Það er gott að komast aðeins út. Veðrið er kalt, það er norðangjóstur (von á stormi) Ég fékk hálfgerða nostalgíu þegar frostið og snjófjúkið beit mig í kinnarnar. Það var nefnilega þannig á mínum bernskuárum að það var mikið labbað. Við krakkarnir löbbuðum alltaf í skólann, þá gilti einu hvernig viðraði, stundum var ofboðslega kalt. Það poppaði upp minning um óveðursdag einn sem við vorum í skólanum. Veðrið var svo vont að við máttum ekki fara heim enda heill kílómetri heim. Það var norðanáhlaup frost og bylur. Ég veit ekki hvort var ófært eða hvort það tíðkaðist bara ekki að sækja börn í skólann, akandi. Nema hvað, eftir langa bið í skólanum kom maður af næsta bæ að sækja okkur......gangandi. Við gengum síðan heim hönd í hönd í einni halarófu, hann fyrstur og síðan við börnin. Það sá ekki út úr augunum.
Mér er enn minnisstætt hvað það var kalt. Einmitt hvernig það beit í andlitið, frostið og fjúkið.
Ég fékk soðna mjólk að drekka þegar ég kom heim, hún yljaði....
eins og minningin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli