laugardagur, maí 23, 2009

Útskrift

Það var hátíðleg stund í Borgarleikhúsinu þegar 105 stúdentar frá Kvennaskólanum voru útskrifaðir. Hrundin okkar ásamt skólasystkinum sínum setti upp langþráðan hvítan kollinn.
Þetta var flottur hópur efnilegs ungs fólks sem eflaust á eftir að láta að sér kveða.




Hrund fékk verðlaun frá velferðarsjóði barna fyrir góðan árangur í Mentor verkefninu, fékk enda 10.0 fyrir verkefnið. Af máli nemenda skólans og kennara mátti heyra að þessi gamli skóli stútfullur af gömlum hefðum og venjum er mjög sérstakur. Hann nær að tengja fólk órjúfanlegum vina- og tryggðaböndum sem oft endist ævilengt. Nærtækt dæmi er Erla og hennar gömlu skólasystkini sem hittast enn, en Erla gekk í Kvennaskólann í gamla daga meðan hann var enn gagnfræðaskóli.


Við héldum svo veislu í Kefassalnum í Kópavogi og buðum þangað um 90 manns. Veislan tókst vel og virtust allir skemmta sér vel. Þetta var matarveisla. Kalkúnn með fyllingu og sósu og karamelluhúðuðum kartöflum, lax með aspas og ristuðu brauði og fiskur í hlaupi með sósum og grænmeti. Við nutum þessa góða samfélags með fólkinu okkar og vinum. Svo voru matargötin auðvitað ánægð með að fólkinu virtist líka maturinn.Við vorum að rifna úr monti með dótturina, það sást víst langar leiðir sögðu einhverjir.
Hrund fór svo í bekkjarhitting eftir veisluna og kom heim í nótt einhverntíman.
Við tvö ætlum að skreppa í Föðurland í dag og slappa aðeins af.
Hvergi eins notalegt og þar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með hana Hrund pæju:)
FLott hjá henni að vera búin með stúdentinn. Og glæsileg veislan hjá ykkur mömmu:) 10+ Hafðu það gott á Fitinni, Arnan

Nafnlaus sagði...

Takk æðislega fyrir mig - þetta var ææææææðislegur dagur frá a-ö! Bara fullkominn!! :)
-Hrund