mánudagur, desember 31, 2007

Lokaorð ársins

Góðu ári senn lokið. Við hæfi er að þakka fyrir skemmtilegar stundir, vináttu og gefandi samfélag. Ég þakka Guði fyrir ykkur öll vinir mínir og ættingjar. Árið var gjöfult og gott, ekki síst fyrir andann og sálina. Aðeins áfall bróður míns varpar skugga á það. Reyndar fékk ég hringingu frá honum áðan þar sem hann sagði mér að hann hefði getað hreyft hendina í fyrsta skipti gærkvöldi og aftur í dag. Sú frétt var góð áramótagjöf. Kannski er lífgjöf bróður míns stærsti viðburður ársins í mínum huga, hann hefði getað dáið.
Hetja ársins í mínum huga er faðirinn sem lét lífið í ójöfnum leik við sterkan straum Sogsins þegar hann reyndi að bjarga syni sínum frá drukknun......!

Nýtt ár kemur með nýjar væntingar og fullt af nýjum tækifærum sem við skulum taka við með þökkum, og nýta okkur. Annað er sóun.
Þegar litið er til þess hversu lífið er í raun stutt þarf maður að vanda sig við forgangsröðun. Tímamótin má nota til góðs. Betri rækt í garðinn sinn er gott áramótaheit. Eftir því sem árin tikka sé ég glitta betur og betur í gullið í samferðafólki mínu. Það gull vil ég pússa á nýju ári. Jafnframt skýrist sýnin á þá sem skreyta sig annarra fjöðrum, en þannig er lífið.
Verum góð hvert við annað á nýju ári, fyrirgefum misgjörðir og gleymum þeim.

Gleðileg nýtt ár lesendur mínir, verð að halda áfram með humarinn......

laugardagur, desember 29, 2007

Jólaboð

Hér í Húsinu við ána var haldið jólaboð í gær. Allri fjölskyldunni minni var boðið eins og hún leggur sig, þ.e. systkyni, makar, börn og barnabörn.
Auðvitað voru forföll eins og alltaf í stórum hópi. Við fylltum þó fjóra tugi sem er allgott. Húsið bar fjöldann vel og fannst mér á gestum að þetta félli í góðan jarðveg.
Ég hafði óskaplega gaman að þessu. Enda fátt göfugra til en að rækta ættar- og vinabönd.

Hjalli kom, mér til mikillar ánægju, þótt veðrið væri ekki upp á það besta, ískuldi og vindur. Hann er á hægum batavegi. Hann er í hjólastól en getur staðið upp og gengið við hækju. Hann er baráttumaður og tekur þessu áfalli af æðruleysi. Eitt hænufet á dag eins og hann segir sjálfur.
Það gleður mig að sjá framfarir hjá honum. Ég hef þá trú að hann eigi eftir að verða alveg sjálfbjarga og njóta lífsins, kannski meira en nokkru sinni fyrr.

Það var mér líka sérstakt ánægjuefni að sjá að “krakkarnir” okkar voru svona áhugasöm eins og raun bar vitni. Viðbrögðin voru mest úr þeirra hópi, svo virðist að þau hafi saknað þorrablótanna okkar, en við breyttum þeim fyrir tveimur árum þannig að við systkynin hittumst án barna eins og var í upphafi. Þetta var gert vegna þess að við vorum orðin svo mörg að venjulegt húsnæði var hætt að rúma þennan fjölda.

Kannski kemur þetta í staðinn að einhverju leiti. Ég er að leyfa mér að vona að þetta sé byrjun á einhverju meiru. Ég heyrði því fleygt í boðinu að einhver ættleggur haldi jólaball. Þá er leigður salur og allir mæta á jólaball. Ég er opinn fyrir því. Ég tel það mikið slys ef ættarbönd trosna vegna samvistarleysis. Ber þar hver sína ábyrgð.
Þegar allt kemur til alls er það vinátta og fjölskyldubönd sem skipta máli ef eitthvað bjátar á, þess vegna þarf að leggja rækt við þann garð og hafa hann blómstrandi.

Nota tækifærið hér vinir, og þakka fyrir góða og gefandi samveru.

þriðjudagur, desember 25, 2007

Jóladagur.....

