laugardagur, desember 31, 2005

Annáll fjölskyldunnar


Árið sem er að líða ber með sér margt góðra hluta í lífi okkar fjölskyldunnar.

Það bættist við ættina með fæðingu yngsta barnabarnsins Þóreyjar Erlu Davíðsdóttur. Þann 17. október. Hin barnabörnin vaxa og eflast með degi hverjum og er gaman fyrir afa og ömmu að fylgjast með og taka þátt.

Arna og Davíð fluttust suður á árinu og búa nú nálægt okkur hér í Breiðholtinu. Það er gott, sérstaklega fyrir Daníu Rut sem hefur fengið góða aðhlynningu á leikskólanum sínum ásamt aðstoð þroskaþjálfara. Henni fer vel fram. Davíð hóf vinnu á heimili fyrir einhverfa drengi og líkar vel. Þau una sér vel í Seljahverfinu enda rólegt og fjölskylduvænt hverfi.

Eygló flutti líka suður og býr í Bláskógum í Seljahverfi. Hún hafði þó áður keypt sér íbúð á Akureyri. Það var góð fjárfesting sem hefur hækkað ört undanfarið. Hún vinnur í Hagkaupum í Smáralind. Hún hefur verið hjá okkur um jólin enda erum við orðin fá í heimili og veitir ekki af að bæta það aðeins upp.

Íris og Karlott ásamt dætrum sínum búa í Hafnarfirðinum og líkar vel. Íris hóf nám í lögfræði á haustmisseri og gekk henni það vel. Karlott skipti um vinnu á árinu og hóf vinnu í Landsbankanum. Þau eyða áramótunum í sumarbústað austur í Grafningi.

Hrund hóf nám í Kvennaskólanum. Líkaði ekkert of vel til að byrja með en fljótlega varð Kvennó bestur. Hún hefur verið að vinna með skólanum og sýnt af sér dugnað þar. Hún hafði plön um að gerast skiptinemi í Frakklandi, en hefur horfið frá þeim áætlunum, hún tímir ekki að missa af bekknum sínum.

Erla vann á Verkvangi stærsta hluta ársins en hætti þar í lok nóvember vegna ört minnkandi verkefna hjá fyrirtækinu. Hún hefur tekið það rólega í desember, en er með ýmsar pælingar varðandi framhaldið. Hún verður ekki í vandræðum að finna sér eitthvað við sitt hæfi, ef að líkum lætur.

Ég sjálfur hef verið á kafi í náminu þetta árið og hefur gengið nokkuð vel, þó alltaf megi gera betur. Vann við smíðar í sumar og gat því stýrt umfangi þess sem ég tók að mér. Vildi hafa það þannig, þar sem ég vildi geta ferðast og notið sumarsins með fjölskyldunni.

Sumarið er tíminn, hef ég oft haldið fram. Engin undantekning var á því þetta árið. Upp úr stendur ferðin okkar til Danmerkur. Þar vorum við í þrjár vikur með vinum okkar Heiðari og Sigrúnu. Tvær vikur vorum við í sumarhúsi í Arrild á Jótlandi og eina viku sem skiptist á milli Stövring í góðu yfirlæti hjá Óla og Annette og Kaupmannahafnar. Köben skipar alltaf sérstakan sess í okkar huga, fátt er sem jafnast á við að sitja á ráðhústorginu og skoða mannlífið þar á góðum degi. Eins þykir okkur danska smörrebrödet á Kronberg eiga fáa sína líka.
Ég veiddi í fyrsta skipti á erlendri grundu í þessari ferð, Geddur og Abborra ásamt einhverjum fleiri tegundum sem ég kann ekki einu sinni skil á. Önnur Geddan var stór og gaman að veiða hana, var reyndar heppinn að sleppa með tíu fingur frá henni þar sem hún reyndi að bíta einn puttann af mér, það kostaði hana lífið.
Við ferðuðumst vítt um Jótland og vorum mjög heilluð af mörgum stöðum, enda var veðrið eins og á sólarströndu nánast allan tímann.

Veiðin hér heima var líka góð. Sumarið hófst með veiðiferð í Þórisvatn með Heiðari og Hlyn. Þar veiddist vel að vanda og eigum við enn talsvert af fiski þaðan í kistunni. Gott að fá ársbirgðirnar þar, því fiskurinn þar er einn sá besti sem fyrirfinnst.
Það má segja að þetta ár hafi ég fyrst lært að veiða á flugu. Ég hnýtti slatta síðasta vetur sem ég veiddi á í sumar. Haustið stendur upp úr. Ég fór nokkrar ferðir í sjóbirting í haust og veiddi yfirleitt vel, ásamt því að setja í einn og einn lax. Mest veiddi ég á fluguna mína "Erlu" sem ég hannaði og batt síðasta vetur. Það kom skemmtilega á óvart hvað hún er veiðin.

Við dvöldum oft á landinu okkar á Fitinni í sumar. Meira en nokkru sinni áður og kviknaði í okkur löngun, í fyrsta skipti, til að fara að huga að því að koma okkur upp kofa þar, til að dvelja í. Gengum svo langt að fara út í verðkannanir. Einnig fengum við leyfi byggingaryfirvalda til að færa byggingarreit og snúa mænisás hússins, ef við skildum byggja.

