sunnudagur, febrúar 27, 2005

Ekki riðið við einteyming....

Forsætisráðherra virðist ekkert ráða við flokksmenn sína. Ekki er langt síðan hann lýsti sig andvígan inngöngu í ESB og kallaði það nýlenduveldi (ég var sammála því)
Gengur hann og þessi fjarandi flokkur hans ekki á öllum? Hvernig dettur mönnum í hug að rugga bátnum með jafneldfimu máli og innganga Íslands í ESB er, þegar öldurnar eru þegar við það að sökkva bátnum.
Fyrir svo utan það hvað innganga í sambandið hefur ótrúlegar afleiðingar fyrir okkur öll.
Endemis....
Nóg er ég búinn að læra um Evrópurétt til að vita að við verðum eitt agnarlítið peð sem ekkert vægi hefur við ákvarðanir og lagasetningar sambandsins.
Lög ESB ganga framar lögum aðildarríkjanna og hver einasta reglugerð sem Ráðið setur gengur sjálfkrafa inn í landsréttinn og víkur honum til hliðar ef hann stangast á við nýja reglugerð eða tilskipun. Ef sambandinu dettur í hug á síðari stigum að betra sé að breyta hugsanlegum inngöngusamningi okkar t.d hvað varðar fiskveiðar og aðrar náttúruauðlindir á þann veg að öll aðildarríkin eigi jafnan aðgang að þessum auðlindum okkar, þá höfum við einfaldlega ekkert um það að segja því við verðum ekki fullvalda lengur. Samningar eru nefnilega þess eðlis að þeir eru ekki eilífir. Það er hægt að segja þeim upp, rifta þeim eða breyta - eða einfaldlega setja ný lög á þá.
Og það verður einhliða í þessu tilfelli.
Miklu nær væri að útfæra EES samninginn betur að sambandinu og víkka gildissvið hans, því þar höfum allavega svolitla flóðgarða til varnar litla landinu okkar, þó þeir séu lekir. EES samningurinn hleypir okkur að innri mörkuðum ESB án þess að við afsölum okkar fullveldinu og einkarétti okkar t.d til fiskveiða og landbúnaðar.
Við búum við svokallaðan dualisma hér sem þýðir að engir þjóðréttarsamningar taka gildi fyrr en við höfum innleitt þá í landsrétt. Það þýðir að Alþingi íslendinga verður að fjalla um málið og samþykkja þá sem lög áður en kemur að gildistöku. Þetta er hálmstráið sem við verðum að halda í. Reyndar er EES samningurinn ekki venjulegur þjóðréttarsamningur þar sem okkur ber að túlka lögin okkar í samræmi við ESB reglugerðir. Við höfum samt ekki afsalað fullveldinu með aðild að EES en þjóðir sem ganga í ESB afsala fullveldinu til sambandsins. Meira að segja stóru ríkin eins og Þýskaland o.fl. eru ekki fullvalda ríki.
Ég lýsi frati á inngöngu í ESB

4 ummæli:

Íris sagði...

Rosalega er ég sammála þér!! Alveg fáránleg hugmynd að ætla að afsala okkur fullveldinu!! Bara sí svona!
Algjör hneisa!!

Nafnlaus sagði...

Vá hvað þetta er rétt.. Ógeðslega flott og málefnanleg grein! Ættir að senda hana inn í Moggann!! Þú ert snillingur!! Lov U, þín dóttir Eygló

Nafnlaus sagði...

Það eru afar skiptar skoðanir um aðild okkar í ESB innan framsókn sem og annara flokka. Persónulega er ég afar ósammála allri umræðu um inngöngu okkar í ESB. Ég get ekki hugsað mér þá endaleysu. Þar er ég sammála Steingrími Hermannssyni sem sagði í sinni ræðu í morgun að við hefðum efni á að vera frjáls og sjálfstæð og ættum að nýta okkur þá frelsi. Ég er einn af þeim sem vill leggja mig hundrað % fram við að stöðva allar vangaveltur um inngöngu í ESB. Og ekki veitir af. Erling minn, á ég ekki að skrá þig í flokkinn þannig að þú getir aðstoðað okkur við það.

Erling.... sagði...

"Ég verð bara að segja það" Ég var sammála Steingrími gamla. "Vita menn hvað þeir eru að álpast útí"

Ég er ekki sannfærður Teddi minn um að flokkurinn hefði gott af nærveru minni. Er ekki einn Kristinn H.G. nóg :-)