Ég var spurður að því í gær hvort ég væri bókstafstrúarmaður. Varð að svara neitandi.
Ég túlka ýmislegt í ritningunni eins og t.d. sköpunarsöguna (t.d. hér á síðunni um daginn). Ég kemst ekki fram hjá því að búið er að þýða hana frá einu máli til annars. Þó ég viti að þýðingarnar séu vandaðar og margt tekið beint úr frumtextanum, kemst ég heldur ekki fram hjá því að það voru menn sem framkvæmdu það verk...... einnig þeir sem skrifuðu frumtextann.
Sem lítið dæmi má nefna, að ekki má segja að náungi þinn sé bjáni. Með gagnályktun væri hægt að halda því fram að skv. bókstafstrú væru önnur fúkyrði þá í lagi. Þú mátt segja: Þú ert fífl, asni, hálfviti, vitleysingur o.s.frv. Ástæða þess að bjáni er nefnt er sú að þýðendur völdu að nota þetta orð um tiltekið fúkyrði. Ef þeir hefðu notað orðið asni væri það orð bannað .....en ekki orðið bjáni! Tilviljun réði að þetta orð var notað.
Annað lítið dæmi: "Ekki leyfi ég konu að kenna” Vandræðasetning. Þessi orð eru gjarnan túlkuð á þann veg að þetta lýsi tíðaranda þess tíma sem þetta er skrifað, en hafi ekki gildi í dag. Af þeirri niðurstöðu má svo gagnálykta að á sama hátt má þá afgreiða mjög margt annað sem ritað er.
Held reyndar að það finnist enginn sem getur með einhverju sanni sagt að hann sé bókstafstrúar. Sá sami hlýtur að vera í miklu basli við að reyna að lifa lífinu einhvernveginn.
Svo ég er ekki bókstafstrúarmaður. Ég hinsvegar trúi meginboðskap Biblíunnar og tileinka mér hann í lífi mínu. Finnst reyndar að ég trúi svolítið öðruvísi en margur. Ég tel marga trúaða ekki skilja þátt Krists í kristinni trú. Náðina sem fylgdi honum með uppfyllingu lögmálsins í eitt skipti fyrir öll. Mér finnst flestir kristnir telja sig enn vera fasta í boðum og bönnum lögmáls gamla testamentisins, eins og þeir hafi aldrei verið leystir undan því. Kannski ekki skrítið því þetta er kennt leynt og ljóst, að ég held í flestum kirkjum.
Það er kannski einfeldni minni um að kenna að ég set hlutina svona fram, en hver er sæll í sinni trú. Í mínum huga er trúin svona einföld: Það er aðeins til eitt aðgangsorð inn í ríki Guðs, orðið TRÚ.
Það er það sem Kristur boðaði fyrst og síðast. Mín trú er að í þessu litla orði felist náðin Jesú Krists öll.
Allt annað þ.m.t. verkin eru afleiðingar trúarinnar. Trúin og þar með himnavist, er að mínu viti ekki ávöxtur þess sem ég hef gert “fyrir Guð” heldur er ávöxturinn afleiðing þess að ég trúi.
Hef reyndar mikið velt fyrir mér undanfarin ár um hvað trúin snýst, þ.e. kjarninn, og hef komist að þessari niðurstöðu sem að ofan greinir.
Aðrar kenningar eru að mínu mati fótumtroðsla á krossverki Krists.
Ráðlegg þeim sem kenna Orðið að skoða vel píslarsöguna, um hvað hún snerist
Sú kennsla er ábyrgðarmikið starf.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli