föstudagur, desember 14, 2007

Óveður

Í morgun bar svo við að ég ákvað að fresta bæjarför og fylgjast með framvindu veðursins sem nú geysar. Ég lét mennina mína líka vera heima í morgun, enda ekkert vinnuveður í höfuðborginni heldur, af fréttum að dæma.
Kári virðist í essinu sínu þessa dagana. Hver óveðurslægðin á fætur annarri og hver annarri dýpri. Rigningin lemst hér á gluggann hjá mér og vindurinn lemur húsið utan með vaxandi heljarafli. Ótrúlegt hvað loft getur innihaldið mikla orku. Erla og Hrund nýttu tækifærið og skriðu aftur undir sæng, fegnar að vera ekki að fara út í þetta veður.
Ég hinsvegar, morgunhaninn, var ekki á því að fara að sofa, enda kominn dagur.
Eins og lesendum síðunnar minnar er kunnugt hef ég gaman að hverskyns öfgum í náttúrunni. Fárviðri vekur hjá mér áhuga og jafnvel spenning, fyrir utan hvað það er notalegt að vera heima hjá sér þegar svona veður geysa. Margir sam kannast við það geri ég ráð fyrir.

Kannski væri ráð að nota dagpartinn og skella sér í að hengja upp seríur utan á húsið..... það verkefni er búið að bíða eftir mér í nokkra daga.....!!!!! Myndi örugglega gera það ef veðrið væri skárra.
Ég (ef ekki ég, þá Erla) finn mér allavega eitthvað að gera, svo mikið er víst. Hún er alltaf til í að ég haldi áfram með lagfæringar á húsinu, eða dundi við eitthvað annað.
Svo liggur fyrir að taka þvottahúsið í gegn. Það hefur verið hálfgert trésmíðaverkstæði og lager hjá mér undanfarin misseri, enda ekki hægt um vik þar sem bílskúrinn vantar ennþá. Er líka að gæla við að fara út á eftir, þegar birtir, og taka óveðursmyndir. Ef vel tekst til, set ég myndir af því á ljósmyndasíðuna mína.

Ég ætla samt ekkert að vera að stressa mig í eitthvert at, allavega meðan þær sofa hér uppi á efri hæðinni. Ég verð samt að segja að mér finnst hugsunin um þær sofandi uppi í öryggi heimilisins, afar góð og færir mér sjálfum stóíska ró og vellíðan.... Hellisbúinn í anddyrinu með konu og börn innst í öryggi hellisins.... skáldlegur, með kaffibolla :-)

Njótið aðventunnar vinir.... og veðursins.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú kannt að orða það.

Bestu rok kveðjur

Kiddi Klettur

Nafnlaus sagði...

-Já, skynsamlegt:)
-Alveg eins og ég hefði haft það:)
Mbkv Sys

Íris sagði...

Takk fyrir samveruna í dag ;) Hlakka til að fá þig hingað heim á morgun líka!
Love U milljón skrilljón!!
Þín Íris