mánudagur, mars 14, 2005

Fáðu þér rofa....

"Svo lengi lærir sem lifir". Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Var t.d. að læra að gott væri að eiga “rofa” svona slökkvara/kveikjara, samt ekki þessa hefðbundnu. Hugmyndafræðin byggir nokkurn veginn á þessu: Tveir hópar eiga að vinna erfitt verkefni. Öðrum hópnum er sagt að bak við skáp í vinnustofunni sé rofi sem nægir að ýta á til að leysa verkefnið ef allt um þrýtur.
Hinum er ekkert sagt af rofanum. Báðir eiga að leysa verkefnið innan tiltekins tíma.
Hópurinn sem veit af rofanum er pollrólegur og vinnur verkið af öryggi og yfirvegun. Hinn hópurinn sem ekki veit af rofanum er stressaður og vinnur undir miklu álagi.
En þeir eru samt að leysa sama verkefnið. Eini munurinn er að rólegi hópurinn veit af rofanum.
Lærdómurinn af þessu er sá að ef þú ert að fara að vinna verkefni sem þú veist að verður erfitt, tala ekki um ef það er að stressa þig. Þá skaltu búa þér til rofa. Það gerirðu með því að búa alltaf til áætlun B og C ef A klikkar. Dæmi: Þú ert að fara á fund þar sem ræða á erfitt málefni, vertu þá búinn að gera ráð fyrir hvernig þú bregst við óvæntum uppákomum t.d. ef fundurinn er að fara úr skorðum. Ákveddu fyrirfram hvað þú getur sætt þig við. Vertu með plan. Eigðu tímapunkt sem þú segir stopp, hingað og ekki lengra. Eigðu útgöngu við óvæntu uppákomunum. Hafðu það í fórum þínum á fundinn. Þá áttu svona rofa sem þú veist af og getur notað, ef allt um þrýtur.
það eykur sjálfsöryggið og pollrólegheitin verða þín.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er ekki bara gaman að lesa bloggið þitt Erling heldur líka verulega lærdómsríkt. Þetta var góður og gagnlegur pistil.

Nafnlaus sagði...

Það er ekki bara gaman að lesa bloggið þitt Erling heldur líka verulega lærdómsríkt. Þetta var góður og gagnlegur pistil.