Hrafnaklettar heita klettarnir hér beint fyrir ofan húsið. Hrafninum virðist líka vel að vera hér eins og okkur. Frá því að við fluttum hingað hafa alltaf verið hrafnar hér, vetur sumar vor og haust, þeir verpa hér í klettunum og eiga svo vini hér sem gefa þeim æti á veturnar.
Ég hef gaman að þessum blásvörtu nágrönnum okkar og hef oft fylgst með þeim hér út um gluggann, sérstaklega í hávaðaroki, þá leika þeir listir sínar í loftinu. Þeir hafa líka oft vakið mig með hávaðanum í sér hér á þakinu eldsnemma á morgnana.
Það er samt vonandi bara kvef sem hrjáir mig þessa dagana því röddin í mér er orðin jafn rám og þeirra. Hef reynt að heyra ekki í þeim svo ég komist ekki að því að ég skilji allt í einu hvað þeir eru að segja. Einn krunkaði móti mér í morgun þegar ég kom út, ég bauð honum góðan dag á móti jafn rámur og hann og hann skildi mig, ég get svo svarið það...!
Kvef hef ég ekki fengið lengi, þökk sé hvítlauknum... hef ég haldið. Kannski kominn tími á að auka við hvítlauksskammtinn og sjá hvort ég endurheimti ekki röddina, þessa venjulegu, kann betur við hana.
2 ummæli:
Auka við hvítkaukinn segirðu? ég hélt að það væri til hámark í þeim efnum ;)
Vonandi fer allavega kvefið að yfirgefa þig! Þín Eygló
Ég kannast bara við lágmarksskammt. Já kvefið lætur undan það er hefð fyrir því ;-)
Skrifa ummæli