Það er þessi kyrrð og þessi afslappaða stemning þegar maður getur gleymt bæði stað og stund í dýrðinni sem gerir sveitarómantíkina svo ánægjulega. Engir reykspúandi bílar, gjallandi umferðarniður eða truflandi áreiti allsstaðar, sjónvarp eða aðrir glymskrattar. Maður gleymir meira að segja að eltast við að hlusta á fréttir og jafnvel að hringja áríðandi símtal eins og búið var að semja um. Hugurinn verður fanginn af því að fylgjast með Maríuerlunni fóðra ungana sína og hlusta á Lóuna og aðra mófugla hefja upp róminn í ægifallegri sinfóníu hver í kapp við annan. Þetta er hreinræktuð ánægja og lífsnautn að upplifa. Það gerist samt ekki fyrr en nálægðin við sköpunina nær að fanga hugann nægilega til að augun opnist fyrir stórfenglegum margbreytileikanum sem í henni felst.
Hér ert þú auðvitað búinn að fatta að ég er að tala um bakgarðinn okkar í sveitarómantíkinni "utan ár" á Selfossi....!
Það er því með eftirvæntingu sem ég hugsa til sveitarinnar þar sem við ætlum von bráðar að búa. Ég held án gríns að staðsetning hússins okkar muni bjóða upp á þessa stemningu. Ég er þegar farinn að sjá fyrir mér göngutúrana mína og reykjavíkurmærinnar upp með ánni, með skóginn á aðra hönd, iðandi af lífi sem hressir sálina og gleður augað , og laxinn í ánni á hina. -- Góður bakgarður þetta.....!
Ný útskrifaður lögfræðingur úr lagadeild áður en við leggjum af stað.....!!!! Ætli megi ekki segja að leikhléi sé lokið og þetta sé upphaf seinni hálfleiks.
“Sjá veturinn er liðinn...rigningarnar um garð gengnar - á enda.... kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru”.
Vinir mínir og vandamenn! Þið verðið aufúsugestir í “Húsinu við ána”
1 ummæli:
Þetta er alveg hrikalega heillandi!! Hlakka svo til að koma í heimsókn til ykkar í "húsið við ána" Verður gaman fyrir stelpurnar að geta leikið sér úti í garðinum (þegar búið er að girða ;)
Þið eruð alveg frábær og ég samgleðst ykkur svooo innilega! Og þú ekkert smá duglegur að vera að klára BA í lögfræði!
Sjáumst!!
Skrifa ummæli