föstudagur, apríl 29, 2005

Hér ranglar köttur

um húsið eins og gömul fyllibytta.
Ég er heima að passa köttinn. Hún kemur hér fram annað slagið og slagar og ranglar til beggja hliða. Ekki fallegt að finnast þetta fyndið, en get samt ekki að því gert, það er brjálæðislega fyndið að sjá hana. Hún var að koma úr aðgerð greyið. Við viljum ekki að hún eignist kettlinga svo hún fór í ófrjósemisaðgerð, svæfð og skorin upp.
Ekki svo gott á hana, en svona er lífið stundum, ekki eintóm sæla.
Annars myndi ég segja að hún hafi það bara verulega gott hérna hjá okkur. Ekki þarf hún að taka til eða vaska upp, ekki raða í uppþvottavélina. Ekki þarf hún heldur að hafa fjárhagsáhyggjur, hvað þá að veiða í matinn. Það er allt lagt upp í hendurnar á henni. Eina sem hún þarf að gera er að lötra sér inn i þvottahús og fá sér eitthvað gott í gogginn og leggja sig svo á eftir, og bíða eftir að verða aftur svöng...!
Það er sældarlíf að vera köttur...
heima hjá okkur allavega.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Hún Íris elsta dóttir mín...

Sumir segja að við séum lík. Blessað barnið getur ekkert að því gert. Hún ætlar að feta í fótspor föður síns. Hún var að fá svar við umsókn sinni um skólavist í Háskólanum í Reykjavík. Svarið var jákvætt, ég átti reyndar ekki von á öðru, ekki voru slælegar einkunni að flækjast fyrir henni allavega. Hún er að byrja í lögfræði í haust.
Ég ætla ekki að reyna að þræta fyrir hvað ég er ánægður með þetta. Ekki síst að hún skuli velja sama fag og gamli....!
Þetta kemur sér vel síðar þegar ég þarf að spyrja út í eitthvað sem ég gat ekki lært.

Til hamingju með þetta Íris mín.

Ég er í skólanum núna á kafi í verkefni, sem stendur yfir í þrjár vikur eða til 13. maí. Þá verður þessari önn endanlega lokið. Ekki verður gefin einkunn fyrir þetta öðruvísi en "staðið" eða "fallið". Hlýt að hrista það af mér. Eftir það verður komið sumar og vinna tekur við ásamt fríi og ferðalögum.
Hlakka verulega til sumarsins. Mest þó vegna samvistanna við fjölskylduna mína sem verða meiri og dýpri en þegar ég er á kafi í skruddunum.

Njótið daganna vinir.

sunnudagur, apríl 24, 2005

Dáyndis helgin

Við Erla áttum góða helgi. Á föstudagskvöldið eftir síðasta prófið skruppum við austur í sveitir. Stefnan var tekin á hótel Rangá til að halda upp á prófalok. Skemmtilegt og óvenjulegt hótel. Þegar þangað kom var tekið á móti okkur á óvenjulega notalegan hátt, veit ekki alveg afhverju en það var líkast því að við værum kóngurinn og drottningin. Dekrað við okkur. Stórskemmtilegt. Við nutum þarna góðrar fjögurra rétta máltíðar, lamb matreitt á þrjá vegu og eftirréttur á eftir. Kokkurinn þarna er góður og tókst það sem aðeins góðum kokkum tekst, að gefa matnum nýjan tón með tilbrigðum sínum. Það er alltaf skemmtilegt þegar þannig tekst til og hráefnið notað með þeim hætti að það gefur nýja upplifun. Eftir kitlun bragðlaukanna fórum við í heitan nuddpott sem var rétt fyrir utan herbergið okkar. Þar sátum við góða stund og horfðum á Rangána liðast hljóðlega milli bakka og nutum sinfóníu farfuglanna, sem nú er hafin á þessum slóðum og ég þekki svo vel frá gamalli tíð. Það var einstaklega notalegt og rómantískt.
Eftir síðbúinn morgunverð héldum við svo áfram austur. Nú var stefnan á Fitina. Þar hittum við fyrst Hlyn í nýja sumarbústaðnum sínum. Hörkufínt hús úr harðviði sem aldrei mun fúna. Til hamingju með það Hlynur og Gerður.
Svo fór að við heimsóttum öll systkyni mín sem eru með hús á Fitinni. Það var gaman að hitta fólkið sitt á svona fallegum degi og teygja svolítið úr sér prófstreituna í blíðunni sem þarna var.
Í lok dagsins dóluðum við okkur í bæinn í rólegheitum og enduðum daginn með heimsókn til vina okkar Tedda og Kötu, þar sátum við fram á nótt og spjölluðum um heimsins gagn og nauðsynjar.
Í dag sunnudag hélt svo þetta stresslausa líf okkar áfram, með heimsókn til mömmu á Vífilsstaði, og síðan til Ellu og Bigga en þau voru að koma frá Danmörku.