Við fórum einnig á fjöll í sumar. Fljótshlíðarhringurinn stendur þar upp úr. Við fórum ásamt Hlyn og Gerði og Hansa og Auju á einum degi um þessar fallegu lendur þar sem Skaparinn virðist sérstaklega hafa vandað til verka.
Ég held ég geti sagt að ég veit ekki um fallegri leið á Íslandi, þó við höfum víða farið.

Haustið kom með sína fallegu liti og tilkynnti komu vetrar. Veturinn hefur verið mildur og góður. Þó ber skugga á þegar dauðinn knýr dyra, en við kvöddum Birgi Kornelíusson frænda Erlu um daginn. Einnig lést annar frændi hennar í bílslysi við Akureyri, Sigurður Arnar Róbertsson. Blessuð sé minning þeirra.
En svona er lífið, það gefur og tekur.

Árið hefur í heildina verið gott og gjöfult. Ég hef þær væntingar til ársins sem er að ganga í garð að það verði jafn gott, eða betra.

Bið Guð um að gefa ykkur öllum vinum mínum gifturíkt og farsælt ár
með kærri þökk fyrir það sem er að líða.

Gangið á Guðs vegum.....

laugardagur, desember 24, 2005

Jólin fyrir 40 árum...!

Af gefnu tilefni tek ég mér ögn skáldaleyfi til að fylla í nokkrar eyður.

Það glamraði í eldhúsáhöldum og ómurinn af því barst upp á efri hæðina. Ég lá með lokuð augun og hlustaði. Hitinn í herberginu var nær frostmarki en það var hlýtt undir sænginni, hún var þykk og góð. Hugurinn var þegar orðinn upptekinn af tilhugsuninni um hvernig dagurinn yrði. Jólatréð niðri í stofu var skreytt með bómull ofan á greinunum til að líkja eftir snjó, ásamt allskyns skrauti, kúlum, glerfuglum og englahári sem gerði fallega geisla í kringum ljósin á greinunum.

Loksins var þessi dagur runninn upp. Nú máttum við fara að raða pökkunum kringum tréð. Mér hafði gengið illa að sofna kvöldið áður og var nú vaknaður eldsnemma. Ég spratt upp úr rúminu og vakti Hlyn bróðir minn og tilkynnti honum hátíðlega að það væri kominn aðfangadagur.

Desember hafði verið lengi að líða og vaxandi tilhlökkunin varð gríðarlegri eftir því sem nær dró. Við höfðum farið út í kaupfélag með einhvern vasapening til að kaupa gjafir handa pabba og mömmu og hvor öðrum. Allt var leyndardómsfullt og spennandi. Hlynur hafði fundið á neðri hæðinni í kaupfélaginu þessa forláta beljuklóru með rauðu skafti handa pabba, en ég fann staf handa mömmu því mamma var á þessum árum alltaf hölt því hún var með ónýta mjöðm (fór seinna í liðskipti). Það var því praktíkin sem réði gjafavali í þá daga.

Það hafði verið erfitt að velja gjöf handa Hlyn eða öllu heldur var það þannig að ég hafði fundið gjöf, traktor úr járni, bláan að lit út í Mosfelli á Hellu. Mér fannst traktorinn svo flottur að ég ákvað að kaupa hann um leið og ég sá hann. Þetta var flottasti traktor sem, ég hafði séð á ævinni. Ég fór í vasann og taldi peningana mína. Þeir dugðu akkúrat fyrir traktornum. Ég sá fyrir mér hvað það yrði frábærlega gaman að leika okkur saman með traktorinn, en uppgötvaði augnablikinu seinna að auðvitað yrði bara einn traktor og Hlynur myndi ráða yfir honum. Ég taldi peningana aftur og aftur en útkoman var alltaf sú sama, það dugði fyrir einum traktor. Ég komst ekki framhjá þessari staðreynd svo ég stóð þarna ráðalaus og endaði eins og barna er gjarnt. Ég grét.
Næsta sem ég man var að pabbi kom og tók mig upp til að kanna hvað gengi að stráknum. Ég sagði honum vandræði mín með vota hvarma, að ég ætti bara fyrir einum traktor og hvað mig langaði sjálfan í svona traktor. Eftir eitthvert samningaþóf var farið að afgreiðsluborðinu og pabbi borgaði traktorinn.... með sínum peningum og sagði að ég mætti eiga hann. Ég man enn hvað ég var þakklátur. Þá var til fyrir öðrum traktor handa Hlyn, reyndar hallast ég frekar að því að ég hafi keypt vörubíl handa honum, en ekki traktor.

Við rukum niður stigann. Mamma var löngu vöknuð og var að stússa í eldhúsinu. Útvarpið var stillt hátt, verið var að flytja jólakveðjurnar. “Öllum ættingjum okkar og vinum, sendum við hugheilar jóla og nýárskveðjur .....Jón og Gunna í Melasveit”, eitthvað þessu líkt, ómaði um húsið. Það var mikið um að vera í eldhúsinu hjá mömmu. Hrærivélin á fullu og pottar á eldavélinni spúðu gufu. Eftirvæntingin var einhvernveginn í algjöru hámarki.

Mamma var búin að raða fullt af pökkum kringum jólatréð og nú bauð hún okkur að sækja pakkana okkar og setja þá kringum tréð. Ekki þurfti að hvetja okkur til þess. Við þustum af stað og settum pakkana hátíðlega, bakvið tréð, til að þeir yrðu ekki fyrstir þegar kæmi að því að deila þeim út.

