þriðjudagur, apríl 24, 2007

Það er bara þannig...

....að fólk fær misjafnar vöggugjafir. Við vorum á tónleikum hjá Söngskóla Reykjavíkur í kvöld. Meðal annarra var tengdasonur minn Karlott að syngja en hann hefur verið við söngnám í vetur. Ekki að það hafi komið mér á óvart þá söng hann afar vel. Með allri virðingu fyrir hinum sem einnig sungu, þá bar hann af.

Hverjum þykir sinn fugl fagur myndi einhver segja....en, hafandi sjálfur verið í kór til nokkurra ára og hlustað mikið á tónlist í gegnum árin tel ég mig geta lagt nokkuð óháð mat á hver getur sungið og hver ætti að sleppa því - ég til dæmis hætti....!

Vil nota tækifærið hér og óska tengdasyninum til hamingju með flottan söng, klingjandi tenór – flott.

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Fraus saman....!

Það var talið boða gott sumar hér áður fyrr á árunum, ef vetur og sumar frysu saman. Það er komið sumar skv. dagatalinu þó hitastigið sé ekki hátt. Það er líka orðið sumarlegt hér í sveitinni. Farfuglarnir eru farnir að kvaka hér hver í kapp við annan. Sérstaklega á næturnar.

Við hæfi er að þakka lesendum síðunnar fyrir veturinn sem hefur verið viðburðaríkur og góður og óska ykkur gleðilegs sumars.

Ég sit nú við skriftir einu sinni enn. Ástæðan er BA ritgerðin mín. Jú henni var lokið, en ég fékk boð um að birta 6 síðna úrdrátt úr henni í blaði sem Lögrétta er að gefa út í tilefni útskriftar laganema þetta árið. Blaðið er gefið út í 2500 eintökum og verður dreift á flestar lögfræðiskrifstofur landsins og ýmsar biðstofur.
Maður má víst grobba í hófi þá sjaldan að tilefni gefst til þess. En þetta er viðurkenning á ritsmíðunum. Það er ekki auðvelt að fá birtar fræðigreinar í lögfræði almennt. Þær þurfa helst að opna nýja sýn eða vinkil á málefni. Það verður því forvitnilegt að sjá viðbrögðin hjá lögmönnum á markaði.

Ætla að nýta tímann núna fram eftir degi við skriftir og síðan ætlum við að skreppa austur á Föðurland og kíkja aðeins á notalegheitin þar.

Njótið daganna, því þeir eru góðir .......

laugardagur, apríl 14, 2007

Pólitíska landslagið

Þjóðin er ekki vitlaus. Greinilega eru allt of margir með hausinn í lagi fyrir vinstra sullið sem dælt er yfir okkur núna. Skoðanakannanir gefa ákveðna vitneskju um ástandið hér úti á markaðnum. Ef fram fer sem horfir kemst vinstri stjórn ekki að eftir kosningar.
Það væri vel.

Ingibjörg snýst eins og vindhani í íslenskum umhleypingum í kringum hugmyndafræði Samfylkingarinnar meðan fleiri og fleiri brosa út í annað og sannfærast að þessu fólki er ekki hægt að hleypa í bílstjórasætið. Tjái hún sig sem mest, því fylgið virðist hrynja í réttu hlutfalli við það.
Vinstri grænum er líka að fatast flugið. Líklega stóriðjustefnan þeirra. Fólk er almennt ekki asnar.
Frjálslyndir eru ekki búnir að fatta ennþá að við erum hluti af stærri heild og höfum ekki lyklavöldin að fullveldi okkar lengur. Það er margt sem er ákveðið fyrir okkur úti í Brussel. Frjáls för launafólks innan ESB er það sem við búum við og punktur. Meðan atvinnu er að fá getum við ekki stemmt stigu við aðsókn fólks innan ESB á íslanskan markað. Jón Magnússon ætti að vita þetta.
Ómar ætti að halda áfram að vera grínari.... eða er hann kannski bara að grínast. Kannski er Íslandshreyfingin eins og “Hellisbúinn” sprenghlægileg kómedía.

Íslendingar sem horfa á þennan vinstri hræring allan sjá auðvitað hverslags rútubílstjórar eru þarna á ferðinni og hvar það ferðalag myndi enda.
Krossa mig á bak og brjóst við tilhugsunina.

Er nema von að hægri flokkarnir haldi velli?

Njótið helgarinnar.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Alvöru....!