Góð helgi við rækt hjóna- og fjölskyldubanda.

föstudagur, apríl 22, 2005

“Dolus eventualis”.

Fjallaðu ýtarlega um hugtakið, var síðasta spurning vetrarins.

Ég er frjáls eins og fuglinn...... flogið næstum ég gæti........!
Er að leggja af stað í ferðalag austur í Rangárvallasýslu ásamt minni stórkostlegu konu.
Góða helgi vinir.

ssssssssssssssssssssss........ Þetta er bara loftið, það er enn að streyma úr blöðrunni

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Gleðilegt sumar gott fólk...!

Það heilsar fallega. Það er hlýtt, skýjað en vorlegt. Ég tók eftir því í gær að gróðurinn er farinn að gægjast upp úr moldinni og brumin á trjánum farin að teygja úr sér eftir langan vetrarsvefn. Það kveikir alltaf í mér að sjá vorið læðast í garð. Í mig kemur alltaf einhver fiðringur, sem er einhverskonar blanda af tilhlökkun, viðkvæmni og gleði. Eins og strokið sé yfir fiðlustreng á ljúfu nótunum.

Ég hef setið yfir refsiréttinum í morgun. Ég þarf svolítið að beita mig hörðu til að fara ekki frekar út í vorið og njóta þessara gæða sem það býður upp á.
Þessari törn fer að ljúka Ég held að elskuleg konan mín sem hefur ekki séð mikið af sínum manni undanfarið, verði fegin. Eeeh... ég vona það allavega.
Ætla að gera eitthvað skemmtilegt fyrir hana þegar þetta er búið. Hún á mikinn heiður skilinn fyrir þolinmæðina og stuðninginn. Hörkudugleg konan sú. Hún er á fullu í “líkami fyrir lífið” átaki. Það er sniðugt líkamsræktar kerfi. Man ekki eftir að hafa fyrr séð hana jafn ákveðna í að ná árangri og nú.
Gangi þér þetta vel Erla mín.
Þetta er orðin ágætis pása og ekki til setunnar boðið lengur.
.....áfram með lesturinn gói minn.

mánudagur, apríl 18, 2005

Var í maraþonprófi

í stjórnsýslurétti í morgun. Fjórir klukkutímar sem liðu eins og örskot. Prófið var þannig byggt upp að um var að ræða þrjú raunhæf verkefni. Að mínu mati eru fjórar klukkustundir of stuttur tími til að leysa svona, eða ég skrifa of hægt.
Sat eftir með stirða hönd eftir stanslaus skrif.
Er sestur niður með refsiréttinn sem er síðasta prófið þetta vorið en það verður á föstudaginn næsta. Eftir það er eitt fag eftir sem verður fram í miðjan maí. Það er raunhæft hópverkefni
(sjö í hóp) sem snýst um að gera margflókinn viðskiptasamning um hugverkaréttindi sem síðan verður kærður og í framhaldinu hefjast málaferli fyrir héraðsdómi. Við sem sagt hvort tveggja kærum málið og flytjum það fyrir héraðsdómi og síðan dæmum við það einnig. Þetta er gert eins raunverulegt og hægt er með því að gera þetta í alvöru dómsal, skikkjuklædd og alles. Verðum í hlutverki lögmannsins og dómarans.

Jæja, ég ætla að halda áfram refsilestrinum.
Er annars ekki komið vor þarna úti hjá ykkur?

Einn sem losnar bráðum út

sunnudagur, apríl 17, 2005

Hver var hvatinn...?

Hef ekki skilning á því hvers vegna nýja vefsíðan kirkjunnar “minnar” http://www.gospel.is/ er miklu lélegri en sú gamla. Hver var ástæða breytinganna, fyrst hún var ekki til batnaðar? Ég hélt í einfeldni minni að nú ætti að gera hana "pró" eins og sagt er. En það er af og frá.
Hún myndi strax skána við prófarkalestur, en samt standa þeirri gömlu langt að baki.
Hver er þessi "Design EuropA" sem skrifar sig fyrir hönnun síðunnar?
Bara forvitni.
Ekki að mér komi það við.

laugardagur, apríl 16, 2005

Kostar eina tölu...

