Hér í Húsinu við ána var haldið jólaboð í gær. Allri fjölskyldunni minni var boðið eins og hún leggur sig, þ.e. systkyni, makar, börn og barnabörn.
Auðvitað voru forföll eins og alltaf í stórum hópi. Við fylltum þó fjóra tugi sem er allgott. Húsið bar fjöldann vel og fannst mér á gestum að þetta félli í góðan jarðveg.
Ég hafði óskaplega gaman að þessu. Enda fátt göfugra til en að rækta ættar- og vinabönd.
Hjalli kom, mér til mikillar ánægju, þótt veðrið væri ekki upp á það besta, ískuldi og vindur. Hann er á hægum batavegi. Hann er í hjólastól en getur staðið upp og gengið við hækju. Hann er baráttumaður og tekur þessu áfalli af æðruleysi. Eitt hænufet á dag eins og hann segir sjálfur.
Það gleður mig að sjá framfarir hjá honum. Ég hef þá trú að hann eigi eftir að verða alveg sjálfbjarga og njóta lífsins, kannski meira en nokkru sinni fyrr.
Það var mér líka sérstakt ánægjuefni að sjá að “krakkarnir” okkar voru svona áhugasöm eins og raun bar vitni. Viðbrögðin voru mest úr þeirra hópi, svo virðist að þau hafi saknað þorrablótanna okkar, en við breyttum þeim fyrir tveimur árum þannig að við systkynin hittumst án barna eins og var í upphafi. Þetta var gert vegna þess að við vorum orðin svo mörg að venjulegt húsnæði var hætt að rúma þennan fjölda.
Kannski kemur þetta í staðinn að einhverju leiti. Ég er að leyfa mér að vona að þetta sé byrjun á einhverju meiru. Ég heyrði því fleygt í boðinu að einhver ættleggur haldi jólaball. Þá er leigður salur og allir mæta á jólaball. Ég er opinn fyrir því. Ég tel það mikið slys ef ættarbönd trosna vegna samvistarleysis. Ber þar hver sína ábyrgð.
Þegar allt kemur til alls er það vinátta og fjölskyldubönd sem skipta máli ef eitthvað bjátar á, þess vegna þarf að leggja rækt við þann garð og hafa hann blómstrandi.
Nota tækifærið hér vinir, og þakka fyrir góða og gefandi samveru.
4 ummæli:
Oh já þetta var svo skemmtilegt! Vildi bara að ég hefði ekki verið svona slöpp og getað verið lengur :) Ég treysti bara á að þetta verði haldið aftur að ári :) En það væri líka sniðugt að hafa jólaball! Alger snilld! Hafið það gott yfir áramótin :) Þín Eygló sem er að fara norður!
Sæll frændi, mér finnst óendanlega súrt að ég og mín fjölskylda gátum ekki komið en ég var með skæða magakveisu sem vildi endilega losa iður mín við allt sem í þeim var. Ágúst var líka fastur í vinnu til kl. 18.30 svo okkur var greinilega ekki ætlað að koma í þetta sinn... en... minn tími mun koma! :)
Þetta jólaball sem bar á góma er væntanlega það sem haldið er í fjölskyldu Ágústar. Það hefur verið haldið árlega síðan 1960 og aldrei sleppt úr ári sama hvernig viðrar. Þetta er mjög góð hugmynd og ég skal vera með í nefnd ef hún verður stofnuð :)
Ég setti upp heimasíðu með upplýsingum um þetta fyrir nokkrum árum (er samt ekki nógu dugleg að uppfæra). Endilega kíkið... :) www.aensek.tk
Gleðilegt áramót!
Já frábært hjá ykkur að hafa svona jólahitting.
Verst að hafa ekki komist.
En gaman að því hvað þáttaka yngri kynslóðarinnar var góð og sýnir áhuga þeirra á að hittast.
Hins vegar er aðferð Gústa fjölskyldu mjög góð þar sem tekinn er salur og fólk kemur saman eitt síðdegi og fer í leiki og gengur í kringum jólatréð.
Það væri sniðugt að hafa potlock sniðið á því þar líka.
Annars er Hrafnhildur og Gústi búin að vera margsinnis í nefnd þar og kunna þetta upp á sína tíu.
Mbkv sys
Þetta var hrein og bein snilld. Svoooo gaman að hitta allt fólkið sem maður hittir alltof sjaldan. Verðum að gera þetta aftur að ári :)
Takk fyrir allar samverustundirnar núna um áramótin.
Sjáumst
Skrifa ummæli