Hver man ekki páskaeggin þegar þau voru búin til úr tveimur helmingum límdum saman með miklu súkkulaði og skreytingarnar voru allskonar súkkulaðiflúr og botninn gerður úr gegnheilum súkkulaðistöpli. Ég er allavega kominn á þann aldur að ég man þau svona. Ég hef oft sagt stelpunum mínum hvernig páskaegg eigi að vera (lýsingin hér á undan). Ekki þetta örþunna skæni sem selt er sem páskaegg í dag.
Nú er sem sé komið að punkti sögunnar.
Mér var fært alvöru páskaegg á páskadagsmorgun. Dæturnar höfðu lagt á sig það erfiða verkefni að búa til páskaegg sem svaraði til lýsingarinnar minnar. Alvöru rjómasúkkulaði steypt í tvo helminga og límt saman með súkkulaði.
Það verð ég að segja að ég hef ekki smakkað betra páskaegg síðan ég var snáði og ekki flottara heldur.
Það svignaði undan eigin þunga svo botninn datt af enda gert úr alvöru súkkulaði en ekki einhverjum glerhörðum kakómassa.

Ég læt fylgja mynd af því áður og eftir að ég gerði því hraustleg skil. Mér fannst hugurinn á bak við samt fallegastur og lang bragðbestur.

Takk yndislegastar.

sunnudagur, apríl 08, 2007

Á páskadagsmorgni

Sem endranær er ég einn kominn á fætur á þessum bæ. Dæturnar hafa erft svefnmengið frá móður sinni og eiga ekki í vandræðum með að sofa fram eftir á morgnana. Ég hef alltaf verið endemis morgunhani, enda einfalt mál í mínum huga, maður sefur á næturnar og vakir á daginn. Það eina sem má deila um er hvenær dagurinn byrjar, en um það eru deildar meiningar á þessum bæ. Erlan mín skilur t.d. ekki hvað ég er að vesenast hér niðri um miðjar nætur.

Páskadagur er samt runninn upp enn einu sinni. Sem minnir mig á hversu tíminn fer hratt. Það er með mestu ólíkindum að ár sé liðið síðan ég faldi páskaeggin síðast, en hér á bæ tíðkast að pabbi felur eggin og skrifar vísbendingar sem vísa hver á aðra þangað til eggið finnst.
Ég hélt að þær yxu upp úr þessu, eeeen, Arna er 26 ára og Hrund 18 og vilja báðar láta fela eggið. Enn ein fjölskylduhefðin sem margar eru viðhafðar hér á bæ.

Þessi dagur er, eins og fólk veit, stærsta hátíð kristinna manna. Flestum finnst jólin vera stærri. En páskar hljóta að bera af, því í þeim liggur kjarni trúarinnar. Upprisan er það sem gerir kristna trú að því sem hún er. Án hennar væri engin kristin trú til. Ef Kristur hefði ekki risið upp frá dauðum hefði sagan líklegast aldrei verið skrifuð. Ef hún hefði samt verið skrifuð hefði hún aldrei orðið merkilegri saga en saga um mikinn heimsspeking, sem lifði og dó. Saga eins og ótal margar eru til um merka menn.
Upprisan er stóra málið. Allt ferlið frá fæðingu Krists til loka andvarpsins á krossinum gekk út á dauða hans og síðan upprisu. Sigra þurfti dauðann til að brúa bilið milli Guðs og manna. Síðustu orð Krists á krossinum “það er fullkomnað” gaf til kynna að áætlunin var að ganga upp, fullkomnuð.
Þessi þrjú orð voru kveikjan að afturhvarfi afa míns til kristinnar trúar og má því segja að þessi sömu orð séu grunnurinn að öllu starfi sem fram hefur farið í Kirkjulækjarkoti.
“Orð til alls fyrst”, sannast hér.

Í dag verður fjölskyldan saman hér í húsinu við ána. Lamb verður á boðstólum sem er gott mótvægi við súkkulaðiát tilheyrandi deginum. Ég hlakka til að fá þau öll hingað, alltaf mikið gaman, mikið fjör.
Dagurinn er fallegur. Ölfusáin liðast framhjá sakleysisleg ásýndar enda ekki í neinum ham þessa dagana, en ber samt með sér þessa ógnarkrafta sem best er að bera mikla virðingu fyrir.
Farfuglarnir eru óðum að koma fleiri og fleiri og gleðja náttúrubarnið í mér. Við vorum í kofanum á Fitinni seinni part skírdags og föstudaginn langa, það var gott. Þar er friður og stóísk ró eins og best verður á kosið. Á samt eftir að finna mér gamla klukku eins og ég á hér heima, sem telur tímann hægt.

Gleðilega hátíð

sunnudagur, apríl 01, 2007

Átti þetta ekki að vera brandari.....?

