laugardagur, desember 22, 2007

Ógnarkraftar

Nú er hún vinkona mín í essinu sínu. Bál- öskrandi reið og illvíg. Það er magnað að ganga meðfram bökkum Ölfusár þegar hún er í svona ham. Ógnarkrafturinn sem hún býr yfir er ekki bara sýnilegur heldur finnur maður einhvernveginn fyrir honum líka. Henni ber full virðing....!
Ég gekk meðfram henni áðan og tók myndir af ógnartilburðunum í henni. Það má með sanni segja að maður verður lítill við hliðina á henni. Nokkrar myndir komnar inná myndasíðuna hér til vinstri.

Annars er það helst að við höfum notið aðventunnar til ýtrasta. Við fórum til “Hafnar” eins og ein gömul kona orðaði það í flugvélinni. Kaupmannahafnar svo það skiljist nútímafólki. Þar áttum við góðan tíma. Það er lífsnautn að dvelja þar þegar maður hefur lært aðeins á hana. Allskyns gæði sem hún hefur uppá að bjóða. Við fórum á þrjá góða matsölustaði, Reef´n beef, ástralskur staður sem framreiðir villibráð, krókódíla og annað frumlegt. Det gamle apotek þar sem Jónas Hallgrímsson sat löngum og drakk, allar innréttingar eru original svo við horfðum á sömu myndir á veggjum og Jónas forðum, sömu dyrakarma og hurðir. Svo fórum við á Peder oxe sem er flottur staður í miðborginni, líkastur gömlu klaustri með flottum vínkjallara. Staðirnir áttu eitt sameiginlegt, snilldartakta í matreiðslu, það átti vel við okkur matargötin.

Við höfum líka notið aðventunnar hér heima. Tvennir tónleikar eru að baki. Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, bara eitt um þá að segja, klassaflottir.
Svo fórum við á Frostrósartónleikana í Laugardalshöll. Þar er tjaldað því flottasta sem til er. Glæsilegir tónleikar í alla staði og frábærir listamenn.
Hér heima njótum við svo samverunnar hvert við annað og höfum á borðum allskyns góðgæti sem við höfum hefðað aðventunni. Reyktur silungur sumarsins, lifrarkæfur frá Danmörku, síld og ostar og brauð. Við tókum fyrir allnokkrum árum þá frómu ákvörðun að breyta til. Smákökurnar og nammið hurfu og í staðinn kom þessi siður, brauðmeti og allskyns meðlæti eins og ég nefndi.
Svo vorum við að koma úr Rauða húsinu á Eyrarbakka áðan. Þar fengum við okkur fiskisúpuna þeirra, sem er snilldartilbrigði við sjávarfang. Troðfull af allskyns “fjörufæði” eins og einhver kallaði það.

Pólverjarnir eru farnir heim, allir nema einn. Það er því frekar rólegt í herbúðum Lexors og má segja að ég sé kominn í jólafrí. Það er kærkomið enda hefur verið mikið að gera undanfarið.
Ég vona að þið séuð að njóta þessa tíma eins og við. Ef ekki ætla ég að benda ykkur á að þetta er hluti þess að rækta garðinn sinn og þar er enginn garðyrkjumaður nema maður sjálfur. Þetta er semsagt....val.
Passið ykkur svo á jólastressinu.....

1 ummæli:

Íris sagði...

Frábært hvað þið hafið það gott. Ég hef það að leiðarljósi að hafa það gott með mínu fólki og sleppa því að stressa mig. Ef ég næ ekki að baka eða þrífa allt þá bara verður að hafa það. Seinna meir munu börnin muna hvort það var gaman og notalegt á jólunum en ekki hvað við bökuðum margar smákökusortir eða hvort eldhússkáparnir voru hreinir. Þess vegna hef ég það bara gott og segi börnunum hvað ég elska þau mikið og sest niður með þeim og spjalla eða bara fyrir framan sjónvarpið!

Hlakka til að sjá ykkur mömmu á morgun ;)
Þú ert alveg frábær pabbi!!
Þín Íris