....rann upp drifhvítur og fallegur. Það er hundslappadrífa. Ef ekki væri smá vindur þá væri útsýnið út um gluggann núna eins og á jólakorti þar sem snjókornin svífa lóðrétt niður í fallega skreyttan bæ og loða við allt sem þau lenda á. Trén svigna undan fallegu drifhvítu teppi sem hylur hverja grein og jólaljósin fá á sig ævintýralegri blæ þegar snjókornin dreifa ljósinu og búa til ný ljósbrot svo hvert ljós verður eins og skínandi margra arma stjarna. Það er hátíð í bæ. Friður innan dyra sem utan. Ylur hússins er notalegri en ella þegar snjóar svona úti.
Matarborðið okkar áðan var hlaðið afgöngum frá því í gærkvöldi. Það er einhvernveginn þannig að mér finnst maturinn oft bragðast betur daginn eftir. Að líkindum er ástæðan samt ekki sú að bragðið hafi breyst heldur er magaplássið meira en við jólaborðið á aðfangadagskvöld.

Það var fölskavalaus eftirvænting sem skein úr augum Örnudætra í gærkvöld. Hrifningin sömuleiðis þegar loksins var farið að opna pakkana. Það er erfitt að bíða þegar maður er svona lítill og tilveran hefur ekki mjög víðan sjóndeildarhring.

Morguninn fór í lestur. Ég fékk tvær bækur, Harðskafi” eftir Arnald Indriðason og “Finndu köllun þín með aðstoð munksins sem seldi sportbílinn sinn” Ég byrjaði á henni. Ég hefði sennilega ekki óskað mér hana í jólagjöf ef ég hefði ekki lesið fyrri bókina og verið jafn ánægður með hana og raun ber vitni. Þessar bækur eru stútfullar af lífsspeki sem snýr ekki síst að gildum fjölskyldunnar s.s. forgangsröðun hluta og gildi peninga í lífinu. Fjölskyldan er sett í fyrirrúm, að gefa af sér frekar en að þiggja. Þjáningin er “harla góð” enda einungis skóli lífsins og þroskar okkur og dýpkar, fyrir utan að hún gefur okkur viðmið til að njóta góðu stundanna. Áhætta er nauðsynleg til framfara og þroska enda sennilega algengasta þraut þeirra sem standa á síðustu metrum lífs síns að sjá eftir því að hafa ekki haft kjark til að taka áskoruninni sem í tækifærunum bjuggu á lífsleiðinni.

Núna er öll stórfjölskyldan komin hér í sveitina. Allir sitja í eldhúsinu undir fjörugum umræðum um lífsins gang. Börnin skoppa hér milli stofunnar og eldhússins eins og skopparakringlur. Hér er líf og fjör. Þetta minnir mig óneitanlega á gamla tíma í sveitinni forðum daga þegar ég var að alast upp og allir komu saman, þá var oft gaman og lífið einfalt.
Það eru sönn lífsgæði að fá að horfa á þennan stækkandi hóp koma hér og njóta samvista við okkur. Við Erla njótum þeirra gæða að kunna að njóta þess. “Betra en best” má eiginlega segja.

Eftir smá hlé hér er nú komið að matarborði jóladagsins. Það er að vanda hangikjöt og tilheyrandi. Það er “uppáhalds” hjá öllum.
Ætla nú að fara að njóta samvista við fólkið mitt.
Lífsgæði, lífsgæði, lífsgæði......!

mánudagur, desember 24, 2007

Svo koma jólin....!!

Og ljós á jólatrénu mínu. Var að klára að vefja seríunni um jólatréð, svo taka stelpurnar við. Það fer ekki fram hjá neinum að hefðir skipa stóran sess hér á þessum bæ. Jólatréð er aldrei skreytt fyrr en á þorláksmessukvöld. Annað nálgast helgispjöll. Það er margt sem ég hef erft úr föður(móður)húsum sem skreytir jólahaldið okkar. Maturinn átti sér sterkari hefð hjá mér, eða ég sé frekari......sem er tæplega hægt? Við höfum haldið okkur við sama mat og viðhafður var í mínu uppeldi. Sérstaklega á hrísgrjónabúðingurinn fastan sess hjá okkur en hann er engu líkur, líkist svolítið Risalamande en samt allt öðruvísi, miklu betri. Eins er með Erlu, hún hefur innleitt siði sem hún ólst upp við. Þannig hefur orðið til jólahald sem er samsett úr báðum ættum. Þetta sjáum við svo endurtaka sig í stelpunum okkar. Þær eignast maka og þannig blandast nýjar hefðir við okkar. Þetta er það sem gefur jólum hvers heimilis sérstöðu. Þeirra börn (barnabörnin okkar) munu svo ríghalda í hefðir síns uppeldis í bland við sína maka þegar þar að kemur.

