sunnudagur, desember 12, 2004

Þrýstingsfall á mælunum......

Lífið er sinfonía. Sumir kaflar stríðir og strembnir, aðrir mildir og angurværir.
Eftir ómstríðan og kraftmikinn kafla undanfarið var gott að svífa á mjúku tónunum um helgina. Við sem sagt áttum pantað jólahlaðborð á Hótel Flúðum eftir prófin.
Það var ljúft. Vinir okkar Heiðar og Sigrún nutu þeirrar ánægju að vera með okkur :)
Það kom skemmtilega á óvart hvað þetta hótel er fallegt og ríkulega búið. Hlaðborðið var hlaðið kræsingum, flestum góðum, þó misgóðum eins og gengur eftir tegundum og smekk. Hrátt hangikjöt fangaði mína bragðkirtla framar öðru sem á boðstólum var, eins var gaman að smakka hrátt marinerað lambakjöt. Allavega nutum við ánægjulegrar kvöldstundar þarna með vinum okkar í sveitarómantíkinni.
Við vöknuðum svo endurnærð í morgun þarna í sælunni og kíktum í morgunverðinn.
Þar var annað nýnæmi sem ég hef hvergi séð á morgunverðarhlaðborði á hóteli fyrr. Vöffludeig og sjóðheitt vöfflujárn við hliðina. Það var smart hjá þeim að bjóða uppá svona vöfflu self service með morgunmatum. Þeir fá fjórar stjörnur hjá mér fyrir frumlegheit.

Á heimleiðinni kíktum við aðeins í Eden í Hveragerði og skoðuðum aldingarðinn hans Braga. Kíktum þar á ljósmyndasýningu með mjög flottum ljósmyndum eftir Raxa á mogganum og Óskar Andra sem ég þekki ekki deili á.
Við vorum öll sammála um að teygja aðeins á þessum ljúfu nótum svo við ákváðum að renna niður að Ölfusárósi. Þar er nýlegur veitingastaður sem heitir Hafið bláa, ber nafn með rentu því hann stendur einn og sér þarna á fjörukambinum út við úfið Atlantshafið. Þar settumst við inn og keyptum okkur kaffibolla og nutum útsýnisins. Stórbrotið brim að leika sér við að flengja fjörugrjótið með fílefldum hrömmum sínum, mávar að berjast gegn rokinu og seltunni og selur sem lét eins og hann ætti heima þarna í rótinu.
Datt í hug kötturinn okkar. Ósanngjarnt hvað lífið er skepnunum miserfitt (mannskeppnan þar ekki undanskilin)

Við Erla enduðum helgina svo með heimsókn til Írisar og Karlotts og dætranna þeirra tveggja. Þar fengum við heitt súkkulaði og með því osta og fleira góðmeti, ummmm, eins og þetta á að vera á aðventunni.

Mitt mat: Frábært.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert sannarlega ríkur maður Erling að njóta svona daga. En þú hefur líka innsæi í hvað skiptir máli og hvað ekki - því að svona daga geta flestir notið ef þeir bara hafa "sans" fyrir því. Vinarkveðja. Teddi.

Kletturinn sagði...

Það vantar ekki dekrið á þessa verðandi lögmenn! Í mínu ungdæmi gátu stúdentar nú aðeins fengið vatn og brauð og veisluhöldin fólust gjarnan einni með öllu niður við Tryggvagötu. Oft í rigningu. En nú á dögum, á dögum síaukinnar skuldasöfnunar landsmanna í erlendum myntum þá lifa nemendur landsins eins og erfingjar Dönsku krúnunnar. Ja svei!


Afsakið, það rakst hérna inn gömul fréttagrein sem ég var að skanna upp úr eintaki sem ég fann af Tímanum. En mín skoðun er sú að ég óska ykkur til hamingju með að finna notalegheitin í daglega lífinu. Margir leita en finna ei. Go for it.

Erling.... sagði...

Hvað ertu að grufla í gamla framsóknarmálgagninu Kiddi minn. Farðu varlega því það getur hæglega verið miltisbrandur þarna inn á milli. Það veit enginn í hverju þeir hafa verið að grufla.
Hættu bara að hugsa svona um framsókn. Þeir voru alveg jafnopniríbáðaenda, þá, eins og nú.

Nafnlaus sagði...

Erling minn, mundu nú að Framsókn er límið í Íslenskum stjórnmálum. Svo máttu ekki skammast þín svona fyrir þinn eigin flokk.....Var ég ekki búinn að segja þér að ég skráði ykkur Erlu í flokkinn :-) k.kv. Teddi.

Erling.... sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Erling.... sagði...

Er ekki límtúpan orðin tóm. Þrátt fyrir frumleikann í límhugmyndinni sýnist mér þið þurfa að fara að finna eitthvað annað til að halda í flokksmenn ykkar en að reyna að líma þá fasta. Maður skilur samt soldið panikkina þegar maður sér fylgishrunið.
Það t.d. hélt okkur Erlu ekki :-)

Heidar sagði...

Tek undir með höfundi pistilsins, ferðin að Flúðum var alveg einstaklega notaleg og ljúf. Mæli hiklaust með Hótelinu að Flúðum.