Eða það hélt hún konan? Fékk athyglisvert símtal. Kannski ekki svo athyglisvert heldur skondið. Símtalið var frá kosningaskrifstofu Össurar Skarphéðinssonar. Spurt var hvort ég væri til í að svara nokkrum spurningum, sem var allt í lagi. Ég var bara að keyra heim hvort sem var. Spurningarnar voru bara tvær. “Hvort kýstu Össur eða
Ingibjörgu”..? Ég sagðist hvorugt kjósa því ég væri ekki í flokknum, en myndi aldrei kjósa Ingibjörgu ef því væri að skipta. Þá kom næsta spurning, greinilega byggð á réttri afstöðu minni til Ingibjargar: “Má þá nokkuð biðja þig um að leggja okkur lið og ganga í flokkinn”....[!]
Ég hugsaði: Nei svo billegur er ég nú ekki, svo svarið var stutt og laggott “nei takk” og ekkert meira. Blessuð konan átti greinilega ekki von á svona stuttu svari og beið eftir einhverri viðbót sem kom ekki. Loks læddi hún því út úr sér að hún yrði þá bara að virða þetta svar. Ég sagði kurteislega “já takk” og svo kvaddi hún.

Veiðimaðurinn í mér kann ekki við svona veiðar, Þessi veiðiskapur heitir plott og sökum eigin reynslu af slíku þykknar í mér þegar ég verð var við þann hátt. Reyndar hefur lið Ingibjargar sama háttinn á.

Var reyndar bent á kosningasíðu Ingibjargar um daginn og er það hin ótrúlegasta lesning..... eða heilaþvottur öllu frekar, sjáðu sjálf(ur): http://www.ingibjorgsolrun.is/?i=5 Ég verð að segja að ég kann ekki við svona guðlegt lof á einstaklinga sem ekkert hafa til þess unnið, nema síður sé.

Það besta sem gæti hent, væri að Samfylkingin klofnaði við þennan sandkassaleik þeirra, þá er minni hætta á að hún komist til valda sem myndi þýða inngöngu í ESB,
hvaða hugsandi maður vill það?

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Ekki ofsögum sagt....

um Evrópu(fjallið)réttinn!......50% fall í fyrra.
Var í munnlegu prófi í Evópurétti í gær. Það skal viðurkennast hér að ég hefði átt að geta betur eftir mesta lestrarmaraþon ævi minnar. Mikilvæg atriði urðu gleymskupúkanum að bráð og voru ekki nefnd til sögunnar.
Þetta er ótrúlegt fag. Magn lesefnis með miklum ólíkindum, risabákn. Svo dregur maður eina spurningu einhversstaðar innan úr miðju fjallinu, og vesgú spjalla um það atriði í kortér.
Það gefur auga leið hvað þetta getur verið ósanngjörn leið til að kanna þekkingu á svona stóru fagi. Veltur mikið á heppni, hvaða spurning er dregin. Ætli þetta sé ekki brot á jafnræðisregunni? Tæpast þó, það sitja allir við sama borð. Það væri nú samt skondið hjá sjálfri lagadeild HR.
En ekki þýðir að gráta Björn bónda sagði konan. Er sokkinn í lestur á stjórnsýslurétti og ætla ekki að hugsa meira um evrópufjallið í bili.
Eigið góðan dag.

föstudagur, apríl 08, 2005

Hlustaði á Guðsmennina....

Gunnar Þorsteinsson og Bjarna Karlsson í sjónvarpinu í gærkvöldi. Þeir voru að ræða samkynhneigð. Þeir öttu kappi. Þeir komu að mínu mati báðir illa út úr þessu viðtali. Gunnar barði á þessu fólki með ritningunum og Bjarni setti sig útí kant hinum megin og samþykkti allar gjörðir þeirra og kallaði þetta allt fallegt og göfugt.

Einhversstaðar mitt á milli þessara tveggja trúi ég að Jesú hefði staðsett sig. Ég held að hann hefði ekki meitt menn eins og Gunnar gerir og heldur ekki blessað gjörðir þeirra eins og Bjarni gerir.

