillið. Við Erlan mín erum svo heppin að kunna svo vel við okkur að okkur leiðist ekki þó við séum tvö í kotinu.
Við erum bæði óendanlegir sælkerar og því hef ég gaman af því að gera tilraunir á grillinu fyrir hana. Hún segir mig dekra sig upp úr skónum með þessu en það er eins og hún fatti ekki hvað það er í raun lítið endurgjald fyrir það sem hún dekrar mig.
Kannski erum við bara dekruð bæði hvort á sinn hátt.

Hún er búin að setja upp kartöflur svo það er best að ég fari að gera mig kláran í grillunina. Heim á morgun og alvaran í nefið.

sunnudagur, janúar 15, 2012

Morgunbollinn...

...er alltaf á sínum stað. Hann er meiri viðhafnarbolli á sunnudagsmorgnum en aðra daga því þá á ég frí allajafna. Krossgáta og nokkrar sudoku þrautir eru oft fylgifiskur sunnudagsbollans og svo á ég það til að setjast við tölvuna og renna yfir fréttir dagsins, veður, fésið og svo dett ég oft niður í það að blogga aðeins.

Svona friðsælir morgnar eins og þessi, veðrið minnir á vor og Kári vinur minn sefur svefni hinna réttlátu og lætur ekki á sér kræla verða mér oft tilefni hugrenninga, og þá gjarnan um gæðin sem ég bý við sem mér finnst svo gott að setja niður á ritmál til að eiga síðar.
Það er nálægt því að vera tíu ár síðan ég byrjaði að blogga, þar af átta hér á blogspot. Það telst víst varla tískufyrirbæri lengur að blogga því fáir fást við blogg lengur eftir að fésið hertók netheima og annar tjáskiptamáti steinrann í kjölfarið. Ég er víst steinrunninn fornmaður, hef gaman að fésinu en  ég les gjarnan blogg hjá völdum einstaklingum líka.

"Orð eru álög" segir einhversstaðar og ég velti því stundum fyrir mér hvort það geti verið rétt. Þau eru allavega til alls fyrst því hugmyndir breytast gjarnan fyrst í orð áður en þær verða að framkvæmd. Ég hef oft sagt að ég þrífist best á því að hafa nóg fyrir stafni og vilji vera upp fyrir haus í verkefnum. Ef orð eru álög þá er kannski best að hætta öllum yfirlýsingum. Ég tek svona til orða vegna þess að opnun ísbúðarinnar er rétt að bresta á eftir mikla vinnutörn því Home design búðin var inni í þeim pakka líka og ég var farinn að hugsa um að það væri gott að eiga smá tíma til að hvíla sig og taka því rólega þegar ég fékk símtal frá einum eigenda Dominos á Íslandi. Erindið var að biðja mig að sjá um að opna Dominos pizzustað hér á Selfossi. Ég tók auðvitað verkefnið að mér enda áskorun í því, því verkið á að vinnast á miklum hraða. Ég lít á þetta sem blöndu af verktöku og lögfræði því verkefnið felur í sér hagsmunagæslu fyrir þá, öflun tilboða, samningagerðir og mikla skipulagsvinnu.

Jæja það heyrist brölt á efri hæðinni og því kominn tími til að skella í annan bolla og drekka hann með betri helmingnum mínum.
Njótið dagsins.

laugardagur, janúar 14, 2012

Betri helmingurinn á afmæli

Það tikka á okkur árin sem betur fer og afmælisdagar fjölskyldunnar verða fleiri og fleiri eftir því sem okkur fjölgar. Erlan er mikið afmælisbarn og ég elska það þó ég sé ekki á sama kaliberi með það sjálfur. "Það er gott að elska" söng Bubbi. Það er fallegt lag og texti sem ég hef oft persónugert við okkur sjálf. Ég set þá Erluna í textann og sjálfan mig sem flytjanda. Ég verð að hafa þennan háttinn á þar sem ég hef ekki rödd sem nýtur sín nema í sturtunni.

Erlunni var úthlutað það krefjandi hlutverk að verða lífsförunautur minn. Það var mín gæfa. Hún hefur mótað mig gegnum tíðina með einlægni sinni og hreinlyndi og dregið fram í mér mínar bestu hliðar.
Skaparanum hugnaðist að velja mér frábæra konu sem er auðvelt að elska og sem dekrar mig oft meira en ég hef gott af. Hún er frábær móðir stelpnanna okkar, amma, tengdamamma eða önnur hlutverk sem hún sinnir af fágætri kostgæfni.

Ég hlakka til áranna framundan Erla mín og vona að Guð gefi okkur þau mörg.
"Föruneytið" ákvað að labba saman þangað sem sólin sest, þú manst.... tvær krumpaðar...!

sunnudagur, janúar 08, 2012

Hálkuleysi og fögur fyrirheit.

Gærdagurinn var kærkominn, hann var notaður til að gera ekkert eða því sem næst. Við nýttum hann því til að kíkja austur í kofa og athuga hvort ekki væri allt í lagi þar, sem var. Ég kveikti upp í kamínunni og við létum eftir okkur að dvelja þarna í nokkra klukkutíma við arineld. Kamínan er fljót að hita upp og eftir korter til hálftíma er orðið vel hlýtt inni. Það var ljúft að setjast aðeins niður í sveitasælunni og leyfa sér að slaka á við eldinn og hugsa um þau fögru fyrirheit sem kofinn lofar þegar vorar á ný.
Við kíktum svo á Gylfa og Christinu og ætluðum að vitja Hansa og Auju líka en tíminn flaug hjá eins og honum er svo gjarnt.