Mest virði er þó að viðhalda helgi jólanna og passa að hún gleymist ekki í hraða og kapphlaupi nútímans. Gamla sagan um frelsara fæddan þarf að hafa heiðursess í jólahaldinu. Lestur jólaguðsspjallsins áður en sest er niður í pakkaupprif er góður siður sem setur fókusinn á hversvegna þetta uppistand er yfir höfuð. Það hljóta að vera skrítin jól þar sem jólabarnsins er hvergi minnst. Jólasveinarnir sem eru skemmtilegar fígúrur bera ekki með sér neina helgi eða hátíðleik. Þeir eru jólaskraut sem lífgar uppá, en þar með er það upptalið.
Jesúbarnið í jötu gefur fyrirheit um frið og fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Því yður er í dag frelsari fæddur, sögðu englarnir.
Á þessum grunni höldum við jól. Minningarhátíð um fæddan frelsara sem dó síðan krossfestur með ákveðið risastórt markmið, að brúa bilið milli Guðs og manns.

Heims um ból...... gleðileg jól.

laugardagur, desember 22, 2007

Ógnarkraftar

Nú er hún vinkona mín í essinu sínu. Bál- öskrandi reið og illvíg. Það er magnað að ganga meðfram bökkum Ölfusár þegar hún er í svona ham. Ógnarkrafturinn sem hún býr yfir er ekki bara sýnilegur heldur finnur maður einhvernveginn fyrir honum líka. Henni ber full virðing....!
Ég gekk meðfram henni áðan og tók myndir af ógnartilburðunum í henni. Það má með sanni segja að maður verður lítill við hliðina á henni. Nokkrar myndir komnar inná myndasíðuna hér til vinstri.

Annars er það helst að við höfum notið aðventunnar til ýtrasta. Við fórum til “Hafnar” eins og ein gömul kona orðaði það í flugvélinni. Kaupmannahafnar svo það skiljist nútímafólki. Þar áttum við góðan tíma. Það er lífsnautn að dvelja þar þegar maður hefur lært aðeins á hana. Allskyns gæði sem hún hefur uppá að bjóða. Við fórum á þrjá góða matsölustaði, Reef´n beef, ástralskur staður sem framreiðir villibráð, krókódíla og annað frumlegt. Det gamle apotek þar sem Jónas Hallgrímsson sat löngum og drakk, allar innréttingar eru original svo við horfðum á sömu myndir á veggjum og Jónas forðum, sömu dyrakarma og hurðir. Svo fórum við á Peder oxe sem er flottur staður í miðborginni, líkastur gömlu klaustri með flottum vínkjallara. Staðirnir áttu eitt sameiginlegt, snilldartakta í matreiðslu, það átti vel við okkur matargötin.

Við höfum líka notið aðventunnar hér heima. Tvennir tónleikar eru að baki. Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, bara eitt um þá að segja, klassaflottir.
Svo fórum við á Frostrósartónleikana í Laugardalshöll. Þar er tjaldað því flottasta sem til er. Glæsilegir tónleikar í alla staði og frábærir listamenn.
Hér heima njótum við svo samverunnar hvert við annað og höfum á borðum allskyns góðgæti sem við höfum hefðað aðventunni. Reyktur silungur sumarsins, lifrarkæfur frá Danmörku, síld og ostar og brauð. Við tókum fyrir allnokkrum árum þá frómu ákvörðun að breyta til. Smákökurnar og nammið hurfu og í staðinn kom þessi siður, brauðmeti og allskyns meðlæti eins og ég nefndi.
Svo vorum við að koma úr Rauða húsinu á Eyrarbakka áðan. Þar fengum við okkur fiskisúpuna þeirra, sem er snilldartilbrigði við sjávarfang. Troðfull af allskyns “fjörufæði” eins og einhver kallaði það.

Pólverjarnir eru farnir heim, allir nema einn. Það er því frekar rólegt í herbúðum Lexors og má segja að ég sé kominn í jólafrí. Það er kærkomið enda hefur verið mikið að gera undanfarið.
Ég vona að þið séuð að njóta þessa tíma eins og við. Ef ekki ætla ég að benda ykkur á að þetta er hluti þess að rækta garðinn sinn og þar er enginn garðyrkjumaður nema maður sjálfur. Þetta er semsagt....val.
Passið ykkur svo á jólastressinu.....