Hvers á fólk að gjalda sem fæðist inn í þennan heim með þessar kenndir? Á þetta fólk kannski eitthvað sameiginlegt með samversku konunni sem farísearnir og fræðimennirnir ætluðu að grýta. Var hún ekki í einhverjum vandræðum með sjálfa sig? Kristur reit í sandinn eitthvað sem fékk alla viðstadda til að láta steininn detta dauðan á jörðina og hverfa á braut, öldungarnir fyrstir. Það væri fróðlegt að sjá hvað gerðist ef hann sæti meðal Guðsmanna í dag sem ræddu um samkynhneigð í sjónvarpi.
Kannski yrði innleggið eitthvað í sömu ætt. Kannski myndi hann minna á hver skapaði hommana og lesbíurnar sem bera með sér karl – eða kven hormóna í brengluðum hlutföllum. Karl sem hefði átt að verða kona m.v. litninga og kona sem hefði átt að verða karl miðað við litningana sem hana gista. Kannski myndu þeir lesa (skrifað í sandinn), eigin lesti, syndir eða mistök, “eigin allt” sem ekki samræmist orðum ritningarinnar.

Ef einhver hnussar við mér hér vil ég benda honum á að það fæðist fólk með kynfæri bæði karls og konu [ ! ].... líka litningarugl. Hvað á þetta fólk að gera? Oftast ákveða læknar hvaða kyn það verður, og laga það sem þarf óháð kenndum fólksins þegar það vex úr grasi. Er mögulegt að læknirinn velji rangt kyn?
Ekki gleyma að þetta fólk er til – líka hér á Íslandi.

Þátturinn var til umræðu við kaffiborð á vinnustað einum í dag (sennilega ekki þeim eina) Þar féllu orð sem ég meiddi mig á þegar ég heyrði þau höfð eftir. “Gunnar er ekkert að afhomma, hann aftrúar fólk”.

Ég hjó líka eftir einni setningu í þættinum sem Bjarni sagði að mínu mati of glaðhlakkalega, en hún byrjaði svona: Það er að koma “ný þýðing” afar vönduð, sem segir “drengja” í stað “karlmanna”.....og allt í einu fann hann þar nýja meiningu eða nýja túlkun!!!!
Þessi setning undirstrikaði þankaganginn minn sem ég deildi með ykkur um daginn, hér neðar á síðunni, um bókstafstrú. Þýðingarnar breytast.
Gunnar sagðist trúa allri biblíunni, en hvaða þýðingu?
Þetta er flókið mál, það verður að viðurkennast.
Hvað er varanlegt?

“En nú varir trú von og kærleikur, og þeirra er kærleikurinn mestur”
Ætli það sé ekki stóra málið.

Bensínið enn.......

Líklega hefur mér orðið að ósk minni í síðasta pistli, með Samkeppnisstofnun.
Það vakti óskipta athygli mína þegar stóru olíufélögin hækkuðu verðið hjá sér aftur eftir ótrúlega stutta en hraustlega lækkun.
Þeir láta hafa eftir sér ýmsar ástæður fyrir skyndilegri hækkun aftur. Ein þeirra er að heimsmarkaðsverð sé orðið svo hátt (habblaha! Á tveimur dögum?) önnur ástæða sem þeir nefna er markaðsaðstæður hér heima (já alveg rétt þeir búa í réttarríki).
Mesta trú hef ég á því að þeir hafi fengið hraustlega á lúðurinn frá Samkeppnisstofnun og haft vit á að laga þetta hið snarasta. Þetta sem þeir reyndu, er kallað “skaðleg undirverðlagning” á lögfræðimáli.

Hvað sem öðru líður kaupi ég ekki uppgefin rök þeirra fyrir þessari skyndilegu hækkun aftur.

Lifi sprotinn.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Bensínið......

Ég hef ákveðið að halda tryggð við Atlantsolíu þó verðið sé nú dýrast hjá þeim þessa stundina.
Ástæða þess er sú rótfasta skoðun mín að þetta litla félag er valdur þess að bensínverð er ekki hærra nú en það er. Atlantsolía er ekki að lækka verðið núna eins og hinir. Ástæðan er ekki ýkja flókin. Þeir hafa ekki efni á því, þeir eru svo litlir að þeir verða að fá einhverja álagningu á hvern lítra sem þeir selja. Nú reynir á neytendur.