Dagurinn leið hægt og rólega, alltof rólega. Við vorum alltaf að fara að trénu og skoða pakkana og horfa á ljósin. Eftir hádegi var jóladagskrá í sjónvarpinu. Það var svart/hvítt sjónvarp sem Danni bróðir hafði komið með heim einu sinni þegar sjónvarpið var að hefja göngu sína á Íslandi. Krakkarnir úr hinum húsunum komu til að fá að horfa á sjónvarpið með okkur. Það stytti stundir.

Seinni partinn var farið snemma í fjósið til að hægt yrði að hafa allt tilbúið klukkan sex. Heimilisfólkið fór í bað hvert á eftir öðru og allir voru greiddir og fínir. Sjónvarpið entist til klukkan fjögur en þá tóku við tveir lengstu árlegu klukkutímar sögunnar.

Mamma var á fullu í eldhúsinu og klukkan sniglaðist áfram. Milli fimm og sex var farið í sparifötin og spariskóna og nú bara sátum við og biðum eftir klukkunni.
Mínúturnar siluðust framhjá ein eftir aðra. Loksins var hápunktinum náð.
Hljómur jólabjallanna í útvarpinu ómaði um húsið, þeir fylltu hvern krók og kima og líka sálina sem upphófst með hljómunum.
“Gleðileg jól, gleðileg jól”, heyrðist út um allt, allir með bros á vör að faðmast og skiptast á heillaóskum. Hátíð í bæ og friður jólanna færðist yfir. Lotning fyrir Jesúbarninu, frelsaranum fyllti alla veru okkar.

Maturinn var aldrei tilhlökkunarefni hjá mér í þá daga. Hann var bara til að tefja. Þó var maturinn alltaf góður hjá mömmu þó komið hafi fyrir að ég hafi beðið um hafragraut í staðinn fyrir jólamatinn, ég veit ekki hvort það var um þessi jól eða önnur.
Eftir matinn fannst okkur mamma alltaf vera endalaust lengi að taka saman, pabbi alltaf eitthvað að tefja og allir aðrir þurftu að fara á klósettið.

Loks var farið að útbýta gjöfum. Mamma fékk krampa af hlátri þegar hún reif utan af stafnum. Þetta var karlmannsstafur úr bambus, boginn í annan endann og allt of stór fyrir hana, fyrir utan að hún taldi sig líklega ekki þurfa að ganga við staf. Pabbi virtist vera ánægður með beljuklóruna (held ég). En ég man sérstaklega hvað við Hlynur vorum ánægðir með gjafirnar okkar, allavega ég með traktorinn.

Jólin hafa breyst en mannfólkið er alveg eins. Siðirnir breytast og þróast en hátíðleikinn og friðurinn er sá sami. Og afmælisbarn jólanna breytist aldrei.

Óska ykkur öllum vinum mínum gleðilegra jóla.

sunnudagur, desember 18, 2005

Fjölskyldudagur!

Dagurinn í dag er búinn að vera notalegur og góður. Ég er búinn að vera að vinna mikið eftir að ég kláraði prófin. En í dag var tekið frí og faðmur fjölskyldunnar umvafði mig. Það líkar mér best af öllu. Nýliðin önn var annasöm, mikið að læra og einingarnar margar. Prófin voru strembin, svo strembin að ég náði ekki fullu húsi í þetta sinn, þarf að lesa upp alþjóðarétt um jólin og taka prófið aftur í janúar. Ekki ánægður með það en svona er bara laganám, aldrei á vísan að róa. Það var aldrei sagt að þetta væri auðvelt.

Við höfðum jólakaffi (súkkulaði) í dag fyrir litlu fjölskyldurnar okkar, svo hér voru litlar skvísur að bræða afa sinn..... og ömmu eins og þeirra er von og vísa....og venja. Ótrúlegir hjartabræðarar þessar litlu dúllur.

Íbúðin okkar hefur tekið stakkaskiptum. Árviss jólabúningur hefur tekið við hversdagleikanum. Erla er ótrúlega natin við að gera jólalegt hér hjá okkur. Dóti er pakkað niður og upp fara jóla styttur og jóla - allskonar hitt og þetta, sem við höfum eignast í gegnum árin. Það er alltaf jafn skemmtilegt að sjá þetta allt, því bakvið flest dótið liggur hluti sögunnar okkar. Ég er því fegnastur að hún er ekki alltaf að henda út og endurnýja, heldur bætir hún við smátt og smátt, þannig fá hlutirnir meira gildi og verða verðmætari okkur sem njótum.

Núna sitja þær hér hinn helmingur dætra okkar, Hrund og Eygló, en þær voru að vinna í dag svo þær voru fjarri góðu gamni í súkkulaðinu í dag. Þær eru duglegar skvísurnar að vinna, telja það ekki eftir sér.
Fátt jafnast á við svona góðra vina fundi. Ég hugsa oft um hvað það er ekki sjálfgefið að eiga börnin sín fyrir bestu vini sína? Það búa ekki allir við þá blessun.
Ég er þakklátur fyrir það.

föstudagur, desember 16, 2005

Teddi eldfimur í dag!

