Við Erlan sátum úti á verönd í gærkvöldi undir hitaranum. Það er fátt notalegra en það. Árniðurinn verkar róandi og gróðurlyktin í garðinum ásamt graslyktinni eftir slátt gærdagsins gerði þetta mikla gæðastund. Það hreyfði varla vind og hitastigið var í hærri kantinum.
Um tíuleytið kom hressilegur kippur. Hríslurnar skulfu eins... og lauf í vindi. Það er raunar orðið svo hversdagslegt að finna jörðina skjálfa hér og heyra drunur með að maður er hættur að kippa sér upp við það. Þetta er bara lifandi og skemmtilegt.
Jörðin hefur ekki stoppað hér síðan stóri skjálftinn kom hér um daginn. Þetta eru samt allt minniháttar kippir, smá titringur oftast, þó stundum komi stærri skammtur og ruggi. Það getur verið skemmtilegt að pæla í þessum ógnarkröftum sem eru að verki. Ótrúlegt að eitthvað skuli þess umkomið að hrista þessa milljarðatrilljarða tonna af grjóti og mold...!
Í gær kom hér maður frá tryggingafélaginu að meta skemmdir á innbúi. Þær eru víðtækari en við héldum í fyrstu, margt sem brotnaði. Við eigum svo von á öðrum manni sem skoðar skemmdir á húsnæðinu sjálfu. Þar er helst parketið sem skemmdist talsvert þegar hlutir féllu á það. Stigahandriðið er líka hoggið og svo er eitthvað af sparsl sprungum í veggjum, ekkert alvarlegt samt og vel sloppið miðað við marga.
Við förum bæjarferð á eftir. Kúturinn hann Erling Elí varð eins árs 3. júní sl. Foreldrarnir halda upp á áfangann í dag með pomp og prakt. Það er makalaust hvað tíminn líður hratt, ótrúlega stutt síðan hann kom í heiminn. Hann er mikill sjarmör og bræðir alla sem kynnast honum. Til hamingju með daginn elsku kúturinn minn..... börn eru það besta sem okkur hlotnast í lífinu.
Það rignir, gróðurinn eins og í júlí, allt er grænt og vænt.
1 ummæli:
Sæll kæri mágur
Lífið ER yndislegt...allavega jafn mikið og maður leyfir því að vera.
Njóttu daganna, þeir eru góðir og Guðs varðveisla yfir okkur.
Gaman að lesa skrifin þín og pælingar.
Bið að heilsa Perlunni þinni...
Sirrý litla
Skrifa ummæli