Í dag eigum við von á fólki hingað í Húsið við ána því Hrund á afmæli í dag og Erlan eftir nokkra daga. Þær eru báðar miklar afmælis- og jólabörn og njóta þessara hátíða meira en flestir. Til hamingju með dagana ykkar elsku yndin mín.

Það rignir heil ósköp þessa stundina svo vonandi tekur eitthvað af þessum svellalögum upp. Það kom reyndar á óvart hvað var lítil hálka á leiðinni austur í gær, allavega á þjóðvegunum. Það var auðvitað glæra á heimreiðum og afleggjurum þar sem ekki var búið að sanda en annars í fínu lagi.

Frúin er farin að brölta á efri hæðinni svo það fer að koma tími á kaffibollann með henni. Ég er auðvitað búinn með fyrsta bollann sem var tekinn snemma í morgun að venju.

fimmtudagur, janúar 05, 2012

Stýrimaður á eigin fleyi

Ég hlustaði á prédikun um daginn hjá séra Kristni Á. Friðfinnssyni sóknarpresti hér í Selfossprestakalli. Skemmtilega framsettur boðskapur sem náði eyrum mínum og athygli um hvernig höndla má hamingjuna á átta mismunandi vegu. Hann byggði lesturinn á rannsóknum viðurkenndra sálfræðinga sem gerði niðurstöðuna marktækari í mínum huga.

Ekki er hugmyndin að endurtaka hér það sem hann sagði, utan eitt atriði sem náði eyrum mínum sérstaklega og þá aðallega vegna þess að ég gat svo vel staðsett sjálfan mig þar. það snerist um að vera sjálfur með hendur á stýri í eigin lífi þ.e. að láta ekki aðra stýra gjörðum manns.

Margur maðurinn lifir lífinu í stöðugri þægð við náungann og aktar gjarnan í takti við það sem hann telur að aðrir vilji sjá hann gera og leyfir þannig öðrum að stýra lífi sínu.
Ég óx upp í umhverfi sem krafðist undantekningarlausrar þægðar við ákveðnar kenningar sem mér voru fastmúraðar og innbrenndar sem hinar einu sönnu og réttu. Trúarleg þægð sem ég hafði ekki afl til að skoða gagnrýnum augum fyrr en á fullorðinsárum, m.ö.o. ég eftirlét öðrum að stýra fyrir mig.

Það var frelsi í mínu lífi að finna þann stað að láta mér fátt um finnast álit annarra á mínum skoðunum eða gjörðum innan þess ramma sem eðlilegt er og fellur undir að hlusta á álit meðreiðarsveina sem oftar en ekki er til góðs.
Nýju fötin keisarans fjalla um þetta efni á sinn skemmtilegan hátt. Allir láta sem þeir sjái ekki fataleysi keisarans og skjalla hann fyrir flotta búninginn hans þangað til litla stúlkan læðir út úr sér að hann sé ekki í neinum fötum. Þægðin allra hinna gæti minnt mig á kafla úr fortíð minni.
Með þessu er ég ekki að líkja trúnni við kómískt fataleysi keisarans, öðru nær, trúin er mér dýrmæt, ég er að tala um gömlu kreddurnar og faríseaháttinn.

Ég læt ekki lengur að þægðinni og kýs að standa utan trúfélaga. Það truflar mig ekki, enda hefur það minna en ekkert vægi þegar trú mín er skoðuð. Hún hefur breyst því neita ég ekki, hún byggir á öðrum gildum, að mínu viti nær kjarnanum, fjær kreddum og yfirskini.

Séra Kristinn sagði það lykilatriði að vera sjálfum sér trúr og fylgja eigin sannfæringu. Þar er ég, með báðar hendur á stýri, og held fast.

Njótið daganna vinir.

sunnudagur, janúar 01, 2012

Nýtt ár

Það heilsaði með logndrífu og hitastigi um frostmarkið, sem kallast blíða miðað við árstíð og venju undanfarinna vikna. Við áttum góð og róleg áramót í gærkvöldi. Hafþór og Arna ásamt föruneyti voru hjá okkur og gistu í nótt. Hrund fór til höfuðborgarinnar í nótt, hún er enn að slíta partískónum sínum og kannast ekkert við að þurfa að sofa þegar annað er í boði.

Við verðum hér samt öll á eftir og ætlum að eyða deginum saman hér í Húsinu við ána. Árið var kvatt með samveru við fólkið okkar og nýju ári heilsað með enn meiri samveru, mér líkar svona, enda fellur þetta algerlega að hugmyndum mínum um hvernig ég vildi haga samskiptum við ættlegginn okkar þegar hann stækkaði.

Þrátt fyrir kólguský í heimsmálunum lítum við hér væntandi til framtíðar, ég hef á tilfinningunni að þetta ár verði gott og farsælt fyrir okkur. Árið verður líka gott fyrir okkur sem þjóð, ég held að við séum að gægjast upp fyrir brúnina þar sem við féllum fram af.

Ég óska ykkur lesendum mínum þess eins að árið beri með sér gæfu og farsæld og verði ykkar besta ár fram að þessu.

Njótið dagsins vinir.