Hin félögin öll eiga nóg af peningum eftir áralangan vel skipulagðan þjófnað og misnotkun á okkur neytendum og láta sér ekki muna um að borga með lítranum tímabundið ef vera mætti að það gæti orðið til að litla félagið legði upp laupana – eða yrði til sölu þegar reksturinn þyngdist. Gleymum ekki að stolnu milljarðarnir liggja enn inni á sjóðum félaganna og upplagt að eyða smá hluta af þeim í þetta.
Þetta er þekkt aðferðafræði á markaði þegar ráðandi fyrirtæki vilja minnka eða drepa samkeppni. Þau treysta á að kúnnarnir elti krónurnar sem þeir niðurgreiða, oftast tímabundið eða þangað til Lilli litli gefst upp.
Ég vona að Samkeppnisstofnun grípi í taumana nú og kanni innkaupsverð vs. söluverð, en Atlantsolía fullyrðir að félögin greiði með lítranum ídag – ég trúi þeim.
Ef það er reyndin þá eru þeir enn að brjóta samkeppnislög.
Enginn skyldi gleyma því að Orkan er Skeljungur, ÓB er Olís og Ego er ESSÓ. Þetta eru bara dótturfélög ætluð til að slá ryki í augu neytenda.

Virk samkeppni á bensínmarkaði verður ekki tryggð nema neytendur horfi í gegnum svona fléttur risanna og passi uppá nýja sprotann, hann þarf að nærast til að vaxa. Það verður hollara buddunni til lengri tíma litið. Ekki spara aurinn í dag til að kasta krónunni síðar.
Ég segi nei takk við þjófana - kurteislaga, með því að versla ekki við þá.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Skrapp aðeins út í göngutúr áðan.

Það er gott að komast aðeins út. Veðrið er kalt, það er norðangjóstur (von á stormi) Ég fékk hálfgerða nostalgíu þegar frostið og snjófjúkið beit mig í kinnarnar. Það var nefnilega þannig á mínum bernskuárum að það var mikið labbað. Við krakkarnir löbbuðum alltaf í skólann, þá gilti einu hvernig viðraði, stundum var ofboðslega kalt. Það poppaði upp minning um óveðursdag einn sem við vorum í skólanum. Veðrið var svo vont að við máttum ekki fara heim enda heill kílómetri heim. Það var norðanáhlaup frost og bylur. Ég veit ekki hvort var ófært eða hvort það tíðkaðist bara ekki að sækja börn í skólann, akandi. Nema hvað, eftir langa bið í skólanum kom maður af næsta bæ að sækja okkur......gangandi. Við gengum síðan heim hönd í hönd í einni halarófu, hann fyrstur og síðan við börnin. Það sá ekki út úr augunum.
Mér er enn minnisstætt hvað það var kalt. Einmitt hvernig það beit í andlitið, frostið og fjúkið.
Ég fékk soðna mjólk að drekka þegar ég kom heim, hún yljaði....
eins og minningin.

föstudagur, apríl 01, 2005

Tíminn er afstæður....

Fjórða önn námsins er að verða búin, samt er ég nýbyrjaður. Finnst það hafa verið um daginn sem ég hóf lestur fyrstu bókarinnar.
Nú er törn framundan, (svitn), prófalestur með tilheyrandi innilokun. Hljómar ekki spennandi fyrir náttúrubarnið, og vorið að koma, er það ekki?
Það gengur á með éljum núna svo það er nú ekki mjög “þess legt” þessa stundina.
Hlakka alltaf til vorsins, finnst það besti árstíminn. Allt lífið sem kviknar allsstaðar.
Og svo veiðin. Þetta styttist. Þórisvatn, here we come....!
Það er tilhlökkun í mér varðandi sumarið. Þetta verður sólríkt og gott (veiði)sumar.

Verð að segja ykkur frá því, en Erla sleit af mér loforð um daginn varðandi veiðina í sumar....
Nú væri nærtækast að giska á að henni hafi fundist ég veiða of mikið síðasta sumar og hún hafi viljað heldur meira hóf í þetta í sumar...... en nei, loforðið var að veiða ekki minna en síðasta sumar...?? Hún þessi elska er nefnilega ekki minni sælkeri en ég og finnst gott að eiga ferskan silung í kistunni til að henda á grillið á tyllidögum... með öllu tilheyrandi.
Hún veit ekki hvað þetta var mikil fórn fyrir mig að lofa þessu.... í mikillli auðmýkt (stynj).
Guð blessi hana!!!!!! eins og konan sagði “Ekkert eins og vert er heldur almennilega”.
Ég elska þessa konu. Hún er ótrúlegt eintak.
Það hljómar eins og veiðibakterían sé að spila eitthvað inn í þessar yfirlýsingar mínar, en skilningur hennar á þessu áhugamáli mínu er bara einn af hennar miklu kvenkostum.
Hún er úr gulli..... í gegn.
Tek heilshugar undir: “Tveir eru betri en einn”.

Góða helgi vinir