sunnudagur, apríl 24, 2005

Dáyndis helgin

Við Erla áttum góða helgi. Á föstudagskvöldið eftir síðasta prófið skruppum við austur í sveitir. Stefnan var tekin á hótel Rangá til að halda upp á prófalok. Skemmtilegt og óvenjulegt hótel. Þegar þangað kom var tekið á móti okkur á óvenjulega notalegan hátt, veit ekki alveg afhverju en það var líkast því að við værum kóngurinn og drottningin. Dekrað við okkur. Stórskemmtilegt. Við nutum þarna góðrar fjögurra rétta máltíðar, lamb matreitt á þrjá vegu og eftirréttur á eftir. Kokkurinn þarna er góður og tókst það sem aðeins góðum kokkum tekst, að gefa matnum nýjan tón með tilbrigðum sínum. Það er alltaf skemmtilegt þegar þannig tekst til og hráefnið notað með þeim hætti að það gefur nýja upplifun. Eftir kitlun bragðlaukanna fórum við í heitan nuddpott sem var rétt fyrir utan herbergið okkar. Þar sátum við góða stund og horfðum á Rangána liðast hljóðlega milli bakka og nutum sinfóníu farfuglanna, sem nú er hafin á þessum slóðum og ég þekki svo vel frá gamalli tíð. Það var einstaklega notalegt og rómantískt.
Eftir síðbúinn morgunverð héldum við svo áfram austur. Nú var stefnan á Fitina. Þar hittum við fyrst Hlyn í nýja sumarbústaðnum sínum. Hörkufínt hús úr harðviði sem aldrei mun fúna. Til hamingju með það Hlynur og Gerður.
Svo fór að við heimsóttum öll systkyni mín sem eru með hús á Fitinni. Það var gaman að hitta fólkið sitt á svona fallegum degi og teygja svolítið úr sér prófstreituna í blíðunni sem þarna var.
Í lok dagsins dóluðum við okkur í bæinn í rólegheitum og enduðum daginn með heimsókn til vina okkar Tedda og Kötu, þar sátum við fram á nótt og spjölluðum um heimsins gagn og nauðsynjar.
Í dag sunnudag hélt svo þetta stresslausa líf okkar áfram, með heimsókn til mömmu á Vífilsstaði, og síðan til Ellu og Bigga en þau voru að koma frá Danmörku.

Góð helgi við rækt hjóna- og fjölskyldubanda.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já þetta var sko skemmtileg helgi. Gott að það var svona gaman hjá ykkur í sveitasælunni. En það var nú gaman að fá ykkur aftur. Sjáumst!!! Þín Arna