þriðjudagur, október 28, 2008

Tækifæri

Nú snýst öll umræðan um kreppu. Allir eru uppteknir af krepputali. Allir hafa skoðanir á „þeim“ sem ollu kreppunni. Þessum fáu köllum sem skuldsettu þjóðina með þvílíkum afleiðingum. Krepputalið snýst um tvo póla „Við“ og „þeir“ Ég skynja reiði fólks í garð „útrásarvíkinganna“ svokölluðu. Þeir tóku milljarðana að láni sem eru að sliga okkur núna..... Fíflin.

Það er samt skondið að hlusta á þetta. Því að flestir sem taka til máls þyrftu að taka sér spegil í hönd.... og skoða sjálfa sig. Staðreyndin er nefnilega sú að flestir dönsuðu stríðsdansinn með þeim. Milljarðarnir sem þeir tóku að láni voru nefnilega ekki bara í þeirra staupi. Margir milljarðar runnu í veski venjulegs almúgafólks sem hélt að það væri ríkt af því að það var auðvelt að fá í glasið. Landsmenn flestir staupuðu sig með þeim og tóku þátt í partíinu af lífs og sálar kröftum, út á krít. Og það var drukkið þangað til flaskan var þurr. Um það vitnar lífsstíll langt umfram efni. Nýir bílar allstaðar og flottu húsin út um allan bæ.

Nei timburmennirnir eru ekki bara útrásarvíkinganna. Þeir eru höfuðverkur margra um þessar mundir. Það er gott til þess að hugsa að timburmenn lagast. Líka þessir. Vandinn er að hugsa jákvætt og í lausnum. Kreppan ber nefnilega í sér mörg tækifæri. Ég get fullyrt að það eru fleiri viðskiptatækifæri núna en verið hafa í fjöldamörg ár. Það er líka upplagt að nota þessi tímamót til að breyta um lífsstíl. Hætta að drekka (kreppuvaldandi yfirdrætti og kortaskuldir) og taka upp heimilissiði sem hafa haldið gildi sínu um aldir. Hagsýni og nægjusemi ásamt guðhræðslu.... það er gróðavegur.

Og... hugsa í lausnum...hugsa í lausnum ...hugsa í lausnum.

Þegar þú ferð í brimbrettabrun og aldan kemur á móti þér geturðu annaðhvort gripið ölduna og látið hana bera þig að landi eða látið hana færa þig í kaf. Rístu upp úr vandamálunum og snúðu þeim í sigur, frekar en að láta þau kaffæra þig.

laugardagur, október 25, 2008

Föðursystir mín...

...Margrét Guðnadóttir lést í gær eftir langa baráttu við hvítblæði. Hún sýndi ótrúlegt æðruleysi í veikindum sínum, svo aðdáunarvert var.

Ég votta fjölskyldu og vinum, mínar dýpstu samúðarkveðjur.

þriðjudagur, október 21, 2008

Helgin...

...leið gríðarlega hratt. Við bræðurnir vorum við veiðar. Veiddum vel að vanda, lax og fugl. Veiðar eru afar hollt áhugamál sem endurnærir andann og sálina. Það er hressandi að vesenast um móa og mel í leit að bráð (mat). Kreppan og vandamál heimsins voru alveg víðsfjarri okkur. Þannig var líka um fuglana og fiskana og allt líf náttúrunnar. Kreppan er mannanna verk, byggð á hruni spilaborgar, falsettu sem allt snerist orðið um. Mammón í veldi sínu. Virðist fallvalt.
Lífið heldur áfram, ekkert hefur breyst....nema kerfið sem heldur peningavélinni gangandi.
Verst er að við og komandi kynslóðir þurfum að borga fylleríið.

Það var gott að koma heim eftir veiðarnar. Erlan hafði það notalegt heima á meðan, ein, en leiddist það ekki. Enda getur verið gott, og raunar nauðsynlegt, að vera stundum einn með sjálfum sér, þ.e. ef manni leiðist maður ekki.
Við erum að selja hornsófann okkar úr kofanum (myndir á Erlu bloggi). Ef þið vitið um einhvern sem vantar góðan svefn hornsófa, hringið í mig.