Veltir upp spurningu um samkynhneigð. http://www.theodorb.typepad.com/ Ég ætlaði að kommenta hjá honum á síðunni hans en þetta er orðið alltof langt mál sem slíkt, svo ég set þetta hér inn. Þetta er samt í tilefni skrifa Tedda á síðunni hans í dag.
Það kvelur mig að geta ekki geta sagt NEI við spurningunni hans án umhugsunar. Spurningin sem hann er svo djarfur að varpa fram er þess eðlis að hægt væri að bollaleggja hana fram og aftur án niðurstöðu. Auðvelt er að færa rök fyrir því að kirkjan sé ekki það skjól sem hún þarf og á að vera. Eins eru færð rök fyrir því að hún sé einmitt skjól þeim sem þurfa á því að halda.
Þar veldur hver á heldur.

Ég, maður sem var látinn drekka trúna úr pelanum mínum sem barn, fastur til margra ára í þeim kenningum sem ég meðtók í þeirri hlýðni, er á þeirri skoðun í dag að alltof margt fólk finnist sem ekki á skjól í kirkjunni. Ástæðan er sú að kirkjunnar menn flokka fólk eftir kennitölum og syndir þess eftir straumum og hentugleik.
Ég ætla, þar sem þetta er komment en ekki pistill, að nefna eitt dæmi um þessa hentistefnu, ég gæti nefnt þau of mörg í viðbót.
Í Lúkas 16:18 er talað um skilnað og endurgiftingu.
“Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann sinn, drýgir hór. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór.” Og í Matteus 5:32 er svipað orð:
“En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.” Þetta er svo undirstrikað jafnskýrt á enn fleiri stöðum.

Afhverju er ég trúmaðurinn að nefna þetta? Fyrst og fremst vegna þess að mér líkar ekki allt sem ég sé. Ekki bara það sjálfmiðaða starf sem ég sé viðgangast og kallast pólitík, heldur líka þessi staðreynd sem ég held að sé kveikjan að hugleiðingum Tedda að samkynhneigt fólk lifir undir fordæmingu kirkjunnar, meðan annað fólk innan hennar heldur framhjá, skilur, giftir sig aftur og aftur, meira og minna allt með samþykki kirkjunnar ....... Þrátt fyrir ofangreind orð.
Þessi mismunun á gildi orða ritningarinnar flokkast því miður undir hugtak sem Jesús klíndi gjarnan á Faríseana og fræðimennina, kallast “hræsni”.
Ég hef ekki á beinan hátt svarað spurningunni hans Tedda með þessu en af þessari skoðun má kannski draga þessa ályktun: Líklegt er að fordæmingin hafi slæm áhrif á þá sem fyrir henni verða,
hugsi það hver fyrir sig.

sunnudagur, desember 11, 2005

Sælan ein!

Bara tilhugsunin er góð. Einungis morgundagurinn eftir, svo kemur langþráð pása.
Eins og það getur verið gaman og gagnlegt að lesa og safna í eigin sarp þekkingu annarra. Þá er hægt að ofgera því.
Ég er búinn að eyða miklum tíma í lestur undanfarið eins og gjarnan áður í prófatörnum.
Ýmislegt gagnlegt síast inn fyrir, og helst þar vonandi einhverja stund, allavega framyfir próf.

Dagurinn í dag hefur samt verið aðeins öðruvísi. Í morgun fór ég til Benna bróður míns að skera hross. Þ.e.a.s. hrossakjöt. Við ásamt Hlyn skárum hrossið í allskonar bita, sumt í salt, annað í steikur eða hakk, allt eftir því sem okkur sveitaköllunum sýndist. Það verður gott að eiga saltkjöt í tunnu á svölunum í vetur. Ég ætla að steikja buff á eftir. Ef ég man rétt þá bragðaðist hrossabuff gríðarlega vel hjá mömmu í sveitinni forðum, ætla að gera heiðarlega tilraun til að líkja eftir því.

Sem ég sat hér á skrifstofunni áðan og las, fann ég allt í einu yndislega freistandi ilm leggja til mín úr eldhúsinu. Svo góðan að ég leið upp úr stólnum, og sveif fram í eldhús.
Þar stóð þessi yndislega kona mín við pott og hrærði í............súkkulaði.
Hún var sem sagt að undirbúa aðventukaffi fyrir heimilisfólkið á bænum. Ekki laust við að um mig færi sæluhrollur. Það er eitthvað svo ofboðslega notalegt að finna svona umhyggju fyrir sér og sínum.
Það verður víst seint fullþakkað, sú gæfa að spor okkar lágu saman forðum og að hún skildi vilja mig....veit ekki hvar við værum annars!
Ég hef lengi haldið því fram að ég hef einfaldan smekk,
vel aðeins það besta.

föstudagur, desember 09, 2005

Leitin að Paradís

heldur áfram. Hubble er góður.
Þetta líkist nú ekki mjög myndinni af Paradís, frekar einhverju öðru verra sem maður getur ímyndað sér! Reyndar er þetta sólin...! Eða smá hluti af henni. Þegar ég var að leika mér í síðasta pistli og velta fyrir mér hvað jörðin væri lítil var ég ekki búinn að finna þessa mynd. Gosið (sveigurinn) á myndinni er ca. jafnhár og tuttugu jarðir. Jörðin gæti verið svipuð og litli stafurinn o þarna niðri við hliðina á myndinni.
o
Þetta er nú ekki allt! Því á neðri myndinni er horft út í víðáttuna. Þessir undarlegu risar á bakvið eru af einhverri þvílíkri stærðargráðu að við getum ekkert gert okkur það í hugarlund.
Björtu deplarnir eru sólir, og margar þeirra eru margfalt stærri en sólin okkar, sem virðist nú engin smásmíði miðað við jörðina. Er nokkur vandi að vera sammála um að Jörðin sé hálfgerð örvera í þessu samfélagi?
Þessar pælingar eru bara svona til gamans, aðallega fyrir sjálfan mig í lestrarpásum. Samt skemmtilegt ef einhver annar hefur gaman af þessu líka. Undarlegast af öllu er að þetta er ekki ævintýri heldur veruleikinn blákaldur í kringum okkur.
Skyldi Paradís leynist þarna einhversstaðar, fyrst það virðist svona stutt í hinn staðinn??