Margir hafnarfjarðarbrandarar til en þessi slær öllum við, reyndar langt í frá fyndinn, heldur grátlegur. Meðan öll sveitarfélög í landinu keppast við að fá til sín fyrirtæki sem skapa fólki atvinnu, standa Hafnfirðingar í ströngu við að úthýsa því fyrirtæki sem öll sveitarfélög hafa öfundað þá af og vildu hafa innan sinna vébanda.
Rótgróið, vel rekið, arðbært og vaxandi.
Svona sveitarfélagi er ekki viðbjargandi. Kemur enn í ljós hverslags bláskjáir það eru sem stjórna þarna. Samfylkingin er auðvitað höfundur þessa óskunda, eins og þeirra er von. Þeir þorðu ekki að nota umboðið sem kjósendur voru búnir að veita þeim og eru svo vísast á bömmer yfir því hvernig fór. Enda ekki nema svona milljarður á ári sem þeir voru að kasta í ruslatunnuna.

Ég á ekki orð.

föstudagur, mars 30, 2007

Tilveran

Náttúran ber ekki með sér mörg hljóð yfir vetrartímann önnur en ýlfur norðanvindsins og kuldalegt marr í frosnum snjó, annars er veturinn hljóður tími, svefntími náttúrunnar.
Ég hef oftsinnis vaknað um miðjar nætur í vetur við þessi kuldalegu hljóð þar sem ég sef alltaf við opinn glugga hvernig sem viðrar. Ég kom með þessa kuldaþörf inn í hjónabandið fyrir bráðum þrjátíu árum. Erlan mín er löngu orðið jafnháð þessu og ég.

Síðustu nótt vaknaði ég við gamalkunnugt og yljandi hljóð. Vorboðandi hljóð. Tjaldurinn er kominn og farinn að stíga í vænginn við verðandi spúsu sína með tilheyrandi hvellum hljóðum.
Ég hugsaði til baka til bernskunnar en þessi hljóð voru alltaf fyrstu boðberar vorkomunnar í sveitinni. Alltaf á undan Lóunni.
Fleiri góð hljóð heyrði ég. Gæsin er mætt í hólmann. Værðarleg hljóðin í litlum hóp sem hvíldi lúin bein eftir erfitt flug frá Bretlandi.
Þetta eru forréttindi. Ég er slíkur náttúruunnandi að ég naut þessara hljóða með bros á vör um miðja nótt. Fuglarnir eru vinir mínir. Ég er farinn að hlakka til að komast í kofann á Fitinni. Þar er fuglalíf með því mesta sem gerist. Mögnuð sinfónía á björtum vornóttum sem hljómar eins og fegursti lofsöngur til landsins og þess sem skóp það

Að allt öðru. Ég sagði ykkur frá því síðastliðið vor meðan á ritgerðasmíðum stóð að ég hitti nefnd sem vann að undirbúningi nýs frumvarps til byggingalaga. Þar ræddi ég nokkra punkta úr ritgerðinni minni varðandi byggingarstjóra sem virtist ekki hafa verið til umræðu hjá nefndinni.
Nú í vikunni fékk ég það skemmtilega hlutverk að fá frumvarpið í hendur frá Meistarafélagi húsasmiða í Reykjavík til yfirlestrar, en það er nú komið í hendur alþingismanna. Í framhaldi af því fékk ég tækifæri til að hitta nokkra alþingismenn til ábendinga og skrafs og ráðagerða.
Það skemmtilegasta sem mér fannst, var samt sú uppgötvun mín að fundirnir með nefndinni höfðu skilað einhverju. Fingraförin mín voru þarna.

Hef átt betri dag en þennan sem nú er að renna skeiðið. Ég léttist í dag um nokkur grömm. Þrír endajaxlar dregnir úr mér með tilheyrandi pínu og kvöl. Dagurinn hefur þó verið bærilegur utan nokkurra klukkutíma eftir aðgerðina, þökk sé sterkum verkjalyfjum sem tannsi var svo vænn að senda með mér heim og frábæru mæðgunum sem búa með mér og dekra mig oftast meira en hollt er.
Morgundagurinn verður samt betri í munni.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Mottó

Molarnir eru líka brauð.......!

laugardagur, mars 24, 2007

Pólitíkin.... þessi tík

bylur á okkur þessa dagana. Nú nálgast kosningar og pólitíkusar gerast sýnilegri. Loforð um hitt og þetta sem þeir halda að lokki atkvæði úr hugarfylgsnum kjósenda er mottóið í dag, hvað sem um efndirnar verður, enda er það síðari tíma vandamál eins og oft hefur sýnt sig og kannski ekki frágangssök þó eitthvað vanti upp á.

