SVÓT er geysiöflug aðferðafræði sem er fyrst og fremst notuð við greiningu á raunhæfi viðskiptahugmynda, ekki síst í nýsköpun þar sem ekki er hægt að styðjast við raunverulegar fyrirmyndir. Ég kynntist þessari aðferð í raunhæfu verkefni í skólanum í fyrra í kúrs sem nefndist “Stofnun og rekstur fyrirtækja”.
SVÓT stendur fyrir S = styrkur V = veikleiki Ó = ógnun T = tækifæri.
Það kom því skemmtilega á óvart að sálfræðin er líka með þessa greiningu – en aðeins á öðrum nótum , sem sagt notað á fólk.
Þekkirðu sjálfan þig? Auðveldast er að segja já, og hugsa svo ekki meira um það.
Áður en þú lest lengra staldraðu þá aðeins við, líttu inn á við og gefðu þér sjálfum heiðarlega einkunn á skalanum 1 – 10 um sjálfsmat / sjálfsálit / sjálfstraust þitt og árangur.
Stopp hér...fyrst að gefa einkunn áður en haldið er áfram......!
Ef þú gefur sjálfum þér einkunnina t.d. 6. þá segir það að einhver 40% standa eftir. Hvað eru þessi 40 prósent? Það er eitthvað sem þú sjálfur telur vannýtt eða óvirkt hjá þér. Kannski er talan lægri, sjálfsmatið lágt og þér líður þá væntanlega ekki vel með það.
Þá er samt ekkert að óttast því þá áttu bara ennþá meiri innistæðu til að sækja í, því allur ert þú 100%.
Finndu þér gott næði með blað og penna. Skiptu blaðinu niður í fjóra dálka, styrkleika / veikleika / ógnanir / tækifæri. Skoðaðu sjálfan þig vel og rækilega og skrifaðu allt niður sem fellur undir hvern lið. Gefðu þér góðan tíma til að vinna þessa vinnu því hún verður að vera vönduð (gæti tekið nokkra daga)
Þegar þetta er komið geturðu lesið sjálfan þig. Tækifæra liðurinn er sá sem verður mest spennandi eftir þessa vinnu því nú ertu líka fær um að sjá hvaða tækifæri liggja fram á veginum.
(hér er rétt að taka fram að tækifærin geta verið af öllum toga, ekki endilega að verða forstjóri þó það sé annars ágætt, heldur getur verið um að ræða að bæta sig á ýmsum sviðum mannlífsins t.d. verða betri í mannlegum samskiptum, betri stjórnandi, betra foreldri, verða ákveðnari, jákvæðari, skemmtilegri, hætta að stela eða bara hvað sem er).
Vinnan er ekki þar með búin, en stórt skref stigið. Nú þegar þú sérð tækifærin þarftu að setja þér markmið. Þá er gríðarlega mikilvægt að hafa markmiðið ögrandi, dæmi: Ef þú stekkur 1.20 í hástökki nú þegar, þá stillirðu hæðina ekki í 1.20 heldur í 1.25 en setur stefnuna á 1.70 eða þangað sem tækifærið liggur.
Einsettu þér að nálgast takmarkið í litlum áföngum, eins og þú værir að bæta þig í hástökki (æfðu þig) Viðmiðið á ekki að vera hvað aðrir eru að gera heldur á mælikvarðinn að vera þú sjálfur, (þú hækkar rána eftir því sem þú stekkur hærra) sjáðu sjálfan þig mjakast nær og nær settu marki.
Notaðu þessa aðferðafræði ef þú vilt ná í það sem upp á vantar hjá þér, eða bara til að bæta þig í því sem þú ert að gera í dag.
Gangi þér vel.
3 ummæli:
Fyrir nokkrum árum, þegar Chicago Cubs tóks að verða stigahæstir í deildinni sinni, kom tímabil þegar einum af bestu leikmönnunum gekk illa. Jim Frey, framkvæmdastjóri liðsins, sá þennan leikmann íþróttahúsinu dag nokkurn. Leikmaðurinn var greinilega að vonast til að bæta frammistöðu sína, því hann var að horfa á kvikmyndir af sjálfum sér slá boltann.
Getið þið giskað á, hvers konar myndir hann var að horfa á? Jú, hann valdi myndir þegar honum hafði gengið illa, þegar hann hafði ekki hitt boltann og almennt gert allt annað en hann langaði til. Hann var auðvitað að reyna að finna hvað hann gerði vitlaust svo hann gæti leiðrétt mistökin. Hann var líklega að reyna að svara spurningunni ,,hvað veldur þessum vandræðum?” Reyna að komast yfir sexuna hans Erlings. Getur þú ímyndað þér hvað hann var í raun og veru að læra með því að horfa á myndir af sér þegar honum gekk illa? Jú, hann var að læra í æ meiri smáatriðum hvernig á að vera lélegur leikmaður.
Jim Frey, settist hjá leikmanninum og hrósaði honum fyrir hvað hann væri duglegur að vinna að því að bæta sig og helgaði sig leiknum. En svo stakk Jim upp á því að hann færi þangað sem myndirnar væru geymdar, fyndi myndir af því þegar honum hefði gengið verulega vel að hitta og horfði svo á þær myndir í staðinn.
Ef við temjum okkur hugarfar Jim Freys er líklegt að hindranirnar sem við finnum með því að nota aðferðina sem Erling benti á muni rétt eins og hástökksráin færast smámsaman ofar og ofar og að lokum hverfa. Við horfum á það sem okkur langar (lausnina) en veltum okkur ekki upp úr vandamálinu. Sagan sem ég deildi með ykkur er í stuttu máli innihaldið í lausnarmiðaðri meðferð.
Gangi ykkur vel að hækka ránna.
Þetta er gott innlegg. Það byggir upp jákvæða sjálfsmynd og sterkari einstakling að leita að lausnum frekar en að skoða hindranir. Það er reyndar eitt af sjáanlegum einkennum milli sterkra og veikra einstaklinga. T.d. lítur lélegur stjórnandi á sterka og hæfileikaríka einstaklinga sem hindrun en sterkur stjórnandi safnar að sér slíkum og verður sterkari en nokkru sinni.
Gott.
Þetta var góður og gefandi pistill. Mér finnst ég alveg ljómandi fínn og hæfileikaríkur náungi, en ég hef sett markið mitt mun hærra en ég er kominn á í dag. Ég er í dag að framkvæma hluti sem ég taldi áður að mér væru ófærir og ég hlakka mikið til þegar ég hef bætt mig enn meira í þeim, því að þá stilli ég ránna enn hærra. Öll hvattning - eins og þessi - er vel þegin í þeirri vegferð. Takk fyrir mig.
Skrifa ummæli