föstudagur, apríl 08, 2005

Hlustaði á Guðsmennina....

Gunnar Þorsteinsson og Bjarna Karlsson í sjónvarpinu í gærkvöldi. Þeir voru að ræða samkynhneigð. Þeir öttu kappi. Þeir komu að mínu mati báðir illa út úr þessu viðtali. Gunnar barði á þessu fólki með ritningunum og Bjarni setti sig útí kant hinum megin og samþykkti allar gjörðir þeirra og kallaði þetta allt fallegt og göfugt.

Einhversstaðar mitt á milli þessara tveggja trúi ég að Jesú hefði staðsett sig. Ég held að hann hefði ekki meitt menn eins og Gunnar gerir og heldur ekki blessað gjörðir þeirra eins og Bjarni gerir.

Hvers á fólk að gjalda sem fæðist inn í þennan heim með þessar kenndir? Á þetta fólk kannski eitthvað sameiginlegt með samversku konunni sem farísearnir og fræðimennirnir ætluðu að grýta. Var hún ekki í einhverjum vandræðum með sjálfa sig? Kristur reit í sandinn eitthvað sem fékk alla viðstadda til að láta steininn detta dauðan á jörðina og hverfa á braut, öldungarnir fyrstir. Það væri fróðlegt að sjá hvað gerðist ef hann sæti meðal Guðsmanna í dag sem ræddu um samkynhneigð í sjónvarpi.
Kannski yrði innleggið eitthvað í sömu ætt. Kannski myndi hann minna á hver skapaði hommana og lesbíurnar sem bera með sér karl – eða kven hormóna í brengluðum hlutföllum. Karl sem hefði átt að verða kona m.v. litninga og kona sem hefði átt að verða karl miðað við litningana sem hana gista. Kannski myndu þeir lesa (skrifað í sandinn), eigin lesti, syndir eða mistök, “eigin allt” sem ekki samræmist orðum ritningarinnar.

Ef einhver hnussar við mér hér vil ég benda honum á að það fæðist fólk með kynfæri bæði karls og konu [ ! ].... líka litningarugl. Hvað á þetta fólk að gera? Oftast ákveða læknar hvaða kyn það verður, og laga það sem þarf óháð kenndum fólksins þegar það vex úr grasi. Er mögulegt að læknirinn velji rangt kyn?
Ekki gleyma að þetta fólk er til – líka hér á Íslandi.

Þátturinn var til umræðu við kaffiborð á vinnustað einum í dag (sennilega ekki þeim eina) Þar féllu orð sem ég meiddi mig á þegar ég heyrði þau höfð eftir. “Gunnar er ekkert að afhomma, hann aftrúar fólk”.

Ég hjó líka eftir einni setningu í þættinum sem Bjarni sagði að mínu mati of glaðhlakkalega, en hún byrjaði svona: Það er að koma “ný þýðing” afar vönduð, sem segir “drengja” í stað “karlmanna”.....og allt í einu fann hann þar nýja meiningu eða nýja túlkun!!!!
Þessi setning undirstrikaði þankaganginn minn sem ég deildi með ykkur um daginn, hér neðar á síðunni, um bókstafstrú. Þýðingarnar breytast.
Gunnar sagðist trúa allri biblíunni, en hvaða þýðingu?
Þetta er flókið mál, það verður að viðurkennast.
Hvað er varanlegt?

“En nú varir trú von og kærleikur, og þeirra er kærleikurinn mestur”
Ætli það sé ekki stóra málið.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér þykir mér mælt af skynsamlegu viti.

Nafnlaus sagði...

Ég setti mig sjálfur í stellingar til að horfa á Guðsmenninna en annað hvort hef ég verið á rangri stöð eða röngum tíma því að ekki sá ég þetta viðtal.

Sjálfur er ég sannfærður að Guð er ekki mikið upptekinn af kynhneigð manna. Ég held að hann hafi meiri áhyggjur af kynhegðun manna.

Þegar Páll fjallar um samkynhneigð sem synd er hún listuð næst á eftir reiði. Ekki gerði postulinn neinn greinarmun á þessum tveimur syndaflokkum. Það kemur vel heim við það sem Jesús sagði með fyrsta steininn...

Jesús elskar alla menn og ég er sannfærður um að hann vill blessa alla menn og leiða þá í lífinu, samkynhneigða sem gagnkynhenigða. Á sama hátt er ég sannfærður um að gangkynhneigð er eðlilegri en samkynhneigð. En þessir þankagangar þínir Erling um litningarugl eru hins vegar staðreyndir sem ekki er hægt að hrekja. Annað sem gerist er að drengur með karlkyns kynfæri hefur frá barnsaldri alla takta konu og vill ekki vera annað en kona. Ég trúi því ekki að þeim einstakligi sé þá frá fæðingu ætlað að eyða eilífðinni í helvíti.

Kristur elskar okkur alltaf með kostum og göllum og er uppteknari af tækifærum okkar en göllunum okkar.

Heidar sagði...

Páll postuli ritaði: Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan. (II Kor.2.2).

Höldum okkur við boðun krossins og leyfum Heilögum Anda að upplýsa ALLA menn um synd réttlæti og dóm. Okkar er að boða Krossinn en ekki syndina.