Skoðanakannanir sýna nú það sem blasti við sæmilega skynugu fólki að Samfylkingin átti ekki von með stóryrta Ingibjörgu á stýrinu. Stóru mistökin þeirra voru að skipta um kallinn í brúnni. Ég er viss um að staða þeirra væri önnur ef Össur hefði verið látinn í friði.
Pólitík snýst um “trú” og slóð Ingibjargar er akkilesarhæll Samfylkingarinnar. Má segja að ef Halldór var að grafa gröf Framsóknar og þurfti að hætta þess vegna, þá er Ingibjörg tilbúin með holu Samfylkingarinnar og ætti að hafa vit á að draga sig í hlé eins og hann. Fólk kýs það sem er trúverðugt.

Það má Steingrímur græni eiga að hann baðar sig uppúr trúverðugleika. Og er að uppskera eftir því. Oft réttsýnn og alltaf sannfærandi. Þyrfti bara aðeins að pússa af honum nokkur smáhorn til að ég kysi hann og hans slekti. Of afturhaldssamur samt á landsins gæði. Hann virðist halda að þjóðin lifi á fjallasýn einni saman.

Frjálslyndi er afar ósannfærandi flokkur.

Íslandshreyfingin getur fengið nokkuð fylgi, það eru svo margir sem vilja ekki nýta auðlindir landsins. Það á bara að horfa á gullæðarnar á Íslandi, ekki nýta þær. Ég hef sjálfur farið víða um hálendið og séð virkjanirnar þar. Þar sem áður voru svartar auðnir er nú gróið land. Þúsundir hektara sem Landsvirkjun hefur grætt upp af örfoka landi. Þetta er bara staðreynd sem blasir við þeim sem um landið fara með opin augun.

Framsókn er svona, jæja.... Jón kemur samt sterkur inn á hliðarlínuna eins og einhver sagði. Þeir töldu sig vera að sækja styrk í trúfélag, við mikinn fögnuð forkólfa trúfélagsins en illu heilli fyrir fylgi flokksins hjá almenningi, enda trúariðkun og pólitík eins og olía og vatn.

Sjálfstæðisflokkurinn er eins og kletturinn í hafinu. Baðar sig í góðum ávöxtum undanfarinna ára og siglir seglum þöndum. Trúverðugleikinn uppmálaður enda endar x-ið mitt gjarnan við nafn þeirra. Það var jú einu sinni D fyrir Drottinn.
Kosningarnar verða forvitnilegar þetta árið og ekki á vísan að róa.

miðvikudagur, mars 14, 2007

Frændi minn heitinn....

...Kristján Magnússon móðurbróðir var góður hagyrðingur og sérlega mikill vinur mömmu. Hann orti þetta ljóð fyrir allnokkrum árum. Mér þótti vænna um hann en marga aðra vegna þess hversu góður hann var alltaf við mömmu. Mér er minnisstætt þegar ljóðið var frumflutt á ættarmóti árið 1992 að mig minnir, því mamma táraðist undir flutningnum.
Hjásetubörnin sem ljóðið fjallar m.a. um, eru nefnilega hún og Stjáni. Þau sátu yfir ánum kornung börn allan liðlangan daginn hvernig sem viðraði. Þegar lak var breytt út á barð við bæinn, máttu þau koma heim með ærnar. Já það eru breyttir tímar.

Ljóðið er fallegur óður til látinnar móður og tregafull nostalgía.

Mamma og minningarnar

Rödd sem á undirrót innra
-óskir sem kalla á svör-
Er löngun að minnast þín mamma,
þó málfarið stirðni á vör,
ylsins frá ástríki þínu,
ævilöng minninga sýn.
Með þér í ljúfsárum ljóma
leikvangur bernskunnar skín.

Í birkiskóg söngfugla sveimur,
sólskin um sumartíð.
Fannir blika í fjöllum
fossar duna í hlíð.
Og aðeins utan við túnið,
ofan við smálæk og tjörn
léttstíg í laufgrænni brekku
leika sér hlæjandi börn.

Þar undu þau, byggðu sér bæi
og bjástruðu um móa og grjót
og óvart vildu þá verða
með votan og óhreinan fót.
Þau vissu þó vöknaði fótur
og vildu ekki koma heim
að í bænum var fyrir þeim beðið
og beðið eftir þeim.

Hún situr í huganum sagan,
sungin af minninga raust.
Um systkin sem sátu hjá ánum
á sumrin fram undir haust.
Hvern dag eftir miðjan morgun
var mjaltað og allt haft til
og svo var haldið með hópinn
í hagann um dagmálabil.

Og daglangt þau dvöldu og léku
í dældum við lyngmó og tjörn
og fjölskrúðugt fjörulífið
-tvö forvitin hjásetubörn-
Við landsteina fleyttu þau fjöðrum
og fjaran var úthafsströnd
og sigldu fannhvítum fleyjum
í fjarlæg ónumin lönd.

