Hann blés norðangarranum yfir okkur með tilheyrandi snjófjúki og kulda í gærkvöldi. Það er ekki laust við að manni finnist hann banka uppá full snemma þetta árið.
Það fylgir þó vetrarkomunni einhver notalegheit. Það verður svo augljóst hvað það er gott að eiga hlýtt og notalegt heimili þegar vindurinn þýtur yfir frostbitna mela og snjórinn safnast í grjótharða skafla upp við húsvegginn og fyllir hverja laut.
Núna er frost, það hefur lægt og snjórinn liggur yfir jörðinni eins og nýlagt teppi, allt er svo hreint og svalt. Frábært gluggaveður. Fjölskyldan innandyra og lætur sér líða vel. Notaleg öryggistilfinning sem allir finna fyrir. Erla notaleg í sófanum og dæturnar njóta friðhelgi heimilisins í botn. Ekki er laust við að eitthvað minni á jólin í þessari stemningu. Ekkert kallar á veiðimanninn í mér núna, - nema kannski fjöllin og Rjúpan.
Hugurinn hvarflar til baka, svo stutt er síðan ég gekk fram á árbakkana í sumarblíðu. Árnar glitrandi fallega innan um blómstrandi blágresi og ilmandi sumargróður. Laxáin í Aðaldalnum kemur lygn og falleg upp í hugann. Þar var sumartilfinningin yfirþyrmandi Mýflugan ætlaði að éta mig lifandi og hefði klárað það verk ef ég hefði ekki notað nýjustu varnir gegn henni. Það var logn og sól. Bændur voru í fjarska að snúa skrjáfþurru heyi í blíðunni. Maður heyrði samskiptin þeirra á milli, svo mikið var lognið. Fuglar flugu um loftin og maður var þáttakandi í íslenskri sumarflóru eins og hún verður fegurst. Þetta var falleg mynd af lífinu sjálfu, eins og þegar það gælir mest og best við mann.
Þessi kalda hvíta fegurð núna er öðruvísi en græn tilveran í sumar. Hún kallar fram í manni lotningu fyrir fjölbreytileika lífsins og minnir mann á hversu fallvölt og breytileg tilveran er. Ekkert er varanlegt. Allt er breytingum háð. Lífið gefur og tekur. Nýir einstaklingar koma fram og aðrir kveðja. Rétt eins og sumarið með allt sitt iðandi líf og svo veturinn sem tekur við með sitt frosna þel og fölnuð lauf.
Þrátt fyrir kuldalega ásýnd þá ber þessi tími með sér fögur fyrirheit. Um betri tíð, blóm í haga og glitrandi fallegar veiðiár með silfurgjljáandi lax og silung, nýgengnum úr hafi til þess eins að fjölga kyni sínu, og leyfa mér að veiða sig....!
Er ekki sköpunin yndisleg.
3 ummæli:
Vel mælt kæri vinur.
Satt að segja....
....ég hefði ekki orðað það betur sjálfur! :)
Þetta með kulda, snjó og myrkur, er fyrir mér eitthvað óáþreifanlega rómantískt...
...eeen, ef Guð lofar, þá skal línan bleytt, flugan þeytt og kvikindið fangað!
Já þetta er sko alveg rétt hjá þér :) Mér finnst þetta voðalega kósý þegar veturinn kemur, með tilheyrandi kertaljósum og notalegheitum :) Gaman að þessu öllu saman :) :) Hafðu það laaaaaangbest besti pabbi :) þín Eygló
Skrifa ummæli