Njótið annars helgarinnar, ég verð víst að lesa alla helgina.....

miðvikudagur, desember 07, 2005

Hvað er þá maðurinn?

Það upplýsist hér með að ég hef, og hef alltaf haft, mikinn áhuga á himingeimnum. Hubble sjónaukinn bandaríski hefur skyggnst lengra út í óravíddirnar en okkur hefur nokkurntíman tekist áður. Svona lítur raunveruleikinn út í kringum okkur. Nú er í smíðum sjónauki sem verður margfalt sterkari en Hubble. Hann mun gera að verkum að hægt verður að horfa svo langt að hugsanlega sést allt til upphafsins. Ég hlakka til að sjá myndir úr honum.....!
Það sem ég er að meina er að þegar við rýnum út í geiminn erum við að horfa aftur í tímann. Ekki bara milljónir, heldur milljarða ára aftur í tímann. Ljósið fer hraðast alls sem við þekkjum, það er t.d. bara um átta mínútur til sólarinnar. Þegar við erum að horfa á stjörnu sem er í milljón ljósára fjarlægð erum við því að horfa á mynd sem var tekin fyrir einni milljón árum síðan. Þetta þýðir að maðurinn mun líklega aldrei komast lengra en að líta þessi ósköp augum. Við munum aldrei komast þangað, hvernig sem tækninni framvindur.
Þessar myndir eru teknar í gegnum Hubble og ef maður skoðar þær með þetta í huga þá eru þetta í rauninni milljarða ára gamlar myndir sem við sjáum. Fjarlægðirnar frá hægri hlið myndarinnar til þeirrar vinstri getur hlaupið á milljónum, jafnvel milljörðum ljósára. Magnað. Líklega er þetta umhverfi allt öðruvísi í laginu í dag, en við sjáum það...! Merkilegt.
Þegar þetta er skoðað sést best hvað jörðin er agnarlítil. Hún hefur í raunveruleikanum miklu minna vægi í samfélagi stjarnanna en eitt sandkorn á sjávarströnd.
Mér datt í hug orðin “Í húsi föður míns eru mörg híbýli” Er hugsanlegt.....?
Verð reyndar að segja að mér finnst nánast óhugsandi annað en að þarna úti séu fleiri stjörnur sem Guð hefur ræktað aðeins meira en aðrar.
En hvað veit ég um það......? Ekkert frekar en þú. Best er að reyna að njóta þessa stutta tíma sem okkur er skammtaður hér á sandkorninu Jörð.
Var annars í næstsíðasta prófi annarinnar í dag, það var skattarétturinn. Gekk svona sæmó.
Bara fjölskyldu- og erfðaréttur eftir.
Kv. Erling maur

sunnudagur, desember 04, 2005

Ár síðan..!

Katrín Tara Karlottsdóttir er eins árs í dag. Það líður hratt hvert árið. Þegar sú stutta kom í heiminn gisti stóra systirin hjá afa sínum og ömmu á meðan. Um morguninn þegar hún vaknaði og fékk fregnirnar var það fyrsta sem hún sagði mjög hróðug: Nú er ég orðin stóra systir eins og Danía Rut. Það hafði enginn verið að tengja þetta við hana en þá hafði þetta forskot Daníu Rutar ekki alveg verið sanngjarnt í augum Petru Rutar. Katrín Tara er mjög duglegt barn, með afbrigðum handóð og fjörug, m.ö.o. fróðleiksfús.
Til hamingju með daginn litla afagull.

föstudagur, desember 02, 2005

Kom á daginn..!

Það kemst enginn hjá því að uppskera öðruvísi en í réttu hlutfalli við sáninguna. Ingibjörg er að pakka fylgi Samfylkingarinnar í gröfina. Ég er með nýja kenningu: Kannski er Ingibjörg bara sjálfstæðismaður á laun og flokkurinn sett hana til höfuðs Össuri til að slátra fylginu innan frá...? Kannski verður bara sameiginleg hátíð Ingibjargar og sjálfstæðismanna þegar hægt verður að moka yfir og setja kross á leiðið....! Þeim hefði farnast betur með Össur áfram á stýrinu. En án gríns þá er ljós í myrkri að fleiri og fleiri sjá í gegnum frúna, muna efndirnar á því sem hún hefur lofað og skoða verk R listans gleraugnalaust. Sauðirnir flýja og hjörðin þynnist með hverjum degi, hefur ekki mælst minni síðan 2002.
Ég segi Amen eftir því efninu....!

mánudagur, nóvember 28, 2005

Einu ofaukið.....