Lexor keyrir enn á fullu afli. Verkefnin hafa sum verið blásin af, en önnur komið í staðinn.
Það hlýtur að vera Guðs blessun þegar flestum vantar verkefni. Veturinn getur orðið strembinn, nema þetta haldi svona áfram....hver veit.

Njótið daganna..... þeir eru góðir, þrátt fyrir kreppu.

laugardagur, október 11, 2008

Var í veiði......!

Er að setja inn myndir og pistil á veiðivefinn.....

Komnar myndir........!

miðvikudagur, október 08, 2008

Kreppufjármál

Við Erla ætlum að fara af stað með lítinn hóp fólks gagngert til að ræða fjármál heimilisins. Til að byrja með verður þetta heima hjá okkur, ein kvöldstund. Við ætlum að fara í nokkur undirstöðuatriði varðandi fjármál, m.a. ætlum við skoða hvernig best er að stýra útgjöldum heimilisins. Við ætlum að ræða með hvaða hætti er best að grípa í taumana ef stefnir í óefni. Við munum skoða áætlanagerð í því sambandi.
Við munum benda á leiðir til verulegs sparnaðar án þess að skerða lífsgæði að neinu marki og skoða í leiðinni hversu neyslulán geta verið hættuleg fjölskyldunni. Við ætlum líka að skoða hvernig maður varðveitir sálartetrið okkar og barnanna okkar í gegnum fjármálalegar þrengingar.
Og síðast en ekki síst ætlum við að skoða hver er besti fjármálastjóri heimilisins (mjög lógískt atriði)
Til að gæta forvitnisvarna bið ég þá sem hafa áhuga á að vera með, að hringja í mig í síma 8212929 eða Erlu í síma 8218313. Nafnleyndar verður gætt.
Dagsetning er ekki alveg klár en þetta verður mjög fljótlega.

Njótið daganna, þeir eru þrátt fyrir allt góðir......

mánudagur, október 06, 2008

Þeir.....

....lokuðu allavega á viðskipti með bréf í bönkunum. Þetta var nú meiri dagurinn svo ekki sé meira sagt. Sýnist ég hafa haft rétta tilfinningu fyrir þessu í morgun..!
Nú gildir sem aldrei fyrr hið fornkveðna. "Guðhræðsla samfara nægjusemi er mikill gróðavegur"
Besta sem hægt er að gera nú er að halda ró sinni, spara, vera nægjusamur og njóta þess sem krepputíð hefur upp á að bjóða, blákalt.

Ef....

...ég væri forstjóri Kauphallarinnar myndi ég hafa hana lokaða í dag. Þetta verður svartur fjármálamánudagur sýnist mér.....!

sunnudagur, október 05, 2008

Erla Rakel Björnsdóttir...

...er fædd. Það var þreytt en yfir sig stolt og ánægð nýbökuð móðir sem hringdi áðan í okkur og tilkynnti nýjan fjölskyldumeðlim.
Ég er hér með orðinn sjöfaldur afi og tek við þeim titli með yfirmáta þakklæti í hjarta og óska nýbökuðu foreldrunum innilega til hamingju með litlu fallegu stúlkuna þeirra sem ber þetta fallega nafn.
Þetta tilkynnir hrærður afinn.........

Hér er komin mynd af litlu hamingjusömu fjölskyldunni.

Ég bið þeim ríkulegrar blessunar Guðs.

mánudagur, september 29, 2008

Fallvaltur auður

Svona eru heimsins gæði. Milljarðar gufa upp eins og vatnsdropi á sjóðheitri pönnu. Ástandið í heiminum (fjármála) er ótrúlegt. Íslenska fjármálakreppan ætlar að verða litríkari en maður hélt. Glitnir á hausinn, hvað næst? Kemst samt ekki hjá þeirri hugsun að ráðstöfun Seðlabankans gæti verið einn á túlann hans Jóns Ásgeirs með kveðju frá Dabba kóngi. Svona rétt til að minna á hver ræður. Jón Ásgeir tapar sennilega mest allra á þessu.
Pólitísk refskák held ég.