Af fjallsbrún um friðsælar hlíðar
lagði forsælan skuggatjöld
og kvíaærnar hópuðust saman
heimfúsar undir kvöld.
Þegar breitt var á holtabarðið
birti yfir systkinum tveim
það var merki um mjaltatíma
þá máttu þau koma heim.

Hver ævi er sem leikþáttur lítill
í lífsins eilífu duld.
Þar yrkja vor örlagahlutverk
Urður, Verðandi og Skuld.
En dulræð er kúnst þeirra kvæða
hvort kjósa á þetta eða hitt
og margir sem tekst ekki að túlka
tilkveðna hlutverkið sitt.

Það gleymdist sem mætast var, mamma,
og margt hefur glapið sýn
og því verður óskrifuð ævi-
afrekaskráin mín.
Af dáðum í draumum þínum
sem drýgja þú ætlaðir mér
hef ég aðeins af mistökum mínum
myndir að sýna þér.

Þegar forsælan færist á bæinn
sker fjallskugginn miðjan dal.
Þá fer hjásetu loksins að ljúka,
ég legg saman tóman mal.
Í lognværum síðkvöldsins svala,
sáttur við liðinn dag
sveimar í huganum söngur,
seiður frá ókunnum brag.

Í kyrrðinni er líður á kvöldið
hverfur það allt sem brást.
Mér finnst eins og fram undan bíði
þín fórnandi móðurást.
Nú veit ég þú breiðir bráðum
á barðið þitt hvíta lín,
þá heldur þinn hjásetudrengur
heimleiðis aftur til þín.

Kristján Magnússon frá Langabotni, Geirþjófsfirði

mánudagur, mars 05, 2007

Áttunda undur veraldar...held ég bara

Mér áskotnaðist sá heiður að fá að vera viðstaddur sónarmyndatöku yngsta barnabarnsins (finnst næstum eins og hann sé fæddur) og já ég sagði........ “hann”.
Það er sem sagt áttunda undrið að drengur er á leiðinni í mína ört stækkandi fjölskyldu. Það sætir miklum tíðindum því nú eru stúlkurnar orðnar níu í röð sem er orðið með nokkrum ólíkindum.

Það er því með nokkru stolti og eftirvæntingu að ég tilkynni þetta hér. Það má samt ekki skilja svo að drengur sé velkomnari en stúlka, þær hafa allar komið í heiminn elskaðar allan hringinn, heldur verður þetta öðruvísi og nýtt hvernig sem á það er litið.
Eins og ég sagði þá vorum við Erla viðstödd sónarmyndatöku í dag, og með sanni má segja myndatöku því snáðinn var myndaður í þrívídd fram og til baka. Tæknin er ótrúleg og magnað að sjá lítla krílið hreyfa sig og sjúga puttann.

Ég má til að láta fylgja eina mynd hér, svo allir sjái hvað hann er líkur afa sínum fjallmyndarlegur og efnilegur.
Ehaggibara.

laugardagur, mars 03, 2007

Hamingjan er afleiðing...

...held ég sé rétt. Hamingjan kemur innanfrá. Hún er ekki utanaðkomandi happ sem fellur af himni ofan. Hún byggir ekki á peningum. Fæst ekki keypt og verðmiðinn er innaná. Hún kostar samt vinnu.
Í dag á miðjum aldri blasir þessi mynd við. Væri ekki gott að koma ungdómnum í skilning um þessa einföldu staðreynd.
Ég held að græðgin sem einkennir þjóðfélagið í dag byggi á leit fólks að hamingju. Drifkraftur þeirra sem verja öllum sínum tíma í að verða ríkari í dag en í gær er augljóslega af þeim toga.
Ég þekki nokkur dæmi um menn sem hafa lagt allt sitt í að verða ríkir. Sumum hefur tekist það – en eru ekkert hamingjusamari, bara stressaðri og fjölskyldan veikari.

Reynsla áranna hefur kennt mér að nota tímann vel. Lífið er ófyrirsjáanlegt eins og atvikið með Frikka bróðir Sigrúnar sannar. Einn daginn leikur allt í lyndi, næsti dagur ber með sér áfall sem ekki sér fyrir endann á.
Heilsan er stærsta gjöf sem við eigum. Þegar hún brestur, breytist allt.