Nú veit ég að maður á ekki að fara í tvö próf í lagadeild sama daginn. Það gerðist í dag og ég held að það hafi ekki verið að hjálpa mér. Fór illa upplagður í seinna prófið, var eiginlega búinn að fá nóg. Fyrra prófið var í þjóðarétti sem er held ég eitt erfiðasta fag sem ég hef farið í til þessa. Hefur kannski að gera með erfiða lagaensku og litla færni mína í því efni. Ég tók þá ákvörðun að vera ánægður með tvær fimmur eftir daginn (vegna þess að það er mest fyrir þeim haft) ef það næst þá......!

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Kommentakerfið...!

Ég hef heyrt af fólki sem hefur haft áhuga á að segja álit sitt hér á síðunni en ekki tekist það.
Ég er með spam síu á kerfinu. Það virkar þannig að þegar skrifað hefur verið komment þá þarf að skruna aðeins niður, þar sjást nokkrir stafir í röð. Þessa stafi þarf að skrifa í reitinn sem er beint undir stöfunum. Þegar það hefur verið gert þá þarf að ýta á "Login and publish" reitinn og þá á kommentið að koma fram á síðunni.

laugardagur, nóvember 26, 2005

Oliver....nei takk

Fórum í gærkvöld út að borða áttmenningafélagið. Það samanstendur af okkur hjónunum, Gylfa og Christínu, Barbro og Sigga og Maríu og Svan.
Höfum haldið í þessa hefð til fjölda ára og farið einu sinni á ári út að borða. Staðirnir hafa auðvitað verið misjafnir eins og gengur. Þessi var mjög nálægt botninum. Hávaðinn var verri en í Múlakaffi í hádeginu en umhverfið minnti mest á það.
Við sátum á miðju gólfi í miðjum gangvegi umkringd fólki sem hélt greinilega að það væri í keppni um hver gæti framkallað mestan hávaða, flest vel drukkið.
Ég veit vel að þetta á að vera "fínn" staður, allavega fer fræga fólkið mikið þangað. Sú staðreynd gerir staðinn nákvæmlega ekkert merkilegri eða betri í mínum augum og fær (eins og fram hefur komið) falleinkunn.
Reyndar verður að segjast að maturinn var nokkuð góður loksins þegar hann kom, eftir nærri tveggja tíma bið, en það er svo sem engin nýlunda, það er ágætis matur á mörgum stöðum. En út að borða snýst um fleira en bragðið, það er t.d. skemmtilegt ef hægt er að halda uppi samræðum án mikillar fyrirhafnar.
Maður veit allavega hvert maður fer ekki næst, svo fátt er svo með öllu illt.....
Eftirrétturinn og samfélagið heima hjá Maríu og Svani eftir á, var í allt öðrum gæðum - takk fyrir það.

Góða helgi gott fólk.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Bærinn í dalnum

Botn í Geirþjófsfirði









Hér á eftir fer órímað ljóð. Ekki er það allra smekkur.
Móðurbróðir minn kom í Botn ekki löngu áður en hann dó að heimsækja
bernskuslóð sína. Hann orti ljóð um horfna tíð. Það er ljúfsár tregi í ljóðinu
hans, en gríðarlega fallegt.

Þegar þetta varð til hér að neðan var ég að hugsa um þessa ferð hans
vestur og móður mína en þau voru á svipuðum aldri og miklir mátar .......!

Stendur hann við túnfótinn
Að gamla bænum
Vindurinn gnauðar
Í fölnuðu grasi

Horfir inn í hugskot sitt
Mynd af fallegum bæ
lítil börn að leik
Iðandi líf

Þroskuðum augum
Horfast þeir
Maðurinn og bærinn
Þeir muna báðir

Minningarnar
Angurværar
Ylja eins og sólin
Fallegt líf í vestfirskri í sveit

Hljóðlega
Með mikilli virðingu
Spjalla þeir
Maðurinn og bærinn

Senda hugsanir sínar
Á milli
Hann var eitt barnanna
Í hópnum

Manstu eftir systur minni
Við sátum yfir ánum
Manstu eftir dulunni
Á barðinu

Þeir vita báðir
Að tíminn líður
Að ekkert í veröldinni
Fær því breytt

Tregafullt
Tilfinningaflóð
Strýkur hjartastrengi
Við túnfótinn

Á köldum degi
Þarna
Kvað við skálda raust
Það var hinsta kveðja

Bærinn stendur einn
Í dalnum
Eina hljóðið
Er ýlfrið í vindinum

föstudagur, nóvember 18, 2005

Síðasti kennsludagur annarinnar í gær

Við tekur prófatörn sem lýkur 13. desember. Það jaðrar við bilun þegar litið er til þess hversu stutt er síðan önnin hófst. Það er jú víst þannig að ef nóg er að sýsla þá líður tíminn hratt, en ég segi eins og máltækið: “Fyrr má nú rota en dauðrota”.
Þessi önn hefur gengið vel. Ég hef verið að hækka mig jafnt og þétt í einkunnum í náminu og verð ég að guma af því að þær hafa ekki áður verið jafn góðar og það sem nú er liðið vetrar.
Fyrsta tían.... jájá...! leit dagsins ljós á önninni, það var í erfðarétti. Það var reyndar, kannski, ekki erfitt próf, en er eitthvað erfitt þegar maður kann það??? Þeim sem voru lágir í einkunn fannst þetta eflaust erfitt. Íris er að mala mig, hún er strax búin að fá eina tíu....á fyrstu önn. Man ekki eftir að hafa leyft henni þetta.