sunnudagur, september 21, 2008

Krepputal og fleira

Lífið heldur áfram hjá okkur hér við ána. Litir náttúrunnar bera vitni um árstíðina sem tók við af sumrinu. Haustið hér er fallegt. Græni liturinn er farinn að víkja fyrir gullnum og rauðum litum haustsins. Áin er í nokkrum ham núna enda mikið búið að rigna. Hún gleður alltaf augað, þótt hún skipti skapi.
Rigningin er góð, vatnið er blessun sem við gerum okkur ekki grein fyrir. Það opnaði svolítið fyrir mér augun að koma á skraufþurran stað eins og eyðimörkina Egyptaland og sjá hvað vatnið er ótrúlegur lífgjafi. Stundum finnst manni samt nóg um. Það væri sanngjarnara að blanda þessu svolítið meira, hrista saman veðrakerfin og senda þeim smá gusur suðureftir og fá sólarskammt í staðinn.

Dætur okkar Hrund og Arna eru að leggja land (loft) undir fót. Þær eru á leið til Toronto í Kanada. Þar er kristilegt mót sem þær ætla að dvelja á í vikutíma. Við Erla verðum með litlu dætur Örnu á meðan. Í Toronto eru miklar hræringar í gangi. Hlutir sem margir kristnir (þar á meðal ég) hafa sett spurningamerki við. Ég hef hinsvegar verið að skoða þessa hluti ásamt minni heittelskuðu. Við höfum færst nær einhverri niðurstöðu. Það er greinilega vakning meðal kristinna og nýir vindar blása. Sumt hef ég ekki skýringu á, annað er augljóst t.d. ljósdoppurnar á ljósmyndum, ég næ alls ekki hversvegna því er ekki hent út, heyri marga ennþá tala um þetta sem engla. Ætla ekki að setja á prent hvað mér finnst um það.
Allt um það þá virðist vera hræring í gangi sem er vel þess virði að skoða... vandlega. Kirkjumenning okkar er svo fastmótuð að það getur reynst mörgum erfitt að meðtaka nýja hluti. Þetta fellur sennilega undir dæmisögu Krists um vínið og belgina. Maður setur ekki nýtt vín á gamla belgi því þeir springa.... nýtt vín á nýja belgi segir ritningin...!
Það er svo kannski spurningamerki hver er nýr og hver er gamall belgur. Ég er allavega með belg, svo mikið er víst, þarf bara að finna út hversu mikið er farið að slá í hann.
....Hvað sem um þetta allt má segja hef ég slakað allmikið á handbremsunni, vitandi að Guð er auðvitað miklu stærri en ramminn sem ég hef smíðað kringum hann í huga mínum.

Kreppan margumtalaða sem öllu tröllríður þessa dagana hefur blessunarlega ekki komið mikið við okkur hér við ána. Okkar kreppuár eru vonandi að baki. Sú blessun hefur fallið mér í skaut að hafa nóg að gera, bæði í smíðunum og lögfræðinni. Lexor hefur ekki skort verkefni í einn dag og virðist af nógu að taka þrátt fyrir tal um annað. Sjáum hvað setur.

Ég heyrði útundan mér um daginn að þeir sem ekki tóku þátt í fylleríi þenslunnar séu ekki með krepputimburmenn núna. Fannst þetta athyglisverð setning og verð umhugsunar. Samt blasir við að þó fólk geti sjálfu sér um kennt þá eru sjálfskaparvítin ekkert betri en önnur víti.
Við hjónin höfum hugsað mikið um hvernig hægt sé að hjálpa fólki sem nú er spriklandi í hengingaról mammons. Gríðarleg fjölgun aðfararbeiðna liggja fyrir sýslumönnum og ljóst að fólk og fyrirtæki stefna mörg í gjaldþrot. Við höfum gengið í gegnum þennan dimma dal sem gjaldþrot er og tekið út refsinguna sem samfélagið leggur á mann í kjölfarið, að teljast annars flokks þegn sem ekki er treystandi og vera á svörtum lista lánastofnana. Við finnum því vel fyrir sársaukanum sem fólk engist í þessa dagana.
Ég veit að hvorki við eða einhverjir aðrir eigum einhverja skyndilausn sem bjargar öllu, en kannski eigum við í reynslubankanum innistæðu sem væri lag að taka út núna og leggja á borð fyrir þá sem þurfa á að halda. Það er hugsanlegt að koma megi í veg fyrir gjaldþrot ef nógu snemma er gripið inn í aðstæður. Eins þarf kannski að kenna sumum, ef gjaldþrot er óumflýjanlegt, að það er til líf eftir gjaldþrot.
Bara hugmynd.