föstudagur, desember 14, 2007

Óveður

Í morgun bar svo við að ég ákvað að fresta bæjarför og fylgjast með framvindu veðursins sem nú geysar. Ég lét mennina mína líka vera heima í morgun, enda ekkert vinnuveður í höfuðborginni heldur, af fréttum að dæma.
Kári virðist í essinu sínu þessa dagana. Hver óveðurslægðin á fætur annarri og hver annarri dýpri. Rigningin lemst hér á gluggann hjá mér og vindurinn lemur húsið utan með vaxandi heljarafli. Ótrúlegt hvað loft getur innihaldið mikla orku. Erla og Hrund nýttu tækifærið og skriðu aftur undir sæng, fegnar að vera ekki að fara út í þetta veður.
Ég hinsvegar, morgunhaninn, var ekki á því að fara að sofa, enda kominn dagur.
Eins og lesendum síðunnar minnar er kunnugt hef ég gaman að hverskyns öfgum í náttúrunni. Fárviðri vekur hjá mér áhuga og jafnvel spenning, fyrir utan hvað það er notalegt að vera heima hjá sér þegar svona veður geysa. Margir sam kannast við það geri ég ráð fyrir.

Kannski væri ráð að nota dagpartinn og skella sér í að hengja upp seríur utan á húsið..... það verkefni er búið að bíða eftir mér í nokkra daga.....!!!!! Myndi örugglega gera það ef veðrið væri skárra.
Ég (ef ekki ég, þá Erla) finn mér allavega eitthvað að gera, svo mikið er víst. Hún er alltaf til í að ég haldi áfram með lagfæringar á húsinu, eða dundi við eitthvað annað.
Svo liggur fyrir að taka þvottahúsið í gegn. Það hefur verið hálfgert trésmíðaverkstæði og lager hjá mér undanfarin misseri, enda ekki hægt um vik þar sem bílskúrinn vantar ennþá. Er líka að gæla við að fara út á eftir, þegar birtir, og taka óveðursmyndir. Ef vel tekst til, set ég myndir af því á ljósmyndasíðuna mína.

Ég ætla samt ekkert að vera að stressa mig í eitthvert at, allavega meðan þær sofa hér uppi á efri hæðinni. Ég verð samt að segja að mér finnst hugsunin um þær sofandi uppi í öryggi heimilisins, afar góð og færir mér sjálfum stóíska ró og vellíðan.... Hellisbúinn í anddyrinu með konu og börn innst í öryggi hellisins.... skáldlegur, með kaffibolla :-)

Njótið aðventunnar vinir.... og veðursins.

fimmtudagur, desember 06, 2007

Köben

Þá er komið að okkar árlegu ferð til fyrrum höfuðstaðarins okkar. Við höfum farið til nokkurra ára í desember til Kaupmannahafnar í jólastemninguna sem þar er. Jólatívolíið er að verða hluti af jólaundirbúningnum hjá okkur. Það er mikil stemning að dvelja í borginni þegar jólin nálgast. Þar eru listamenn á hverju götuhorni annað hvort að spila, syngja, selja myndirnar sínar eða framkvæma einhverja gjörninga, bara gaman. Svo er alltaf gott að setjast niður á einhverjum veitingastaðnum, slappa af og fylgjast með mannlífinu og snæða góðan mat.

Við komum heim á mánudagskvöldið svo þetta er svona löng helgi. Má vel vera að við hendum einni færslu inn á síðurnar okkar ef tækifæri gefst, rétt til að láta vita hvað það verður gaman hjá okkur.
Hafið það gott á meðan.

laugardagur, desember 01, 2007

LEXOR....

....á eins árs starfsafmæli í dag 1. desember. Það er ekki lengur reyfabarn heldur tekið að braggast og farið að labba meðfram ef svo má að orði komast. Í byrjun voru tveir starfsmenn auk mín en nú eru þeir átta auk mín og Erlu sem annast bókhald og laun. Verkefnin vantar ekki. Þau virðast koma á færibandi. Ég verð að segja að allt hefur gengið eftir sem lagt var upp með. Við höfum aldrei þurft að auglýsa, þó í byrjun hafi staðið á endum að annað verkefni tæki við af öðru. Það gekk þó alltaf eftir og nú bíða að jafnaði nokkur verkefni.

Það verður þó að segjast að byggingadeildin hefur verið annasamari en lögfræðin. Það var eitthvað sem ég vissi fyrirfram. Lögfræðin er þess eðlis að markaðssetningin vinnst hægt og rólega í réttu hlutfalli við gæði verkanna sem maður skilar af sér. Ég kvarta ekki. Eftir því sem málunum fjölgar virðast fleiri og fleiri setja sig í samband vegna ýmissa vandamála, aðallega byggingamála. Þetta er líka í samræmi við það sem lagt var upp með svo ég er hæstánægður með framvinduna þeim megin.

Í tilefni dagsins ætlum við starfsmennirnir að gera okkur glaðan dag með því að gera jólahlaðborði Hótels Loftleiða skil.
Ég lít til næsta starfsárs væntandi.

Njótið helgarinnar......