Við ætlum að hittast þrír í dag og reyna að taka þjóðaréttinn aðeins föstum tökum. Það er fagið sem ég (og þeir) er hræddur við. Kennslubókin í þjóðarétti er ólesandi vegna erfiðrar ensku, endalaus erfið orð sem þarf löggiltan dómtúlk til að þýða.
Hef sem betur fer góðar glósur til að glöggva mig á efninu.

Ég hef verið að vinna undanfarið með skólanum. Ætla nefnilega til heitu landanna í janúar og ætlunin er að vera búinn að vinna fyrir því svona auka auka.
Annars sýnist mér þetta ætla að verða góður dagur eins og þeir eru flestir. Ég nýt þeirrar náðar að eiga góða heilsu og hafa í mig og á og vera elskaður af fólkinu mínu.
Það eru gæðin mín stærst og mest.

Njótið dagsins.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Bara til að afsanna....

Það sem hún Arna heldur fram, að ég muni ekki svara þessu klukli.

1. Hvað er klukkan? 22:40
2. Hvaða nafn er á fæðingarvottorðinu þínu? Hef aldrei séð vottorðið en veit ekki annað en það sé bara mitt.
3. Hvað ertu kölluð/kallaður? Erling
4. Hvað voru mörg kerti á síðustu afmæliskökunni þinni? Hættur að telja
5. Hár? Dökkt og hvítt, ofurlítið liðuð bæði
6. Göt? Original ekkert feik
7. Fæðingarstaður? Fljótshlíðin - Sami staður og Gunnar frændi á Hlíðarenda
8. Hvar býrðu?? Höfuðborginni
9. Uppáhaldsmatur? Sé fram á að hafa ekki pláss fyrir þennan lið á síðunni minni sleppi honum því
10. Einhvern tímann elskað einhvern svo mikið að það fékk þig til að gráta? Uuuuuhu - ekki svo ég muni
11. Gulrót eða beikonbitar? Beikonbitar með eggjum og rjómasósu með söxuðum sveppum og graskornsfræjum og svolitlu af möluðum furuhnetum útá og smá nýmöluðum piparkornum og hvítlauk – er gott, með smá smjöri og saxaðri gulrót !!!!
12. Uppáhalds vikudagur? Sá fyrsti og síðasti, svo líkar mér líka vel við þessa sem koma þar á milli
13. Uppáhalds veitingastaður? Fyrir utan eldhúsið mitt – þá líkar mér vel við Las Brasas
14. Uppáhalds blóm? Allskonar falleg grös
15. Hvaða íþrótt finnst þér skemmtilegast að horfa á? Heimsmeistarakeppni matreiðslumanna í Perlunni
16. Uppáhalds drykkur? Líklega kaffi - ef litið er til hvað ég drekk mest af
17. Disney eða Warner brothers? Já já
18. Uppáhalds skyndibitastaðurinn... Kentucky
19. Hvernig er teppið í svefnherberginu á litinn? Eina teppið sem er þar, er beislitt
20. Hver var síðastur til að senda þér tölvupóst? Þarf að gá...........Íris – verkefni í stjórnskipunarrétti
21. Í hvaða búð mundir þú vilja botna heimildina á kretidkortinu? Hjálp - ég segi NEI
22. Hvað gerir þú oftast þegar þér leiðist? Oftast leiðist mér ekki. Held ég myndi bara gera eitthvað skemmtilegt.
23. Hvaða spurning sem þú færð fer mest í taugarnar á þér? Heimskuleg
24.Hvenær ferðu að sofa? Oftast seint á kvöldin
25. Hver verður fyrstur til að svara þér þessu? Tja nú er ég kjaftstopp
26. Hver af þeim sem þú biður um að svara þessu er líklegastur til að svara ekki? Enn kjaftstopp 27. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? Sjónvarps hvað sagðirðu??
28. Með hverjum fórstu síðast út að borða? Minni heittelskuðu Perlu
29. Ford eða Chevy? Musso offkors
30. Hvað varstu lengi að klára að svara þessu? Átti ég að taka tímann ??

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Betra en best..

Við fórum nokkrir í stórfjölskyldunni í árlega Perluferð til að kanna snilli kokkanna þar.
Þeir höfðu engu gleymt frá í fyrra. Maturinn var snilld á köflum. Andalifrarpaté-ið stóð uppúr eins og í fyrra. Mér fannst bæði hreindýrið og gæsin betri nú en í fyrra. Dádýrakjöt var nýtt á boðstólum og fannst mér það of bragðlítið, ekki nógu vel kryddað. Marineraður hvalur kom á óvart. Flest af því sem í boði var þótti mér gott – þó ekki allt.
Samfélagið var skemmtilegt enda góðra vina hópur á ferðinni. Takk fyrir frábært kvöld strákar....!
Annað í frásögur færandi er einkunnin í verkefninu sem ég var að kvarta yfir í síðasta pistli. 8.0 - kom þægilega á óvart.
Verkefnin eru á færibandi þessa dagana. Er í síðasta verkefni í fjölskyldu- og erfðarétti fyrir próf og svo er síðasta verkefnið í stjórnskipunarrétti á mánudaginn. Næsta vika er svo síðasta kennsluvika þessarar annar. Það er ótrúlegt. Síðasta önnin framundan og BA útskrift.
Það þarf engu að ljúga um hvað tíminn líður hratt.

mánudagur, nóvember 07, 2005

FLÆÆÆKJUFÓTUR.....!