Ætlum að skreppa aðeins austur á Föðurland á eftir......

laugardagur, ágúst 30, 2008

Nokkur orð í minningu mömmu

Það var bjartur morgunn með fyrirheit um góðan dag. Vindur lék í laufi trjánna í fallegum garði Vífilsstaða. Sólin reis í austri, þetta reyndist vera síðasta sólarupprásin í lífi móður minnar. Mamma átti orðið afkomendur á níunda tug. Allir vildu þeir svo gjarnan geta snúið við stundaglasi hennar sem tæmdist að Vífilsstöðum þennan morgun og fá að hafa hana lengur. En ekkert megnar að snúa við stundaglasi lífsins. Tíma okkar hér á jörð lýkur einn daginn og ekkert fær því breytt.

Eftir standa minningar. Minningar um „stóra“ konu sem fór frá okkur í litlum líkama. Konu sem gaf okkur allt sem hún átti, konu sem alltaf var skjöldur og hlíf, konu sem var okkur betri en best og stærri en stærst að innræti.
Konu sem sleit barnsskónum á vestfirskri grund varð síðan húsfrú og móðir átta barna í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Hún varð þetta stóra nafn “Mamma” sem leit á það sem æðsta hlutverk sitt að annast og umvefja.
Mamma var alltaf til staðar með vökul augu yfir velferð barna sinna. Klettur í hafi þegar gaf á bátinn. Lét sig alltaf varða um velferð annarra. Heillynd og sjálfri sér trú. Hreinskilin um menn og málefni og taldi sannleikann alltaf sagna bestan hvort sem undan sveið eða ekki.
Mamma lifði sínu trúarlífi á þann hátt að prédikun hennar situr eftir í hjörtum okkar sem eftir lifum. Prédikun sem sjaldnast var sett fram í orðum, heldur með verkum. Falslaus eins og dúfa en gat hvesst sig ef henni fannst hún eða börn hennar órétti beitt.

Mamma hafði aldrei góða sjón og síðustu árin var hún blind. Það breytti ekki þessu rótgróna innræti hennar eða móðurlegri umhyggju. Hún gerði alltaf eins og hún gat.
Líf hennar er okkur sem eftir lifum til eftirbreytni. Arfleifð hennar er okkar sómi.

Þegar sól rann þennan dag, var mamma farin í sína hinstu ferð. Þarna voru leiðarlok og við höfðum fengið tækifæri til að kveðja hana. Sólarlagið skartaði sínu fegursta og minnti okkur á að lífið heldur áfram og nýr dagur rís aftur að morgni.

Ég drúpi höfði í virðingu fyrir mömmu minni, þessari mikilfenglegu íslensku konu og er fullur þakklætis fyrir líf hennar.
Takk fyrir... mamma.

Minningargrein, birt í Mbl. 29 ágúst 2008

föstudagur, ágúst 15, 2008

Andlát

Mamma mín, ljúfust, lést í morgun.











Falslaus eins og dúfa, gegnheill karakter...........!
Stærsti örlagavaldur í lífi heillar ættar. Betri en best, stærri en stærst ....að innræti.

sunnudagur, júlí 27, 2008

Sem endranær....

....var helgin hlaðin skemmtilegheitum. Föstudeginum var varið í 6 ára afmæli elsta barnabarnsins okkar Daníu Rutar. Hún er því að fara í skóla í haust. Það er skrítið að hugsa til þess að eiga barnabörn sem eru að fara í skóla. Það er svo stutt síðan okkar dætur stigu fyrstu sporin sín í skóla. Við Erla vorum að rifja þetta upp í gærkvöldi, þá komin á Föðurlandið.


Við ákváðum að þeysast á fáknum austur í góða veðrinu. Það er alltaf jafngaman. Við vorum þar í nótt og nýttum svo daginn í dag í hjólatúr.


