þriðjudagur, desember 25, 2007

Jóladagur.....

....rann upp drifhvítur og fallegur. Það er hundslappadrífa. Ef ekki væri smá vindur þá væri útsýnið út um gluggann núna eins og á jólakorti þar sem snjókornin svífa lóðrétt niður í fallega skreyttan bæ og loða við allt sem þau lenda á. Trén svigna undan fallegu drifhvítu teppi sem hylur hverja grein og jólaljósin fá á sig ævintýralegri blæ þegar snjókornin dreifa ljósinu og búa til ný ljósbrot svo hvert ljós verður eins og skínandi margra arma stjarna. Það er hátíð í bæ. Friður innan dyra sem utan. Ylur hússins er notalegri en ella þegar snjóar svona úti.
Matarborðið okkar áðan var hlaðið afgöngum frá því í gærkvöldi. Það er einhvernveginn þannig að mér finnst maturinn oft bragðast betur daginn eftir. Að líkindum er ástæðan samt ekki sú að bragðið hafi breyst heldur er magaplássið meira en við jólaborðið á aðfangadagskvöld.

Það var fölskavalaus eftirvænting sem skein úr augum Örnudætra í gærkvöld. Hrifningin sömuleiðis þegar loksins var farið að opna pakkana. Það er erfitt að bíða þegar maður er svona lítill og tilveran hefur ekki mjög víðan sjóndeildarhring.

Morguninn fór í lestur. Ég fékk tvær bækur, Harðskafi” eftir Arnald Indriðason og “Finndu köllun þín með aðstoð munksins sem seldi sportbílinn sinn” Ég byrjaði á henni. Ég hefði sennilega ekki óskað mér hana í jólagjöf ef ég hefði ekki lesið fyrri bókina og verið jafn ánægður með hana og raun ber vitni. Þessar bækur eru stútfullar af lífsspeki sem snýr ekki síst að gildum fjölskyldunnar s.s. forgangsröðun hluta og gildi peninga í lífinu. Fjölskyldan er sett í fyrirrúm, að gefa af sér frekar en að þiggja. Þjáningin er “harla góð” enda einungis skóli lífsins og þroskar okkur og dýpkar, fyrir utan að hún gefur okkur viðmið til að njóta góðu stundanna. Áhætta er nauðsynleg til framfara og þroska enda sennilega algengasta þraut þeirra sem standa á síðustu metrum lífs síns að sjá eftir því að hafa ekki haft kjark til að taka áskoruninni sem í tækifærunum bjuggu á lífsleiðinni.

Núna er öll stórfjölskyldan komin hér í sveitina. Allir sitja í eldhúsinu undir fjörugum umræðum um lífsins gang. Börnin skoppa hér milli stofunnar og eldhússins eins og skopparakringlur. Hér er líf og fjör. Þetta minnir mig óneitanlega á gamla tíma í sveitinni forðum daga þegar ég var að alast upp og allir komu saman, þá var oft gaman og lífið einfalt.
Það eru sönn lífsgæði að fá að horfa á þennan stækkandi hóp koma hér og njóta samvista við okkur. Við Erla njótum þeirra gæða að kunna að njóta þess. “Betra en best” má eiginlega segja.

Eftir smá hlé hér er nú komið að matarborði jóladagsins. Það er að vanda hangikjöt og tilheyrandi. Það er “uppáhalds” hjá öllum.
Ætla nú að fara að njóta samvista við fólkið mitt.
Lífsgæði, lífsgæði, lífsgæði......!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er sko búið að vera yndislegt að vera hérna hjá ykkur mömmu yfir jólin, svo notalegt og kósý að það hálfa væri hellings. Takk alveg svakalega mikið fyrir mig og mínar sætu skvísur:) Þið mamma eruð einstök:) Arnan

P.S. Myndirnar á Flickr eru alveg GEGGJAÐAR, tunglmyndirnar síðan í gær eru mergjað flottar:)