Það er nauðsynlegt að taka til í garðinum sínum, rækta heilsuna, fólkið sitt og.... vera hamingjsamur.

föstudagur, mars 02, 2007

Og enn afmæli

Það er þannig í stórum fjölskyldum að afmælin koma oftar en í litlum. Eygló og Arna eru 26 ára í dag. Ótrúlegt en satt. Tíminn líður svona hratt. Þegar litið er til baka yfir farinn veg er svo stutt síðan þær litu sinn fyrsta dag með fjögurra mínútna millibili.
Þær eru dugnaðurinn uppmálaður eins og mamma þeirra. Okkur til sóma. Til hamingju með daginn elskurnar mínar.

laugardagur, febrúar 24, 2007

Enn einu sinni...

...komin helgi og vikan samt nýbyrjuð.
Ég veit ekki hvað hefur komið tímanum til að fara svona miklu hraðar en hann gerði hér áður fyrr, snýst jörðin hraðar eða hvað? Kannski er til einhver einföld skýring á þessu.
Besta skýringin sem ég hef heyrt er sú að eftir því sem aldurinn færist ofar þá sé hver dagur alltaf að verða hlutfallslega minni, sem er auðvitað rétt því einn dagur getur verið öll ævin á fyrstu metrunum. En þegar börnin manns tala um það sama, gengisfellur sú kenning nokkuð.
Líklega hefur þetta þó að gera með hugarástand. Ef hugurinn er upptekinn við viðfangsefni daganna þá gefst líklega minni tími til að gaumgæfa tímann.
Hallast að því helst.

Ég ætlaði að vera í vinnu í dag en ákvað svo að hjálpa konunni við undirbúning síðbúins þorrablóts sem verður hér á herragarðinum í kvöld. Eiginlega ætti að kalla þetta góugleði þar sem þorrinn hefur verið þreyður þetta árið og góan tekin við með hækkandi sól.

Það er bjartur dagur og sólin skín glatt og speglast í ánni, nágrannanum okkar síbreytilega. Það hljómar kannski orðið klisjukennt að minnast á hana en hún er endalaus gleðigjafi hér í húsinu við ána eins og lesendur síðunnar hafa orðið varir við.

Daginn lengir hratt. Við sjáum muninn svo vel því við erum á ferðinni alla morgna á sama tíma. Gaman það því.

Ég hef nú setið hér niðri í bráðum tvo tíma einn með sjálfum mér, án þess að leiðast. Ég kann svona vel við mig.
Erlan var að koma niður rétt í þessu. Hún hélt að hún væri ein í húsinu en komst að öðru sér til óblandinnar ánægju þegar hún sá mig. Ég held hún kunni næstum jafn vel við mig og ég sjálfur, og er þá mikið sagt.
En þar sem ég hef nú fengið þann félagsskap sem ég met jafnvel enn meira en minn eigin, ætla ég að láta staðar numið hér.
Eigið góðan dag.

laugardagur, febrúar 17, 2007

Annríki...

.....þessa dagana má segja. Lexor er að brölta á lappirnar. Nóg að gera eins og íslenskir karlmenn vilja hafa það. Og karlmennska er það, allavega samkvæmt ritúalinu.

Ég hef samt lært eina mikilvæga lexíu. Hún snýr að vinnu v.s. leik. Vinnan göfgar manninn eins og segir í máltækinu. Ég er sammála því en hallast orðið meira að því að hún megi ekki fara út í öfga, sem er leikur einn í því brjálaða þjóðfélagi sem við búum.
Það verða allir að hafa tíma til að leika sér. Leikur stendur hjartanu næst. Hann er það sem viðheldur eldinum sem hamaðist innra með okkur öllum þegar við vorum börn og nutum lífsins til ítrasta. Ég vil halda í þann hluta af mér.
Það er líka í lagi að láta sér dreyma um hluti sem eru bara til að leika sér að. Það er meira að segja á sínum stað að gera draumana að veruleika.
Kiddi vinur minn og mágur lét drauminn rætast nýverið og keypti sér stórt mótorhjól til að leika sér á. Ég verð að segja að mér líst afar vel á þetta þar sem hann hefur látið sig dreyma um þetta lengi. Til hamingju gamli.
Ég á mér sama draum og Kiddi. Líklega mun eldri draumur mín megin, enda er ég aðeins eldri en hann .....þó það auðvitað sjáist ekki.
En ég á það til að láta leik-draumana sitja á hakanum. Sérstaklega ef þeir kosta peninga.
Átæðan er fyrst og fremst sú að reynslan hefur kennt mér að fara varlega í fjármálum, kviksyndi geta leynst víða á þeim lendum og erfitt að lenda í slíku, þau hafa þann eiginleika að gleypa menn lifandi. Ég sé of marga í dag dansa tangó á barmi þessara kviksynda, það er sorglegt (ég er ekki að tala um Kidda hér)
Ég hef lært að setja mér markmið og framkvæma það sem þarf þangað til þeim er náð. Ég hef tamið mér sjálfsaga, sett hendur á stýri og ræð hvert ég stefni. Ég framkvæmi eftir þessari hugmyndafræði.
Framkvæmd er nauðsynleg, hún er nefnilega týndi hlekkurinn milli langana og árangurs. Framkvæmd skilur milli þeirra sem tala bara um hlutina og þeirra sem ná markmiðum sínum.
Það er dagljós staðreynd að án framkvæmda gerist..... ekkert.