Fórum m.a í Skálholt, kíktum á minningarreitinn hans Jóns Arasonar þar sem hann var hálshöggvinn árið 1550 ásamt sonum sínum. Ég minntist þess að hafa skoðað þennan reit þegar ég var barn með pabba og mömmu þrátt fyrir að ferðalög hafi verið fátíð í þá daga.
Veðrið lék við okkur og við stoppuðum vítt og breitt. Við tókum ákvörðun um að fara hringinn á næsta ári, hjólandi. Það verður snilld. Lítill farangur, aðeins það nauðsynlegasta verður með í för. Gist í bændagistingum kringum landið. Þetta verður kannski 10 til 12 daga ferð. Verð að segja að ég hlakka strax til.

Vinna framundan og svo verslunarmannahelgi. Kofinn verður ekki íveruhæfur fyrir helgina. Það verður að hafa það. Við keyrum bara heim á kvöldin, ekki svo langt að fara, enda “hálfnuð í sveitina heima hjá okkur” eins og ein frænka mín komst svo skemmtilega að orði þegar við fluttum á Selfoss.

Húsið við ána hefur enn þetta gríðarlega aðdráttarafl á okkur. Við erum alltaf jafn ánægð hér og líður stórkostlega, enda ekki hægt annað.
Sólarlagið var stórkostlegt á Fitinni í gærkvöldi, vantaði myndavélina mína en tók nokkrar á símann minn. Ein komin á Flikr síðuna.....

sunnudagur, júlí 20, 2008

“Láttu mig bara í friði”

Ég átti hálfan dag í veiði í þverá í Fljótshlíð. Það er gaman að veiða þarna. Í gamla daga var aldrei lax í þverá, bara stöku staðbundinn urriði og einstöku sjóbirtingur á haustin. Núna er búið að rækta lax í ánni. Það er því svolítið skrítið að veiða lax þarna.
Ég setti í tvo laxa og náði báðum. Báðir nýrunnir, annar meira að segja lúsugur sem segir að hann hefur ekki verið lengur en tvo til þrjá daga í ánni.

Hansi kveikti svona í mér, hann fékk einn 18 pundara nokkrum dögum á undan. Mínir voru ca 6 punda, fínir matfiskar og gaman að veiða þá.


Ég ásamt Hlyn og Karlott vorum í Þórisvatni í síðustu viku. Þar var yndislegt að vera eins og fyrri daginn. Öræfin heilla mig. Íslensk eyðimörk en samt full af lífi. Ég saknaði vælsins í Himbrimanum. Það hefur verið árvisst við veiðar þarna að Himbriminn vælir í kyrrðinni á kvöldin og næturnar. Það er í mínum huga einhvernveginn tákn öræfanna, fjallavatna. Reyndar getur svanasöngur á heiðum haft sömu áhrif á mig.
Við veiddum mun minna en venjulega. Ég kenni því um að við vorum mánuði seinna á ferðinni en vant er. Gamall maður sem ég hitti einu sinni við þórisvatn, hafði stundað vatnið í áratugi sagði mér að veiðin væri best á vorin svo smá minnkaði hún fram á haust.
Fengum samt ágætis afla.
Við brugðum út af venjunni og kíktum í annað vatn, Fellsendavatn. Þar er silungurinn mun stærri og talsvert af honum. Ég veiddi einn þar nær 5 pundum. Gríðarlega sterkur og skemmtilegur fiskur. Alveg eins og veiðivatnasilungurinn, rauður á holdið og góður.

Fyrirsögnin að greininni þarfnast smá útskýringa. Þar sem ég var við veiðar í Þveránni kom kolvitlaus kría sem lét mig ekki í friði. Hún var svo viðskotsill að ég var í mestu vandræðum með hana, húfulaus og lítið hár til varnar.
Ég var marg búinn að reyna að reka hana frá mér án árangurs. Svo er ég að fara milli hylja og heyri að hún kemur hneggjandi aftan að mér svo ég lyfti stönginni upp... það small í stönginni og krían hrúgaðist niður við fæturnar á mér. Ég hafði hitt hana svona algerlega óvart. Ég fann til með greyinu hún var bara að verja ungviðið sitt, klappaði henni á kollinn og sagði við hana “æ fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að meiða þig, láttu mig bara í friði”
Kastaði svo í hylinn og leit svo á hana aftur, þá var hún flogin og ég sá á eftir henni í loftköstum hverfa í burtu. Ég sá hana ekki meir.....hún skildi mig.

