Og ljós á jólatrénu mínu. Var að klára að vefja seríunni um jólatréð, svo taka stelpurnar við. Það fer ekki fram hjá neinum að hefðir skipa stóran sess hér á þessum bæ. Jólatréð er aldrei skreytt fyrr en á þorláksmessukvöld. Annað nálgast helgispjöll. Það er margt sem ég hef erft úr föður(móður)húsum sem skreytir jólahaldið okkar. Maturinn átti sér sterkari hefð hjá mér, eða ég sé frekari......sem er tæplega hægt? Við höfum haldið okkur við sama mat og viðhafður var í mínu uppeldi. Sérstaklega á hrísgrjónabúðingurinn fastan sess hjá okkur en hann er engu líkur, líkist svolítið Risalamande en samt allt öðruvísi, miklu betri. Eins er með Erlu, hún hefur innleitt siði sem hún ólst upp við. Þannig hefur orðið til jólahald sem er samsett úr báðum ættum. Þetta sjáum við svo endurtaka sig í stelpunum okkar. Þær eignast maka og þannig blandast nýjar hefðir við okkar. Þetta er það sem gefur jólum hvers heimilis sérstöðu. Þeirra börn (barnabörnin okkar) munu svo ríghalda í hefðir síns uppeldis í bland við sína maka þegar þar að kemur.
Mest virði er þó að viðhalda helgi jólanna og passa að hún gleymist ekki í hraða og kapphlaupi nútímans. Gamla sagan um frelsara fæddan þarf að hafa heiðursess í jólahaldinu. Lestur jólaguðsspjallsins áður en sest er niður í pakkaupprif er góður siður sem setur fókusinn á hversvegna þetta uppistand er yfir höfuð. Það hljóta að vera skrítin jól þar sem jólabarnsins er hvergi minnst. Jólasveinarnir sem eru skemmtilegar fígúrur bera ekki með sér neina helgi eða hátíðleik. Þeir eru jólaskraut sem lífgar uppá, en þar með er það upptalið.
Jesúbarnið í jötu gefur fyrirheit um frið og fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Því yður er í dag frelsari fæddur, sögðu englarnir.
Á þessum grunni höldum við jól. Minningarhátíð um fæddan frelsara sem dó síðan krossfestur með ákveðið risastórt markmið, að brúa bilið milli Guðs og manns.
Heims um ból...... gleðileg jól.
2 ummæli:
Gleðileg jól elsku pabbi :) Já hrísgrjónabúðingurinn okkar er sko ekkert risalamande.. Hann er sko MIKLU betri og einmitt allt öðruvísi :) Skemmtilegt þetta með hefðirnar og þó svo við Bjössi séum ekki farin að halda okkar eigin jól þá er sko jólamaturinn sem verður hefð hjá okkur löngu ákveðinn! Það verður einmitt bland af hefðum úr báðum fjölskyldum og við munum halda í heiðri grjónabúðingnum og svo verður aspassúpa í forrétt en hún var alltaf á aðfangadag hjá Bjössa mínum :) Gaman að þessu! Sjáumst hress á eftir :) Þín Eygló og Bjössi biður að heilsa :)
Amen, preach it brother.. Og pabbi:) Alveg sammála þér að gleyma ekki hvers vegna við höldum jólin. Takk fyrir góðan pistil:) Arnan næstyngsta uppáhaldið;)
P.S. Möndlugrauturinn er toppurinn;)
Skrifa ummæli