Ákveðin þróun er í gangi hér á landi sem sennilega verður ekki stoppuð.
Gjáin milli fátækra og ríkra er að stækka. Afhverju er þessu svona misskipt. Við opnum ekki svo fjölmiðil öðruvísi en að fregna um útþenslu fjármagnseigenda. Hvaðan fá þeir peningana? Þeir blása út eins og blöðrur sem blásið er í meðan skuldarar krumpast saman eins og blöðrur sem hleypt er úr. Ástæðan er auðvitað ofureinföld. Fjármagnið flyst stöðuglega frá skuldurum til fjármagnseigenda. Annar hópurinn borgar vexti en hinn þiggur vexti. Þetta er bara eins og tveir vatnstankar, úr öðrum þeirra rennur stöðuglega yfir í hinn. Allir sjá auðvitað hvað þá gerist. Munurinn verður meiri og meiri dag frá degi. Árlega skipta milljarðarnir um vasa með þessum ósýnilega og lúmska hætti. Ekki er nóg með að fólk þurfi að taka sér lán fyrir ýmsum nauðsynjum hjá þeim sem eiga fé heldur dynja látlaust hvatningarnar og gylliboðin um allskyns lánakjör fyrir hinu og þessu sem fólki er talið trú um að sé nauðsyn. Þessi markaðssetning á fjármagni er svo lúmsk og óvægin að langflestir spila með. Bakvið allt þetta er hinn óseðjandi hvoftur mikils sem vill meira. Þetta er heilaþvottur af verstu gerð og óhollt fyrir ungt fólk að alast upp við þetta. Allstaðar er kroppað í budduna.
Ég skil ekki hversvegna ekki er kennt í skólum hvernig fara á með peninga. Innprentun alveg frá grunnskóla og upp úr. Fag sem myndi festa þessi einföldu sannindi inn í kollinn á börnunum að græddur er geymdur eyrir og gera þeim ljóst hvað það kostar mikið að skulda.
Algengt er að krakkar uppúr tvítugu séu orðnir svo skuldsettir að varla er von um að þeir haldi sjó og vísast að þeir lenda fyrr en síðar í gjaldþroti.
Þetta er hörmuleg staðreynd.
Eina leiðin til að stoppa eða hægja á þessari þróun er að gera þeim sem núna eru að vaxa úr grasi grein fyrir þessu og fólk hætti að taka þátt í þessari gengdarlausu neyslu og endalausu lántökum. Að öðrum kosti verður hér mikill stéttamunur. Gríðarlegt ríkidæmi og sárasta fátækt. Þetta er rétt handan hornsins og sér þess þegar merki.
Meðan þetta er ekki kennt í skólum er besta forvörnin að við kennum börnunum okkar þetta sjálf. Takið þau reglulega í kennslustund, varið þau við og verið fyrirmyndin sem þau þurfa. Það getur orðið of seint að byrgja brunninn seinna. Þau munu þakka ykkur það síðar.
Njótið aðventunnar áfram.
2 ummæli:
Mér líst ekki á þetta Erling, en staðreyndin er sú að ég er að verða oftar sammála þér. :)
Mikið er ég sammála þér kæri pabbi! Þetta er alveg með ólíkindum hvað hægt er að taka lán fyrir nú til dags og margir sem falla fyrir því.
Ég get talið mig svo lánsama að mér var kennt að fara með peninga og mun kenna mínum börnum það einnig!! Vonandi gefur Guð mér næga visku til að gera það vel!!
Kveðja úr Hafnarfirðinum
Íris E
Skrifa ummæli