Gærdagurinn var viðburðaríkur í Erlu armi fjölskyldunnar. Lítill drengur fæddist, Theodór Ísak Theuson. Thea mín, innilega til hamingju með frumburðinn og þið hin öll í fjölskyldunni með litla kútinn. Þar með eru Teddi og Kata komin í afa og ömmufélagið. Svo er það mikill heiður (talandi af reynslu) að fá nafna Teddi minn, til hamingju með það.
Það var líka gifting í fjölskyldunni. Snorri Sigtryggsson sonur Sirrýar giftist Ingu Huld sinni.
Þau giftu sig í Fríkirkjunni með pomp og prakt.
Til hamingju með daginn öll.

Við skruppum á Skagann eftir brúðkaup. Fórum hjólandi í góða veðrinu. Barbro og Siggi fóru svo með okkur í hjólatúr kringum Akrafjallið og svo rúntuðum við um bæinn. Þau tóku vel á móti okkur eins og alltaf. Vinátta okkar hjónanna spannar orðið yfir þrjátíu ár og hefur aldrei skugga borið á, vinátta sem stendur tímans tönn eru mikil verðmæti. Mér þykir óhemju vænt um þau.
Við vorum svo komin heim á öðrum tímanum í nótt, svolítið vindbarin eftir langan hjólatúr.... en þetta var góð ferð.

Dagurinn í dag er svo enn einn nýr náðardagur. Við verðum heima, eigum von á gestagangi, bara gaman.

mánudagur, júlí 07, 2008

Helgin

Eftir hlýtt veður um helgina var komin þoka á leiðinni heim í gær. Við vorum á Föðurlandi eins og fyrri daginn og ætluðum varla að hafa okkur af stað heim vegna blíðunnar. Enn er verið að reyna að pota verkinu áfram. Við Karlott bárum viðarvörn á nýja kofann og ég kláraði sperrurnar.
Við fengum fullt af heimsóknum. Alltaf gaman að fá gesti. Svo skruppum við Hlynur og Karlott upp í Fiská. Ætluðum að hrella þar vatnabúa sem reyndust síðan hrella okkur frekar. Ferðin var samt góð eins og öll útivera í íslenskri náttúru.

Tvær dætranna voru á móti í Kotinu. Við skruppum þangað eina kvöldstund. Það vakti athygli mína hversu fáa ég þekkti af viðstöddum. Nánast ekki sála úr Fíladelfíu, en fullt af fólki sem virtist hafa það eitt markmið að nálgast Guð og lofa hann. Það er kannski skrítið að segja það en mér þótti ánægjulegt að þekkja svona fáa, það segir mér bara að það eru hlutir að gerast hér á landinu okkar. Mér fannst þetta fara vel fram og ekkert sem stakk minn gamla pinnsa, annað en, full hávær tónlist. Segir kannski helst til um aldur minn.

Núna erum við að melta orð sem okkur voru færð. Orð sem kallast boðskapur eða þekkingarorð.
Það rétta er að taka svoleiðis og kryfja það með biblíuna og sannfæringu sína að vopni.
Við munum skoða þetta vandlega.

Ég þurfti reyndar að segja einum manni upp í morgun. Sá var nýráðinn en ég vissi að hann átti við vanda að etja. Honum finnst vodki góður, óhóflega góður. Honum var gert ljóst að hann yrði að stunda vinnuna 100% ef hann ætlaði að vinna hjá Lexor. Því stefna fyrirtækisins er gæði, gæði, gæði. Í morgun kom hann svo ekki til vinnu og því fór sem fór.

Við erum í fríi í dag hjónakornin. Sitjum hér í eldhúsinu. Erlan að lesa blöðin en ég að tölvast. Setti myndir teknar um helgina inn á Flickr síðuna ef einhver hefur áhuga á því.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Vinnuhelgi á Föðurlandi

Síðasta helgi var sannkölluð vinnuhelgi. Unnið var við húsið, festingar negldar, borið C-tox á viðinn, settar upp rólur fyrir yngstu meðlimina og rennibraut. Tré sótt til Hansa og söguð niður í eldivið svo nú er orðinn myndarlegur eldiviðarhlaði við gaflinn á salerniskofanum, eins og sjá má.