Ég er farinn að hugsa alvarlega um að eignast mótorhjól einn góðan dag..... fyndið og alls ekki háleitt markmið, finnst mér sjálfum.
Sjáum hvað setur.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Afmæli í fjölskyldunni


Hún á afmæli í dag, litla skvísan hún Sara Ísold hennar Örnu. Þriggja ára daman og nýtur þess að eiga afmæli eins og flestir meðlimir þessarar fjölskyldu.
Til hamingju með daginn elsku litla afastelpan mín.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Iðrun...

...er stórt orð sem fólk lætur skipta sköpum þegar það fyrirgefur öðrum. Ég rak tána svo illa í að lá við að ég missti fótana þegar það hljómaði til mín á öldum ljósvakans að Guðmundur í Byrginu “iðraðist einskis”.
Það má eiginlega segja að ég hafi tekið upp steininn aftur. Það er okkur öllum sameiginlegt að gera mistök. Auðvitað mis alvarleg og afleiðingarnar þ.a.l. líka mis alvarlegar.
En þegar menn misnota aðstöðu sína svona gróflega og níðast á þeim sem minna mega sín eins og raunin virðist með Guðmund og hans preláta, þá krefst ég iðrunar til að sleppa steininum mínum aftur.
Enda má segja að iðrunin sé það eina sem getur skotið Guðmundi undir réttlætingu náðarinnar svona ef maður fer í andlegu deildina.

Kannski Byrgismenn flokki þetta undir tæknileg mistök eins og Árni Johnsen sem uppskar reiði almennings fyrir.

Allt að einu finnst mér grafalvarlegt mál ef hann iðrast einskis, horfandi á illar afleiðingar gjörða sinna. Verst fyrir hann sjálfan þar sem hann þarf virkilega á fyrirgefningu að halda, þjóðarinnar allrar og ekki síst þessara vesalings fórnarlamba sem urðu fyrir barðinu á honum.
Nema hann sé kannski svona yfirmáta óheppin í hausnum og siðblindur að hann skorti dómgreind til að sjá helkaldan raunveruleikann í þessu máli. Heimsku er stundum hægt að fyrirgefa, jafnvel yfirmáta heimsku, á þeirri forsendu að enginn gefur sér vitið sjálfur.
Kannski er það málið, allavega ljómaði manndómsviskan ekkert af honum, þannig að maður fengi ofbirtu í augun, meðan náðist í hann.

Að jákvæðari nótunum.... þá vorum við Erla á árshátíð Samhjálpar í gærkvöldi. Það var virkilega vel heppnuð hátíð með ýmsum uppákomum. Þjóðkirkjuprestur séra Karl Matthíasson var veislustjóri, fór á kostum. Valgeir Guðjónsson tróð upp, flott. Hluti “vinir Dóra” fluttu blús, snillingar þar á ferð. Guðni Már og félagi hans Freyr sungu og töluðu söngva, sérstakt og flott hjá þeim. Þollý blúsaði, svo var málverkauppboð o.fl.
Flott kvöld. Við skemmtum okkur vel.
Erlan var að koma niður fyrst núna. Ég er búinn að eyða morgninum hér niðri eins og vanalega, í kyrrð og rómantískri fegurð út um gluggann minn.
Ég virkilega nýt lífsins.

laugardagur, febrúar 10, 2007

Hver er sinnar gæfu smiður.

Sé þetta skýrar eftir því sem ævina lengir. Auglýsing þar sem segir “ekki gera ekki neitt” þar sem vísað er í fjármál í óefnum, á ekki bara við um fjármál.
Fólk sem er að dansa tangóinn sinn, en nær ekki að dansa í takt, þarf að stoppa við og læra sporin upp á nýtt svo dansinn verði eitthvað í ætt við það sem kallað er tangó.

Ég heyrði einu sinni konu kvarta sáran yfir manni sínum. Hún kallaði hann jeppa á stórum dekkjum, en hún væri smábíll. Samlíkingin hennar gekk út á að hann krafðist af henni að hún elti hann á smábílnum sínum um ófærur lífsins, í jeppaförunum hans. Munurinn var bara sá að hún sat föst eftir. Hann spændi upp drulluna, yfir smábílinn hennar.
Mér þótti samlíkingin góð. Þarna voru hjón sem ekki dönsuðu í takt, það sást langar leiðir að þau voru ekki hamingjusöm.