Það þarf snilligáfu til að búa til svona flækjur í einu verkefni. Við erum fimm saman að leysa málið, það er virkilegur HAUSVERKUR. Misþyrming á þessum annars fínu laganemum.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Pretty woman....

Drottningin komin á fætur fyrir allar aldir.
Það er óvenjuleg sjón og fátítt hér á sunnudagsmorgnum að drollan sjálf sitji til borðs með manni. Óvæntur heiður og ótilunninn, en skemmtilegur.
Við erum að horfa á fólk tygja sig út í daginn misjafnra erinda auðvitað en allir að puða við það sama ....að skafa frostið af bílunum sínum. Sennilega hefur verið frostrigning í nótt því fólkið virðist í mesta basli við að ná þessu af.
Dagurinn er fallegur og býður örugglega uppá eitthvað skemmtilegt. Við erum t.d að fara í afmæli á eftir . María frænka Erlu er fimmtug og heldur uppá herlegheitin með pompi og prakt í Samhjálparsalnum í dag. Óskast henni hér með til hamingju með daginn.
Ég man vel þegar ég kom fyrst í hús Maríu og Svans. Það var á Snorrabrautinni. Kjallaraíbúð alveg við götuna. Það var á sokkabandsárum okkar Erlu. Þá var Snorrabrautin gott athvarf ungum hjónaleysum. Svanur tók af skarið, lokaði okkur inni í stofu og bauð góða nótt.......
Þetta var árið 1976
Árin tikka á okkur öll........ eins og á grönum má sjá. Ævin er eins og sólargangurinn. Hann endar með því að sólin sest við yztu sjónarrönd.
Því er um að gera að nota dagsbirtuna meðan hún er til staðar og njóta alls þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða. Við höfum haft þetta að leiðarljósi allt síðan við gistum á Snorrabrautinni forðum, - með misjöfnum áherslum þó.
Með auknum þroska og nýjum áherslum held ég þó að við höfum aldrei notið lífsins betur eða verið á betri stað en í dag.
Það er athyglisvert en gott vegarnesti inn í framtíðina.

Eigið góðan dag.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Svona er bara lífið....

"Sá finnur að sem um er hugað" en "bágt er að rétta það tré, sem bogið er vaxið."

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

B.A .ritgerð.

Búið er að samþykkja ritgerðarefnið mitt. Það þurfti smá registefnu til þess, vegna þess að nánast ekkert hefur verið farið í verktakarétt. Ég ætla að skrifa um fasteignagalla og ábyrgðir byggingaverktaka á þeim, dómaframkvæmd o.fl. Þetta tengist samt auðvitað kröfurétti og skaðabótarétti og líka að einhverju leiti samningarétti.
Leiðbeinandi minn verður Othar Örn Petersen hjá LOGOS lögmannsþjónustu.
Hann er sennilega fremstur meðal jafningja í verktakarétti á Íslandi, segir deildarstjóri lagadeildar mér.

Veistu hvað B.A. stendur fyrir?

"Skammstafanirnar B.A. og B.S. eru latneskar að uppruna og standa fyrir baccalaureus artium og baccalaureus scientiarum. Orðið 'baccalaureus' er myndað eftir latnesku orðunum bacca lauri, það er 'ber lárviðarins', en það var siður Grikkja og Rómverja að heiðra menn með lárviðarsveig, sérstaklega skáld. Frá síðari hluta 17. aldar hafa lárviðarskáld haft fast embætti við bresku hirðina. Latnesku orðin ars (eignarfall 'artium') og scientia (ef. 'scientiarum) vísa í þessu samhengi annars vegar til hugvísinda og hins vegar til raunvísinda, samanber að á ensku er talað um 'Bachelor of Arts' og 'Bachelor of Science.'
Ekki er sérstakur munur á þessum tveim gráðum annar en að samkvæmt hefð lýkur fólk B.A.-gráðu í hugvísindum og B.S.-gráðu í raunvísindum. Munurinn felst því ekki í gráðunni sem slíkri heldur í námsefninu. Þegar um greinar sem ekki falla undir hug- eða raunvísindi er að ræða er misjafnt hvað gráðan er kölluð en Félagsvísindadeild Háskóla Íslands býður upp á nám til B.A.-prófs. Sumar deildir, til dæmis Viðskipta- og hagfræðideild, bjóða upp á nám til bæði B.A.- og B.S.-gráðu og er þá áherslumunur í námsefnisvali. Sambærilegar gráður hafa svo verið nefndar ýmsum nöfnum, til dæmis B.Ed.-gráða í kennslufræðum og B.F.A.-gráða í ýmsum listgreinum.

Af vef HÍ

Þá veistu það!
Þær týnast inn einkunnir úr miðannarprófunum, ég er ekki fallinn enn. En “sökum reynslu minnar af bjartsýni........tek ég regnstakkinn með” eins og einhver sagði, og bíð með að fagna.
Hvað um það, námið styttist og þetta gengur vel. Veit orðið ýmislegt sem ég vissi ekki áður um lög og rétt.
Best af öllu sé ég þó hvað ég vissi lítið.

Svo getur fólk verið að gera grína að mér, auðmýktinni uppmálaðri. Erla gaf mér gjöf. Spjald á ísskápinn sem á stendur: “When I married mr. right... I didn´t know his first name was Always”

Það sem fólk getur bullað.