Ásamt ýmsu fleira gagnlegu.

Það er ekki ofsögum sagt að Fljótshlíðin sé falleg. Sérstaklega þegar maður á rætur sínar þar og spor.


Þrátt fyrir vinnu var helgin notaleg. Barnabörnin (Írisar) voru með og skreyttu tilveruna litum regnbogans. Þau glitra af lífi og fjöri og greinilegt að þau njóta sveitarinnar okkar í botn. Næstu helgi verða Örnudætur þarna í útilegu, Veðurstofan spáir algerri bongóblíðu þá, 20 - 25 gráðu hita og sól.


Ég hef grun um að þessi reitur eigi eftir að verða enn meiri paradís allri fjölskyldunni þegar fram í sækir.

Ekki síst barnabarnanna sem virðast njóta sín vel þarna.

Ég er geysilega ánægður með þennan reit sem foreldrar mínir gáfu mér fyrir u.þ.b. 20 árum síðan. þá var þetta bara tún og ógróinn sandur.

Það er stutt síðan, en mikil breyting. Við höfum plantað flest árin. græðlingar teknir hér og þar og stungið niður. Þeir eru orðnir að trjám sem skýla okkur og prýða annars snauðan jarðveginn.
Lítill kostnaður en.... góð uppskera.

miðvikudagur, júní 25, 2008

"Lífið er nú svona og svona...

...suður í henni vík", syngur mamma gjarnan þegar maður hittir hana. Það er satt, lífið er hverfult, svo mikið er víst.
Það er vont þegar fólk á besta aldri þarf að kveðja þetta líf. Sveitungi minn, Jón Ólafsson (Nonni á Kirkjulæk) lést í fyrrakvöld, allt of ungur. Krabbamein lagði hann. Hann var dugmikill og áberandi karakter sem fór gjarnan ótroðnar slóðir og framkvæmdi það sem honum datt í hug. Þetta er blóðtaka fyrir sveitina hans og erfitt fyrir marga að horfa upp á. Fjölskylduna mest.

Ég skrapp austur á Föðurland áðan. Fór með kamínu sem mér áskotnaðist nær gefins. Ég settist á veröndina og hugsaði til baka. Horfði yfir sveitina mína sem, þrátt fyrir áfall, heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Tjalds hjón með unga voru á vappi á lóðinni. Þau voru með sitt hvorn ungann að kenna þeim að finna ánamaðka. Merkilegt að sjá. Heyskapur í gangi á bæjunum og fólk á ferð í bílum sínum.
Þessi fallega sveit sem hefur fóstrað svo marga og séð á eftir svo mörgum. Hringekja sem ekkert er umkomið að hægja á. Hver nýr dagur í lífi manns, að kvöldi kominn, er þakkarefni. Einn dagur í viðbót sem manni er gefinn á þessu fagra landi.

Ég votta þeim sem nú syrgja, mína innilegustu samúð.

þriðjudagur, júní 17, 2008

"Birna...

Bjarnardóttir" átti síðasta færsla auðvitað að heita. Endaði með kúlu í stað deyfipílu. Það var ekki við þetta ráðið. Birnir eru ekki gæludýr og eins gott að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Annars áttum við afar notalegan og rólegan þjóðhátíðardag. Veðrið fallegt svo af bar og góðar heimsóknir á pallinn. Teddi og Kata ásamt Theu sátu með okkur og nutu sólar og kaffiveitinga á pallinum. Svo komu Rúnar og Júlíana í heimsókn. Þau voru á hraðferð svo þau stoppuðu stutt. Rúnar kom með kúlur sem ég hafði beðið hann um að renna fyrir mig. Ég ætla að nota þær í sófaborð sem ég ætla að smíða.
Daginn enduðum við Erlan mín með göngutúr upp með á, hinum megin brúar. Fegurðin meðfram ánni er engu lík, það eru forréttindi að búa hér á þessum stað.

Smellti nokkrum myndum, Það er kvöldsett, logn og hitastig hátt. Notalegt og rómantískt.

Hendi einni mynd hér inn að gamni.


Njótið daganna vinir.