Þetta er sorglegt dæmi um ljótan tangó. Best er ef takturinn verður svo fullkominn að hægt er að stíga sporin sem einn maður. Þá er hægt að vanga.
Og lífið sjálft hlær með.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Mætti góðum vini í dag....

á leiðinni austur í Kot. Kastaði ekki á hann kveðju en hugsaði hlýlega til hans um leið og ég rauk framhjá. Hugsa alltaf hlýlega til hans þegar ég minnist hans, sérstaklega þegar ég mæti honum á förnum vegi. Hann þekkir mig ekkert enda hugsunarlaus með öllu. Mjór og renglulegur stendur hann samt alltaf sína vakt og sinnir starfi sínu hvern einasta dag af mikilli trúfesti.
Hann er kaldur eins og járn og harður eins og steinn...enda úr járni. Hann heitir því virðulega nafni “venjulegur ljósastaur” og stendur alltaf við eystri brúarendann á Ytri Rangá.
Þið getið séð hann þegar þið keyrið austur, fyrsti staur austan við brú.

Hann bjargaði lífi mínu einu sinni. Þessvegna hugsa ég alltaf svona hýlega til hans.

....Ég var á leið í bæinn eftir vinnudag fyrir austan. Það var janúar og mikið frost. Vegurinn var algjörlega þakinn niðurpressuðum snjó, svo ekki sást á dökkan blett.
Á undan mér ók Lada sport jeppi á sama hraða og ég, tæplega hundrað. Þegar við komum að Hellu var lítið hægt á enda engir bílar á götunum.
Gott bil var milli okkar svo þegar ég sá að hann ætlaði að beygja inn í kauptúnið til hægri tók ég stefnuna framhjá honum vinstra megin. Skyndilega beygir hann til vinstri, löturhægt, sömu átt og ég ætlaði framhjá....................!
Hálkan var meiri en ég hélt og þótt ég bremsaði hægði lítið ferðina. Ég sá að ég mundi lenda á honum á fullri ferð. Ég tiplaði á bremsunni og reyndi að beygja aftur til hægri til að sleppa við hann.
Ég rétt strauk á honum afturendann, slapp, en var kominn nánast þversum á hálum veginum þegar ég þaut framhjá honum. Mér tókst að snúa stýrinu það hratt að bíllinn réttist við en það gerðist svo hratt að hann fór hálfhring og rann nú á fullri ferð, hliðarskriði, með mína hlið á undan og stefnan, beint á ljósastaur (vin minn) og Rangá ísköld á bakvið hann.
Ég sá fram á stórslys þar sem öxlin á mér stefndi rakleitt á staurinn. Einu augnabliki áður en ég skall á staurnum snarsnerist bíllinn þannig að framendinn fór fremstur,

og KKKKRRAAASSSSSSSSS.....

Þvílíkt höggið!
Hávaði og svo dauðaþögn. Staurinn stóð sjötíu sentimetra inni í vélinni. Ryk í loftinu og ég sitjandi að kanna sjálfan mig hvort ég hefði meitt mig. Ég reyndi að opna hurðina en hún var blýföst. Hurðin farþegamegin opnaðist og ég kom mér út.
Fólk kom hlaupandi úr sjoppunni, hélt að þetta væri stórslys, jafnvel dauðaslys.
Ég var góða stund að sannfæra viðstadda um að ekkert amaði að mér.

Bíllinn var handónýtur, ég stráheill. Staurinn “vinur minn” stoppaði mig í að fljúga út í miðja Rangá, það var sextán stiga frost og ísrek í ánni. Hefði ekki þurft að spyrja um sögulok hefði það gerst.
Sama má segja ef staurinn hefði farið í hliðina á bílnum, eins og hefði átt að gerast, og farið jafnlangt inn í bílinn eins og hann fór inn í framendann þá hefði staurinn staðið uppúr miðju farþegasæti. Þá hefði ekki heldur þurft að skoða sögulok, ég væri ekki að segja þessa sögu núna.

En hver það var sem sneri bílnum rétt áður en ég lenti á staurnum er spurning sem enn er ósvarað, þó ég hafi skoðun á því sjálfur.
Hann var mér hollur sá sem hlífir, fyrir það er ég ævarandi þakklátur.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Það var súrt...

...sagði refurinn. Ég datt í að horfa á síðari hálfleik Íslendinga gegn Dönum. Það var bragðvont að sjá þá vinna leikinn á síðasta sekúndubrotinu, af því það voru Danir.
Er annars lögskipað boltanörd á bak og brjóst.
Hlakka til að komast í veiði....