Björn Bjarnarson

Það er mikill munur á aðstæðum núna eða um daginn þegar björninn var skotinn. Þá var þoka og björninn á ferð og auðvelt að missa sjónar á honum. Hann var miklu nær þéttri byggð. Hann var við veg þar sem m.a. hjólreiðafólk var á ferð. Það var fullt af fólki að þvælast þarna í kring. Hann var soltinn og sýndi viðbrögð á þann veg að hann hljóp að fólki sem kom of nálægt.


Þessi björn er aftur á móti saddur af eggjaáti og liggur á meltunni eins og dýr gera eftir át. Hann er fjarri þéttri mannabyggð. Hann er fjarri þjóðvegi og það er bjart yfir og auðvelt að fylgjast með ferðum hans, ef hann fer eitthvað af stað.
Hvítabirnir eru alfriðuð dýr og í útrýmingarhættu. Ég er því mjög hlynntur þessum aðgerðum núna að reyna að fanga hann í stað þess að skjóta.

Ég áttaði mig samt ekki alveg á fréttinni um að erfitt gæti verið að flytja hann til síns heima vegna reglna um flutning dýra yfir landamæri, þess í stað yrði hann líklega fluttur í dýragarðinn í Kaupmannahöfn....!!!! Hver skilur svona?

Ég var líka hissa á fréttum um að 16 hvítabirnir hefðu heimsótt okkur á síðastliðnum 30 árum. Ég man ekki eftir svo mörgum! En hvað um það, það verður gaman að fylgjast með aðgerðinni.
Vildi helst að ég væri þáttakandi í þessu.

sunnudagur, júní 15, 2008

Útskrift HR

Það var hátíðarstund í gær í Vodafone höllinni að Hlíðarenda. Háskólinn í Reykjavík var að útskrifa nemendur sína á ýmsum sviðum. Skólafélagar mínir úr lagadeild sem héldu strax áfram með masterinn stóðu þarna útskrifaðir með mastersgráðuna sína. Flott hjá þeim. Ég var hins vegar ekki viðstaddur þarna þess vegna.

Ástæða veru minnar þarna var Íris dóttir mín. Hún var að útskrifast með BA gráðu í lögfræði. Það var skrítið að horfa á stelpuna sína ganga fram og taka við prófskírteini í lögfræði. Föðurleg ánægja bærðist í brjósti mínu og stolt yfir þessum árangri hennar.
Hún hefur sýnt fádæma elju og dugnað við námið, með tvær litlar dætur fyrri hlutann og meðgöngu og lítinn strák að auki seinni hlutann. Þetta virðist ekki hafa komið niður á einkunnum hennar sem voru henni til sóma. Tók gamla í nefið.

Ég verð að geta þess hér, Karlott til hróss, að hann á gríðarlega stóran hluta í þessu öllu saman, því án skilnings og hjálpar hans hefði þetta aldrei gengið upp. Ég hef dáðst að þeim hjónunum, og verið ánægður með, hvernig þau hafa staðið saman að þessu eins og ein manneskja. Það verður gaman að sjá þau uppskera eljuna síðar meir. Í framhaldi af útskriftinni var flott veisla heima hjá þeim. Þar komum við saman fólkið hennar og fögnuðum með henni.
Innilegar hamingjuóskir elskurnar mínar, þetta er glæsilegt, ykkur til sóma.

Systursonur minn, Maggi, hennar Gerðu, var líka að útskrifast með BA í lögfræði. Ég átti því líka stolta systur í Hlíðarendanum í gær. Til hamingju með áfangann, þetta er flott.
Það fer að verða varasamt að bögga okkur fjölskylduna sýnist mér........

Við fórum svo austur í gærkvöldi til að fagna með Christinu sem var að útskrifast sem kennari úr kennaraháskólanum. Henni gekk mjög vel, með fínar einkunnir. Sérstaklega flott einkunnin fyrir lokaritgerðina 10.0 varla hægt að gera betur! Til hamingju með flottan árangur.
Gylfi hélt fyrir hana þessa fínu veislu í skálanum sem hún vissi ekkert um. Gaman að svoleiðis, tala af reynslu.
Vorum svo í kofanum í nótt. Heiðar og Sigrún kíktu á okkur í gærkvöld, áttum notalegt spjall frameftir með þeim.

Góð helgi að baki. Hlakka til vikunnar framundan........